14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Guðrún Lárusdóttir:

Herra forseti! Það fer eins og fyrri daginn þegar mjólkin kemur til tals, að umræðurnar teygja tímann, og skal ég ekki miklu bæta við þau mörgu orð, sem sögð hafa verið. Þó langar mig að staldra ofurlítið við einstök atriði. Yfirleitt miðar frv. að því að tryggja betur hag framleiðenda, og er kveðið skýrt að orði í 1. gr. frv., t. d. að allir mjólkurframleiðendur á verðjöfnunarsvæðinu fái sama verð fyrir mjólk sína, komna á sölustað verðjöfnunarsvæðisins. Nú er það vitað, að sú mjólk, sem flutt er til sölu, t. d. til Reykjavíkur, frá fjarlægum stöðum hins feikistóra verðjöfnunarsvæðis, getur engan veginn verið jafngóð. Því að það eitt út af fyrir sig að flytja mjólkina langa leið á slíkum farartækjum, sem um er að gera, og á hinum ójöfnu vegum, með öllum þeim hraða og hristingi, sem fylgir, hlýtur að hálfeyðileggja mjólkina. Að vísu er skýrt tekið fram í 13. gr. mjólkurl. að flokka skuli mjólkina eftir fitumagni og gerla. En þegar eru athugaðar allar aðstæður á hinu feikistóra svæði um meðferð á þessari vöru áður en hún kemst í hendur neytenda, þá get ég ekki séð, að þeim aðilja, sem vitanlega er engu minna verður en sá aðilinn, sem framleiðir — sé tryggt að fá ætíð góða vöru. Fyrir því tel ég, að brtt. hv. 1. þm. Reykv. undir stafl. e, þar sem hann vill skýrt taka fram, að sama verð fyrir mjólk komna á sama stað þýði einnig „fyrir jafngóða mjólk“, eigi fullan rétt á sér. Þessi breyt. lagar frv. til mikilla muna. Það er nú einu sinni svo, að fólk í kaupstöðum vill gjarnan, eins og aðrir, fá góða vöru fyrir peninga sína, og ekki sízt þegar varan er alldýr, og við vitum, að mjólkin er talsverður útgjaldaliður á hverju heimili. Þess vegna er það skylda þeirra, sem að þessu máli vinna, að reyna til að sjá svo um, að þessi vara sé sem bezt að gæðum.

Þá hefi ég hugsað mér að minnast á annað atriði þessa frv., síðustu málsgr. 3. gr., þar sem talað er um, að framleiðanda, sem nýtur undanþágu frá verðjöfnunargjaldi, sé heimilt að undanskilja til heimilisþarfa ½ lítra á dag á hvern heimilismanna sinna. Ég vil nú segja það, að úr því að farið er að skammta svona vöru til eigenda hennar, þá þykir mér skammturinn í minnsta lagi, já, svo lítill, að ég tel hann algerlega ófullnægjandi. Það má gera ráð fyrir, að á heimilum upp og ofan séu fleiri eða færri börn. Og halda hv. þdm., að ½ lítri af mjólk á dag nægi handa barni á fyrsta ári til dæmis? Og ef á að fara að skammta mjólkina þannig úr hnefa, þá veit ég ekki hvað langt við gætum komizt í að spilla heilsufari barnanna. Þegar þess er þar að auki gætt hvað fæði margra barna er einhæft, þá sé ég því síður ástæðu til að láta slíkt standa í löggjöf landsins. Þá má einnig benda á, að á sveitabæjunum er oft mjög gestkvæmt, og þykir húsmæðrunum gott að geta gefið gestum sínum mjólk að drekka, — og hvað endist hálfpotturinn þá, er gesti ber að garði? En það er nú tekið skýrt og skorinort fram í l. að undanskilja ½ lítra á hvern heimilismann og síðan skilgreint hverjir teljist heimilismenn, þ. e. þeir, er framleiðandi hefir á framfæri, svo og hjú hans. En það allra merkilegasta er, að það eru ekki nefnd nein börn, ekki gert ráð fyrir þeim. Þess vegna hefði ég viljað láta standa þarna „hvern fullorðinn heimilismann hans“, en láta börnin njóta þeirrar mjólkur, sem þau þurfa, án þess að setja lagareglur um, hvað smábarn megi drekka af mjólk á dag. Mun ég bera fram brtt. um þetta.

Þá kem ég að síðustu gr., 4. gr., þar sem talað er um, að ef mjólk, rjómi eða skyr er flutt inn á sölusvæði einhvers verðjöfnunarsvæðis af öðrum en þeim, sem sérleyfi hafa, þá skuli varan gerð upptæk með miklu brauki og bramli. Nú getur maður tekið til dæmis, að á þessu sölusvæði sé einhver kona í sveit, sem á góða kunningjakonu í kaupstað á sama sölusvæði, og langar hana til að gefa vinkonu sinni rjómaflösku eða nýmjólkursopa, og klipi nú af þessum hálfa potti til þess, — þá spyr ég: Er það meiningin, að hrifsa eigi þetta af henni og gera upptækt og fara þar að öllu eftir bókstaf þessara laga? Mér hefði fundizt réttara, að í staðinn fyrir „í heimildarleysi“ kæmi: „í ábata- eða hagnaðarskyni“, því að það er vitanlega það, sem andi laganna ætti að miða að, að menn flyttu ekki vöruna inn á verðjöfnunarsvæði leyfislaust í hagnaðarskyni. Sumum kann að virðast þetta smátt atriði, en mér sýnist það óprýði á l., og mættu þau sízt við meiri óprýði en á þeim er nú þegar.