15.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Magnús Jónsson:

Ég vona, að hæstv. forseti leyfi mér að fara örfáum orðum um málið almennt, áður en ég minnist á brtt. þær, sem ég hefi borið fram. Þetta mál var ekki rætt neitt hér við 1. umr., og þó það sé tækifæri til þess að koma að almennum aths. við 3. umr., þá býst ég við, að það borgi sig hvað vinnubrögð snertir að minnast heldur nokkrum orðum á málið almennt nú. Ég skal ekki fara óhæfilega langt út í það.

Mjólkurl. eru hér um bil jafngömul núv. ríkisstj. Þau voru fyrst sett sem bráðabirgðal. sama haustið og ríkisstj. tók við völdum. Þau bráðabirgðal. komu svo náttúrlega fyrir næsta þing á eftir, sem kom saman skömmu seinna, og voru þau þá afgr. Maður getur sagt, að þessi l. hafi frá upphafi borið dálítinn keim af þeirri stjórnarstefnu sem komið hefir fram hjá núv. ríkisstj., að taka málin á nokkuð einræðislegan hátt og hirða ekki mjög um, að eðlileg þróun og samkomulag manna á milli fái að ráða, heldur líta einstrengingslega á ákveðnar þarfir, og setja þegar í stað lagaákvæði um það, sem mönnum þykir áfátt. Þegar þessi mjólkurl. voru sett, þá komu þegar í stað fram mjög mikil andmæli frá Rvík. Ég held mig að nokkru leyti við Rvík, vegna þess að ég er fulltrúi þess kjördæmis, og þar sem Rvík á svo mikilla hagsmuna að gæta, bæði vegna neyzlu þessarar vöru og framleiðslu hennar þar, þá er eðlilegt, að raddir komi fram þaðan fyrir munn þm. þess kjördæmis. Það var þá þegar mikill uggur í mönnum hér út af þessum l. Fyrst og fremst getur maður minnt á neytendurna. Þeir voru hræddir við, að með þessu fyrirkomulagi myndi verð mjólkurinnar hækka til neytendanna, þar sem farið var fram á að leggja allmikil gjöld á þá mjólk, sem auðveldast var að framleiða og ná til, eins og þá var. Menn óttuðust þetta, enda er ómögulegt að neita því, að l. voru í upphafi sett til þess að forða frá verðfalli á mjólk. Mig undrar nokkuð, að við umr. í Nd. um þetta mál virðast einstaka hv. þm. hafa verið að halda fram allt öðru um málið, og það sömu þm., sem áður héldu því fram, að þetta væri gert til að vernda bændur og aðra mjólkurframleiðendur gegn of miklu verðfalli. Það átti að forða frá mjólkurstríði, sem stafaði af of miklum aðflutningi mjólkur á vissum tíma árs og þar af leiðandi frá hruni á verði mjólkurinnar. Hitt er svo annað mál, að neytendur mjólkur líta náttúrlega ekki með mikilli gleði á beinar ráðstafanir löggjafans til þess að gera dýrari þá vöru, sem er svo ákaflega mikið notuð af fátækum ekki síður en ríkum. Það sem menn borga fyrir mjólk í Reykjavík, er svo verulegur hluti af kostnaðinum við það að lifa, ekki sízt þar, sem börn eru á heimili, að það er ákaflega eðlilegt, að það komi fram nokkur uggur og ótti við ráðstafanir, sem gerðar eru til þess að hækka þá vöru. Það komu þess vegna nokkur andmæli frá Reykjav. út af þessu.

En það var dálítið einkennilegt fyrirbrigði að samtímis því, sem neytendur mjólkur voru hræddir við þessi 1., þá komu einnig fram allmikil andmæli frá framleiðendum mjólkur einmitt hér á bæjarlandinn. Það var af því, að með þessum l. var beinlínis stefnt í þá átt að taka að miklu leyti af framleiðendum á bæjarlandinu þá sérstöku hagsmuni, sem þeir höfðu af því að vera búsettir alveg við bæinn, og geta þannig hagnýtt mjólkina á betri hátt en þeir, sem voru fjær. Þetta kom m. a. fram í því, að gerilsneyðingarskylda var sett á alla mjólk. En menn, sem framleiddu mjólk á bæjarlandinu, og seldu hana til fastra kaupenda beint úr fjósinu, gátu ekki hugsað sér, að mjólkin yrði nein skaðræðisverzlunarvara, þó hún færi beint úr fjósum til ákveðinna neytenda. frekar en annarsstaðar á landinu, þar sem engin gerilsneyðingarskylda er. Með því að neyða menn til að gerilsneyða alla mjólk, þá var lagður á menn mikill kostnaður, sem ekki fer til neins, nema þeirra, sem taka að sér gerilsneyðinguna, og þá þeirra, sem hafa atvinnu af henni, en það er ekki ætlazt til, að það sé gróðafyrirtæki. Ég verð að segja, að ég gerði orð þeirra manna að mínum, þegar mjólkurl. voru til afgreiðslu, sem gátu ekki séð, ef nákvæmt heilbrigðiseftirlit var haft með kúnum, og dýralækni t. d. gert að skyldu að skoða hverja kú einu sinni á ári, að hægt væri að fá hollari mjólk en þá. sem kom beint úr fjósinu til neytenda. Gerilsneyðingin kemur þá fyrst til greina, þegar farið er að hella saman mikilli mjólk, svo kaupandi getur ekki greint uppruna mjólkurinnar. Þá kemur til greina þörfin á að bæta úr því samsulli með því að gerilsneyða alla mjólkina til þess að forðast hættu af einstökum gripum, sem kunna að eiga sína nyt í öllum þeim stóra sjóði. Hitt er fráleitt, að mjólkin sé hættuleg, þó hún sé framleidd í fjósi rétt við Rvík og flutt beint á heimilin í Rvík frekar en á öðrum heimilum landsins, svo framarlega sem þess er gætt, að gripirnir séu heilbrigðir. Þetta var eitt óánægjuefnið.

Það er ekki rétt að rifja þetta upp frekar, heldur aðeins minna á þetta sem sögulega endurminningu. En með þessu var lagt á mjólkurframleiðendur gjald, sem hér í Rvík hefir farið upp í 100 þús. kr. Þetta er gjald, sem í raun og veru var ekki nein brýn nauðsyn að leggja á.

Annað var það, að menn óttuðust þann kostnað, sem leiddi af skipulaginu, því margir framleiðendur mjólkur hér við Rvík lifðu á sinni framleiðslu, þannig að þeir önnuðust allt viðvíkjandi mjólkinni sjálfir, svo sem að aka henni í bæinn til þeirra, sem neyttu hennar, og spöruðu sér þannig milliliðakostnað.

Það var þess vegna allerfið aðstaða hjá Rvík út af þessu máli, þar sem bæði var óánægja neytenda og framleiðenda á bæjarlandinu. En það var ekki miskunn hjá Magnúsi, þegar l. voru sett, því hnefinn var bara settur í borðið og sagt, að svona skyldi það vera, og ekki öðruvísi.

Ég vil ekki gera mönnum getsakir um það, hvað mönnum hafi gengið til með þessu, en ég er hræddur um, að dálítil pólitík hafi blandazt í þetta mál, og þá sérstaklega austanfjallspólitík. Það var sérstaklega Framsfl., sem leit hýru auga til manna fyrir austan fjall, og hann gerir það líka enn. Þar var land að vinna, og það er eins og Filippus af Makedóníu sagði, að hver borg er vinnanleg, ef asni klyfjaður gulli kemst inn fyrir borgarhliðin. Ríkisstj. hugsaði eins. Það er líka hægt að vinna kjördæmi með verðjöfnunargjaldi. Ég vil ekki segja, að þetta hafi brugðizt ríkisstj. á neinn hátt. Gjaldið hefir streymt austur og atkv. til þeirra, svo nú ráða þeir fyrir austan fjall, og þá er sennilega einum höfuðtilgangi mjólkurl. náð.

Ég lýsti því yfir, þegar l. voru sett, að mér fyndist eðlilegt, að þetta skipulag, sem var sett á mjólkursöluna, væri látið ná til þeirrar mjólkur, sem flutt væri að til Rvíkur. Mér fannst það ekkert ósanngjarnt, að heild út af fyrir sig, þó hún sé innan ríkisheildarinnar, fengi sjálf að ráða og skipa um þá mjólk, sem hún sjálf framleiðir. Það var talið, að notaðir séu í Rvík um 6 millj. lítrar af mjólk. Af þessari mjólk var talið, að 1/3 væri framleiddur á bæjarlandi Reykjavíkur, eða 2 millj. lítra. Þá vildum við, sem litum á þetta út frá sjónarmiði Reykjavíkurbæjar, segja, að mjólkurþörf Rvíkur væri 4 millj. lítra, eða rúmlega það, og um þá mjólk skyldu þeir skipa eins og þeim sýndist. Þar gætu þeir fyrirskipað gerilsneyðingu og verðjöfnun til að jafna milli manna, en láta í friði þá mjólk, sem framleidd væri á bæjarlandinu. Það væri á okkar ábyrgð að neyta þeirrar mjólkur, og ef hún væri óholl, þá kæmi það niður á okkur, en þeir skyldu bara láta okkur í friði með hana. Alveg eins og kaupþörf eins lands á einhverri vöru er það, sem vantar á framleiðslu landsins sjálfs á þessari vöru, þá er markaðsmöguleiki Rvíkur fyrir mjólk það, sem bæinn vantar á framleiðslu mjólkur handa sér.

Þetta fannst mér sanngjörn afstaða. Ég bauðst til að vera í fullri samvinnu um hverskonar umbætur og fyrirmæli, sem menn vildu lögtaka um hina aðfluttu mjólk til Rvíkur, en ég vildi fá Rvíkurmjólkina undanskilda. Um þetta var ekki að ræða, og ég og aðrir vorum ekki grunlausir um, að þessi ræktun bæjarlandsins væri ef til vill ekki vel séð hjá þeim, sem framleiddu mjólk hér í kring og vildu koma mjólk sinni á markaðinn í Rvík. Það fer að verða skrítinn landbúnaðaráhuginn, ef slík ræktun, sem farið hefir fram á bæjarlandinu, þar sem ræktaðir hafa verið 524 hektarar með því að breyta holtunum kringum Rvík í fögur tún, er talinn bjarnargreiði við landbúnaðinn, svo það verði að þröngva kosti þeirra manna, sem ráðizt hafa í þessa ræktun, með jöfnuði á verði, þannig, að þessi ræktun hætti eða dragist saman eða það, sem ræktað hefir verið, falli í órækt aftur. Allt þetta eigi svo aðeins að gera til þess að aðrir menn, sem annarstaðar búa, geti fengið meiri markað. Þannig hefir þetta komið út.

Þessi ræktun hér var, eins og hv. 2. minni hl. landbn. tók fram, ákaflega dýr og byggðist beinlinis á því, að aðstaðan fyrir þessa menn var betri, eins og sést á því, að þeir fengu 5 aurum meira fyrir lítrann af sinni mjólk heldur en aðrir, sem stafaði af því, að þeir gátu komið mjólkinni nýrri til neytendanna. Það er ekki hægt að neita því, að það er mjög erfitt fyrir þá menn, sem ráðizt hafa í stórar framkvæmdir út frá ákveðnum forsendum. ef þessum forsendum er svo kippt í burtu allt í einu. — Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta viðvíkjandi Rvík.

En það er önnur misklíð, sem þessi l. hafa valdið og ég skal minna skipta mér af, en það er misklið, sem komið hefir fram milli þeirra, sem áttu að skipta herfanginu á milli sin, bændanna utan Rvíkurlandsins. Þetta var misklíð milli þeirra, sem bjuggu vestan og austan heiðar, og þessi misklíð hefir haldið áfram. Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, því bændur vestan heiðar höfðu að nokkru leyti sömu aðstöðu og þeir, sem ræktuðu bæjarlandið. Þeir hafa líka ráðizt í ræktun, sem var að vísu ekki eins dýr og ræktun bæjarlandsins, en þó dýrari en fyrir austan fjall. Þessi ræktun byggðist líka að nokkru leyti á því, að þeir, sem í hana lögðu, töldu sig hafa betri aðstöðu til að njóta mjólkurmarkaðarins í Reykjavík. Þessir menn töldu sig því geta setið að markaðinum í Rvík. En ég ætla ekki að fara frekar út í þennan ágreining. Hann hefir orðið örlagaríkur að ýmsu leyti, og valdið því að nokkru leyti, að l. hafa aldrei komizt fullkomlega til framkvæmda eins og látið var í veðri vaka að þau væru hugsuð.

Ég hefi heyrt, að einmitt þessar breyt., sem nú er verið að hugsa um að gera á mjólkurl., eigi að koma af þessari misklíð milli bænda vestan og austan heiðar. Það eigi að gera það með því að gera öllum jafnhátt undir höfði og gera aðstöðumuninn að engu, eða sama sem engu. Ég hafði álitið, að það ætti að fara öðruvísi að í þessu máli, og þá hefði betur farið. Ég hefði viljað byggja miklu meira á þeirri þróun, sem var í fullum gangi, þegar l. voru sett. Það var uppi tilfinning fyrir því, að það þyrfti að koma á föstu fyrirkomulagi um aðflutning og sölu mjólkur hér, og framleiðendurnir sjálfir voru að berjast við að koma þessu á. Það var svo ekki nema sjálfsagt, að löggjafarvaldið gripi inn í og aðstoðaði til að komast yfir örðugasta punktinn. Ég er sannfærður um, að þá hefði málið farið miklu betur, ef löggjafinn hefði aðeins komið sem hjálpandi hönd til þess að hjálpa samtökum framleiðendanna sjálfra til þess að komast yfir einstaka punkta, sem oft geta verið, þegar margir eiga í hlut. Það hefði því verið miklu betra, að löggjafinn hefði komið sem hjálpandi hönd, en ekki slegið hnefanum í borðið og sagt, að svona skyldi það vera, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr.

Með þessu frv. er gengið lengra en gert hefir verið í framkvæmd mjólkurlaganna frá 1934. Og ég verð að segja, að mér virðast þessar breytingartilraunir í frv. allar stefna lengra og lengra í þá sömu átt, sem ofskipulagningin vill sjálfkrafa fara. Löggjöf getur valdið þeim straumbreytingum á fáum árum, að ekki sé um annað að gera en að halda áfram undan straumnum, hversu varhugavert sem manni þykir það.

Samt er ég hissa á ýmsu bæði í frv. og grg. þess. T. d. því, þegar þar stendur, að menn hafi ekki órað fyrir þeirri miklu mjólkuraukningu, sem varð 1934–36 á verðjöfnunarsvæði Rvíkur. Menn máttu gæta þess, hvað uppland Rvíkur er stórt og fært um mikla framleiðslu, en hún sjálf lítil til að nota mjólkurafurðirnar. Verðjöfnunargjaldið kom mönnum til að minnka kjötframleiðsu, en auka mjólkina. Allir nota sér möguleikann til að selja mjólk, þegar þeim er bætt það upp í verðjöfnunarpeningum, ef þeir eiga erfiðari aðstöðu til flutninga. Svo er eins og löggjafinn hafi hrokkið við, þegar hann sá allan þennan mjólkurstraum — og gerir nú ráðstafanir á kostnað nærsveitamanna, eða einhverra, til að auka hann enn meir.

Verðjöfnunargjaldið, sem í upphafi átti ekki að fara hærra en í 5%, var hækkað upp í 8%, en nú þykir það allt of lítið, nú á það að mega hækka alveg ótakmarkað samkv. þessu frv. Mjólkursölunefnd ræður ein hæð þess og má eins og það er svo skemmtilega orðað: „breyta því svo oft sem þurfa þykir“.

Brtt. frá hv. 2. minni hl. landbn. get ég fallizt á að efninu til. Ég tel rétt að verðjöfnunargjaldinu séu einhverjar skorður settar, og er aðeins hræddur um, að ákvæði 1. brtt. við 1. gr. séu nokkuð rúm og of lítið bindandi. Það eru lög, sem hafa tog, ef aðeins er tekið fram, að taka skuli hæfilegt tillit til mismunandi kostnaðar — — á hinum ýmsu stöðum“. Ég vildi mælast til þess við hv. flm. 2. minni hl. landbn., að hann reyndi að finna annað orðalag, þó að mér sé ekki enn ljóst, hvernig hægt er að orða hana, svo að gagni komi.

Ég hefi þess vegna borið fram brtt. (þskj. 365) án þess að snerta við þessu atriði, en legg til í fyrsta lagi, að mjólkursölunefnd reikni út verðjöfnunargjaldið eftir á fyrir hvert tímabil, þegar séð er, hve mikið þarf til verðjöfnunar. — Mér er spurn: Hvað á mjólkurverðlagsnefnd að gera, ef ekki þetta? Það er ekki hún, sem ræður hæð gjaldsins, ef fylgt er lögunum, heldur ákveðst það af mjólkurmagninu og því, hve mikið er selt sem neyzlumjólk, hve mikið fer í osta til útflutnings, mysuost, skyr o. s. frv. og við hvaða verði. Ég bið þá, sem að frv. standa, að leiðrétta mig í þessu, ef það er ekki rétt. Mér skilst, að með þessu sé verið að innleiða mjög svipað fyrirkomulag og verið hefir kringum Osló, þar sem verðjöfnunargjaldið er reiknað út fyrir hvern mánuð eftir á. Þar er það hreinn útreikningur. Hér vil ég ekki binda þetta við mánuð, heldur eitthvert lengra tímabil, sem í:kveðið yrði með reglugerð.

Í öðru lagi legg ég til, að 3. efnismálsgr. 1. gr. falli niður. En í þeirri málsgr. er ákveðið, að tekjuafgangur mjólkurbús eða mjóikursamsölu á sölusvæðinu skuli renna í verðjöfnunarsjóð, eftir að nauðsynlegar afskriftir hafa farið fram og aðrar nauðsynlegar greiðslur, „enda hafi það þá áhrif á ákvörðun verðjöfnunargjaldsins“. — Ég legg mjög mikla áherzlu á það, að þetta falli niður. Ef hagnaður verður á samsölunni hér eða í Hafnarfirði, rennur hann til verðjöfnunar samkv. þessu ákvæði. Þegar mjólkurverðlagsnefnd ræður útborgaða verðinu og verðjöfnunargjaldinu, getur hún látið þennan hagnað verða svo mikinn, að hann komi næstum eða alveg í staðinn fyrir verðjöfnunargjald, og gert með því að engu undanþágu framleiðenda á bæjarlöndum Rvíkur og Hafnarfjarðar, þá undanþágu, sem þeir njóta nú fyrir eina kú á hvern fullræktaðan hektara af landi sínu. Það er auðséð, að nefndin getur sett útborgaða verðið svo lágt, að hagurinn af undanþágunni sé alveg farinn. Nú vil ég ekki ætla löggjafanum það, að hann vilji taka með annari hendinni það, sem hann gefur með hinni, og treysti því fastlega, að hv. deild samþ. þessa brtt.

3. brtt. mín er aðeins leiðrétting, að í staðinn fyrir „sama verð fyrir mjólk sína“ komi „sama verð fyrir jafngóða mjólk“. — Ég hafði gaman af því, að hv. frsm. 1. minni hl. orðaði þetta eins í sinni ræðu og ég í brtt. Enda er það eina rétta skýringin á orðtakinu, að bændur eigi að fá sama verð fyrir sömu vöru á sölustað. Og það vita allir, að mjólk er einhver sú vara, sem fljótust er að spillast á einhvern hátt. Það er ekki meining laganna að meta alla mjólk fyrsta flokks verði.

Það er 13. gr. laganna, sem segir, hvernig tryggja á, að mjólkin sé sama vara og hún á að vera. Í 4. málsgr. 1. gr. frv. er vísað til 13. gr. „(sbr. þó 13. gr.)“. Ég sé ekki annað en þetta „þó“ sé pennaglöp og eigi að falla burt.

Þá er brtt. mín við a. gr., að verðjöfnunargjaldið skuli miðast við meðalársnyt úr kú í hverju lögsagnarumdæmi. En meðalársnytin sé því aðeins áætluð 3000 lítrar úr kú, að ekki sé á staðnum nautgriparæktarfélag, er gefið geti skýrslu um raunverulega nythæð. — Það hefir verið sagt, að það væri ívilnun við þá, sem búa á bæjarlandi Rvíkur, að miða ársnyt þar við 3000 lítra, því að þeir gætu komið nytinni hærra. Þetta eru mjög villandi ummæli, því að meðalnytin er miklu lægri. (PZ: Já, 2980). Margir hafa sagt mér, að hún væri ekki yfir 2500 lítra. (PZ: En það er vitleysa). Þetta er mjög misjafnt, m. a. eftir árferði og möguleikum til kjarnfóðurkaupa. Mér er sagt, að á sumum búum komi menn ekki ársnytinni einu sinni upp í 2000 lítra á kú. Hitt er ekki að marka, þó að skýrslur nautgriparæktarfélaga sýni, að hægt sé að komast upp undir 3000 lítra meðalnyt eða jafnvel hærra með kjarnfóðrun. — Í hv. Nd. var frv. breytt til spillis og þessi brtt. mín gengur að miklu leyti í þá átt að færa frv. í sitt upprunalega form með dálítið ýtarlegri orðum. Og mér finnst það svo ljótt að sjá í lögum, að í einu einasta lögsagnarumdæmi skuli miðað við 3000 lítra ársnyt, alveg ranglega, en í öllum öðrum við raunverulega, útreiknaða nythæð, að ég trúi ekki öðru en hv. deild sjái sóma sinn í því að fella það burt.

Því næst hefi ég gert brtt. um að ný gr. bætist í frv. á eftir 3. gr., á þá leið, að auk þess, sem mjólk er metin með tilliti til þess gerlagróðurs, sem í henni finnst, skuli taka tillit til aldurs hennar og þeirrar vegalengdar, sem búin er flutt til sölustaðar. Þetta ákvæði á að falla inn í 13. gr. laganna, þar sem ræðir um flokkun til verðs. — Það er hjáleitt að setja reglur um fitumagn t. d., en telja fituna í mjóikinni eins, hversu gömul sem hún er eða langt að flutt og mikið búin að hristast. Mér er sagt, að mjólk, sem kemur hingað lengst austan yfir fjall, sé iðulega 2–3 sólarhringa gömul, og það viðgengist að fella hana ekkert í verði fyrir það. Ég spyr, hvort sannur sé sá orðrómur, að metin sé allstranglega mjólk hér úr nærsveitunum. en ekki mjólkin að austan. Ég veit, að margar sögur, sem ganga, eru ekki réttar, en ég vonast þá líka til, að það svar, sem kemur við þessu, verði satt. Auðvitað er að því lengra sem farið er í því að borga verðuppbætur á mjólk að austan, því ríkar verður að ganga eftir því, að sú mjólk sé ekki metin meira en hún er verð. — Mig minnir, að einhver þjóð, ég held Þjóðverjar, hafi í mjólkurskipulagi sínu ákvæði í líka átt og ég fer hér fram á. Mjólk, sem er skekin á slæmum vegum fulla 100 km., eins og austan úr miðri Rangárvallasýslu, getur a. m. k. hvergi talizt sama vara og mjólk, sem staðið hefir sama tíma kyrr í íláti á svölum stað. Mér datt satt að segja í hug að setja ákvæði um það, hvað verðið ætti að lækka mikið fyrir tilteknar vegalengdir, sem mjólkin yrði flutt, en ég gat ekki fundið nægar fyrirmyndir til að ákveða þann lækkunarstiga sanngjarnlega og lét það heldur vera óákveðið í brtt. Enda á öll nánari flokkun að vera reglugerðaratriði.

Svo er að lokum brtt., sem kemur málinu öllu og brtt. mínum mjög mikið við, en hún er sú, að ákvæði mjólkurlaganna um stundar sakir falli niður. Því að það er í raun og veru skilyrðið fyrir því, að ég gæti gengið með þessari fullkomnu verðjöfnun, sem frv. fer fram á, — þetta ef framleiðendurnir fá aðeins að ráða því fullkomlega sjálfir, hvernig fyrirtækin eru rekin. Þannig mun það vera í Noregi, þaðan sem fyrirmyndin er tekin; þar hafa framleiðendur sjálfir fullkomna stjórn á þessu og meiri yfirstjórn en við myndum hafa hér, þó þetta ákvæði um stundarsakir sé numið burt. Þar er þessu þannig hagað að n., sem hefir yfirstjórn aflar nokkurra skýrslna um, hvað af mjólk kemur í hvern verðflokk. Hennar starf er að taka á móti, reikna út og greiða út þetta verðjöfnunargjald. Það er vitaskuld alveg skilyrðið að þetta gangi allt með ánægju af, að framleiðendur fái sjálfir að ráða. Þar að auki verður maður að segja, að þetta er orðin hreinasta skrípamynd af bráðabirgðaákvæði, sem átti aðeins að gilda í 3–4 mánuði, að það skuli vera komin 3 ár, og er þetta því miður afarljós mynd af þessum heilindum. Fyrst fengu bændur í hendur hátíðlega með 5. gr. öll mjólkurbú og alla stjórn sem annaðist um sölu og dreifingu og alla framkvæmd. En svo er bara sett ákvæði, sem tekur þetta vald af bændunum, og fengið skipaðri n. í hendur. Og það er ekki látið nægja. Því svo er sett ákvæði, sem reynslan hefir sýnt, að það þarf samkomulag allra til að samþ., og þá er ekki annað en að fá einn mann til að eyðileggja það, og ef hann bregzt, þá þarf samþykki landbúnaðarráðherra. Ég heyrði af hendingu, þegar ég gekk um Nd., þegar þetta mál var þar til umr., að einn helzti meðmælandi þessa frv., 1. þm. Rang., sagði það, að þetta fyrirkomulag, sem frv. felur í sér myndi nema burt þann misskilning, sem hefði verið milli manna austan og vestan heiðar, svo að nú yrði sátt og samlyndi um málið. Þótti mér gott að heyra þetta, og það styrkti mig í þeirri trú, að þessi brtt. mín um að afnema ákvæðið um stundarsakir verði samþ., þar sem það er gert á sama tíma og breytingin á lögunum, sem þessi hv. þm. telur vera nægilega til þess, að bændur og framleiðendur geti loks fengið að taka málið í sínar hendur. — Ég hefi nú mælt fyrir þessari brtt. minni og mun láta mínu máli lokið að sinni.