14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Um flest þessi atriði, sem við hv. 1. þm. Reykv. höfum verið að karpa um, er búið að tala æðioft áður, og ætla ég ekki að rifja það upp. Get ég að mestu vísað til fyrri ræðu minnar, nema um eitt atriði. Það er sérfræðingurinn. Hann kom ekki í sumar, heldur alveg nýlega og er nýfarinn. Býst ég því ekki við, að það sé sami maðurinn og hv. þm. átti við. Og get ég gefið þær upplýsingar, að ég símaði til sendiherraskrifstofunnar og bað hana að gefa mér upplýsingar um, hvaða sérfræðing maður gæti fengið beztan frá Danmörku; og jafnframt til Ósló og spurði sendiherraskrifstofuna, hver sérfræðingur í Noregi væri beztur. Eftir fengnar upplýsingar fekk ég mann til að inna þetta af hendi, upplýsingar, sem liggja fyrir og koma fram á sínum tíma, ef þess er óskað.