20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Guðrún Lárusdóttir:

Herra forseti! Það má búast við því, að allar brtt. stórar og smáar, verði felldar, eftir því, sem fram kom við 2. umr., svo maður á ekki von á góðu, þó maður reyni að bera fram brtt., sem manni virðist mundi gera frv. ofurlítið frjálslegra en það er. Það eru 2 smáar brtt., sem ég flyt við 3. og 4. gr. frv. Sú fyrri miðar að því að auka ofurlítið þann mjólkurskammt, sem á að fara að skammta bændunum. Úr því að gengið er inn á þá braut á annað borð, að tiltaka, hvað mikla mjólk framleiðandi megi hafa til heimilisnota sinna án þess að borga af því verðjöfnunargjald, þá ætti að hafa skammtinn ögn ríflegri og ekki skera hann svo við neglur sér eins og gert er með því að gera ráð fyrir ½ lítra á dag á hvern heimilismann, án tillits til þess, hvort á heimilinu eru ungbörn, sjúklingar eða gamalmenni, sem verða að fá mikla mjólk, ef vel á að vera. Mér finnst blátt áfram ósæmilegt að láta annað eins standa í löggjöf þjóðarinnar, og þó segja megi, að hægt sé að veita undanþágur frá þessu, þá eru lög alltaf lög, og lögunum er gert fulllágt undir höfði með því að ákveða þennan ½ lítra á heimilismann hjá bændum, mönnunum, sem framleiða mjólkina sjálfir.

Ég hefi því lagt til, að þetta sé hækkað upp í 1 lítra handa hverjum heimilismanni. Ég treysti því, að fleiri en ég líti með sanngirni á þetta atriði og þyki mjólkurskammturinn æði nánasarlegur, sem frv. ætlar framleiðendum sjálfum.

Hin brtt. er við 4. gr., en sú gr. fjallar um það, að mjólk, rjómi eða skyr, sem flutt er inn á sölusvæði einhvers verðjöfnunarsvæðis af öðrum en þeim, sem sérleyfi hafa þar til sölu á vörunni, sé gerð upptæk og með þessar vörur farið eins og verstu tegund bannvöru, þótt ekki sé hér um annað að ræða en meinlausan mjólkurpott eða skyrspón. Til þess að liðka þetta til, þá datt mér í hug að bera fram brtt. um það, að í stað orðanna „í heimildarleysi“ komi „í hagnaðarskyni“ svo að ef það þætti sannað, að þessi vara væri flutt inn á sölusvæði í því skyni að hafa upp úr henni peninga, þá sé hún gerð upptæk. En mér þykir það dálítið strangt ákvæði að hegna fyrir það, þó menn vilji að gamni sínu koma með góðgæti eins og rjóma, skyr eða mjólk úr sveitinni til kaupstaðarins til þess að gleðja með því vini sína. En það er komið í veg fyrir, að hegnt sé fyrir slíkt, með því að breyta orðalaginu og segja „í hagnaðarskyni“ í stað orðanna „í heimildarleysi“. Menn sjá, að þetta er gert til þess að gefa frv. ofurlítið frjálslegri blæ og reyna að losa um þær óþægilegu skorður, sem maður er satt að segja búinn að fá meira en nóg af upp á síðkastið.