20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Magnús Jónsson:

Út af því, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði um m jólkurverðið, vil ég taka það fram, að það kemur málinu ekkert við, hvort mjólkurverðlagsnefnd, þegar hún ákveður mjólkurverðið, gerir það með tilliti til þessu frv. eða ekki. Eftir þessari löggjöf á hún að jafna verðið á allri mjólk, sem framleidd er á verðjöfnunarsvæðinu, og það þarf ekki annað en heilbrigða hugsun til þess að sjá, að eftir því sem meira fer af mjólkinni til vinnslu þeirra efna, sem seljast fyrir lægst verð, eftir því verður verðjöfnunargjaldið hærra á neyzlumjólk. Þetta er augljóst. Í grg. frv. segir, að hjá mjólkurbúunum á svæðinu hafi mjólkurframleiðslan aukizt um 83%, eða sé nú 11,7 millj. lítrar í stað 6,4 millj. lítrar 1933. Það verður því alltaf meira og meira af mjólk, sem fer til vinnslu, og eftir því kemur verðjöfnunargjaldið harðar niður á neyzlumjólkinni. En ég vona, að Alþingi vitkist svo, að það grípi heldur til annara ráða til þess að afla verðjöfnunarsjóði tekna heldur en hækka verðið á þessari vöru, sem seinast af öllu má hækka.

Það þarf ekki að bregða mér um það, að ég tali sem fulltrúi þessara manna, því það eru líka margir mjólkurframleiðendur, sem álíta, að það eigi ekki að þröngva þeirra hagsmunum svo, að þeir verði neyddir til þess að fremja slíka vandræðaráðstöfun eins og að hækka mjólkurverðið.