03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

126. mál, raforkuveita á Akureyri

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti! Eins og þskj. 228 ber með sér, er grg. með frv. þessu, en þar sem sú grg. er meira almenns eðlis um þetta mál, vil ég fara um frv. nokkrum orðum. Þetta er mikilsvert mál, sem legið hefir fyrir Alþingi áður, en ekki náð fram að ganga. Á síðasta þingi fékkst heimild samþ. um rafvirkjun í Laxá hjá Brúum í Þingeyjarsýslu.

Ég vil nú leyfa mér að skýra frá nokkrum undirstöðuatriðum í þessu máli, svo að mönnum skiljist rökin fyrir óskum okkar. Ennfremur vil ég leggja fram kostnaðaráætlun um rafveituna. Ég hefi leitað upplýsinga hjá rafmagnseftirliti ríkisins, svo að tölurnar eru eflaust ábyggilegar.

Fyrst vil ég benda á, að íbúatala Akureyrarkaupstaðar var í árslok 1936 4520, auk Glerárþorps, sem hafði 400 íbúa. Auk þess koma hér til greina 100 manns í Kristneshæli og bæjum þar í grennd, sem rafmagns njóta frá raforkustöð Akureyrar. Akureyri er að verða tiltölulega mesti iðnaðarbær landsins. ef hún er ekki þegar orðin það, svo að þörf hennar fyrir rafmagn er mikil. Líkur eru til, að iðnaður aukist þarna að miklum mun á næstunni. En á síðari árum hefir orðið tilfinnanlegur skortur á rafmagni þar á staðnum og í nágrenninu, og hefir þetta staðið bænum fyrir þrifum.

Iðnaðarfyrirtæki bæjarins eru þessi: Klæðaverksmiðja, sútunarverksmiðja, frystihús, 2 skóverksmiðjur, tunnuverksmiðja, mjólkurvinnsluverksmiðja, 2 smjörlíkisverksmiðjur, nokkur vélaverkstæði, margar trésmiðastofur o. fl. Auk þess eru skammt frá Akureyri 3 síldarbræðsluverksmiðjur í Krossanesi, Dagverðareyri og á Hjalteyri. Er því auðsætt, að hér er um að ræða verulega þörf fyrir raforku, en með þeirri litlu stöð, sem nú er á Akureyri, er ekki unnt að fullnægja henni. Núverandi iðjufyrirtæki eru talin þurfa 1120000 kw. á ári, en þessi þörf vex hröðum skrefum.

Efnahagur Akureyrar er mikið atriði í þessu máli. Talið er, að verðmæti húsa, lóða og landa á Akureyri hafi numið 11 millj. kr. í árslok 1936, en skattskyldar tekjur voru þá 1600 þús. kr. Eignir Akureyrarbæjar voru á þessum tíma 1924 þús. kr., en skuldir hans 1105 þús. kr. Þar af voru þó 133 þús. kr. skuldir við fyrirtæki bæjarins (höfn og rafveitu). Auk þess voru eignir hafnarsjóðs í árslok 1936 768 þús. kr., en skuldir hans 179 þús. kr. Eignir rafveitunnar voru á sama tíma 365 þús. kr., en skuldir 217500 kr. Skuldlausar eignir voru þannig í árslok 1936: Akureyrarbæjar kr. 819059, hafnarsjóðs Akureyrar kr. 589039,00 og rafveita Akureyrar kr. 147534,00, eða alls kr. 1555632.00.

Eins og í grg. segir, þá var núv. rafveita Akureyrar reist árið 1922. Afl hennar var aðeins 330 hestöfl (á túrbínuása). Stöðin var byggð með það fyrir augum, að hún væri aðeins ljósastöð og þar að auki notuð lítilsháttar til smáiðju og suðu. Var það aðallega bundið við sumarið, því menn vissu fyrirfram, að vatnsmagn Glerár er af svo skornum skammti, þegar það er minnst í frostum á vetrum, að það gæti ekki gefið afl nema til ljósa, enda kom það brátt í ljós. Svo var bætt úr brýnustu þörfinni með því móti, að keypt var díselvél, 165 ha, og var svo til ætlazt, að hún væri aðeins notuð, þegar minnst væri vatnsrennslið, því hún myndi verða dýr í rekstri. En þarfirnar voru svo miklar, að hún hefir verið notuð sleitulaust allt árið um kring, og hrekkur þó ekki til.

Þessi vél var keypt árið 1930. Á þessum 7 árum, sem síðan eru liðin, hefir komið í ljós, að hún dugir ekki, og þarf nú að bæta við, og það að verulegu leyti. Orkuframleiðsla stöðvarinnar hefir aukizt jafnt og þétt. Árið 1925 er hún 490 þús. kwst., en 1936 er hún 970 þús. kwsf. með 3320 klst. hagnýtingartíma mesta álags. Þetta eru þau undirstöðuatriði, sem ég vildi benda hv. þdm. á, svo að þeir geti áttað sig á því, hvernig þessu er háttað.

Þá eru það hin atriðin, sem snerta þetta væntanlega verk, sjálf kostnaðaráætlunin. henni hafa þau útboð verið byggð, sem dagsett eru í okt. og ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að koma með nokkrar tölur. Það er þá fyrst: Stífla og inntak 77000 kr. 2. Þrýstivatnspípa úr tré, 690 m, löng 223000 kr. 3. Stöðvarhús með undirstöðum undir vélar 152000 kr. 4. Íbúðarhús fyrir stöðvarverði 20000 kr. 5. Vélar og tengivirki í orkuveri, ein vélasamstæða, 2000 hö. 231000 kr. 6. Háspennulína, 60,4 km. á einföldum tréstólpum, 340000 kr. 7. Aðalspennistöð við Akureyri, einn spennir 1 700 kw., 69000 kr. 8. Yfirumsjón, vextir á byggingartíma og ófyrirséð, um 25%, 277000 kr. Þetta verður samtals kr. 1388000.00. C undirbúningur og ýms kostnaður 112000 kr. Og þetta þá alls 1500000 kr. Nú er gert ráð fyrir, að orkuverið sjálft sé nægilegt með þessum einstæðu vélum, en byggt með það fyrir augum, að hægt sé að setja upp aðra vélasamstæðu, 2000 ha., en kostnaður við það er áætlaður 230000 kr. Nú er talið fullvist, að við að taka hvorttveggja nú í einu myndu sparast allt að 60–70 þús. kr. Og mér er kunnugt um, að rafveitustjórn Akureyrar hefir fallizt á að taka báðar vélasamstæðurnar í einu, bæði vegna sparnaðar og eins vegna hins, að vænta mætti, að menn fengju þarna rafmagn fyrir örlítið verð til upphitunar húsa. Og þegar aukakostnaður er ekki meiri en 230 þús. kr., þykir ekki hlýða annað en ráðust í þetta.

Í þessum stofnkostnaði eru ekki teknar með aðgerðir á vegum og brúm vegna flutninga á efni og vélum til virkjunarinnar. Eins og ég gat um áðan er þetta langt frá Akureyri, allt að 74 km. Mestur hluti leiðarinnar er lagður þjóðvegur. Það er yfir tvær heiðar að fara. Vaðlaheiði og Fljótsheiði, en það má segja, að mestan tíma ársins sé þar góður vegur. Hann þarf þó dálitla aðgerð, sérstaklega tvær smábrýr. Auk þess er enginn vegur frá þjóðveginum og upp að gljúfrum í Laxá.

Ef maður lítur á þennan stofnkostnað, hvernig hann skiptist eftir efniskaupum, farmgjöldum, vinnulaunum o. s. frv., þá er það þannig: Aðkeypt efni 550 þús. kr. Farmgjöld 47 þús. kr. Aðflutningsgjöld 44 þús. kr. Vinnulaun og verkstjórn 450 þús. kr. Flutningur á landi 20 þús. kr. Vaxtatöp og ýms kostn. 389 þús. kr. Þetta er alls 1½ millj. kr.

Þá er rekstrarkostnaðurinn þriðja atriðið, sem er merkilegt, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, einnig koma þar með nokkrar tölur.

Íbúatala á Akureyri var í árslok 1936 4520. Ef gera má ráð fyrir sama vexti og undanfarið, má reikna með 4600 íbúum í árslok 1938, eða að aukningin nemi árlega 40 manns. Í Glerárþorpi búa 400 manns og utan Akureyrar um 100 manns notenda. Þetta er samtals 5100 manns. Héraðið í kring er mjög blómlegt. Byggðin inn af Akureyri er 108 býli með 1100 íbúum, og hún mundi vafalaust vilja taka þátt í raforkunotkununni. og sama er að segja um kauptúnin, t. d. Dalvik, Hrísey og Hjalteyri, og að austan Svalbarðseyri. Auk þess gæti Húsavík komið til greina. Rafveitan þar er lítil, og þar sem þetta er upprennandi iðnaðarbær, mætti gera ráð fyrir, að hún vildi taka þátt í þessari rafveitu, a. m. k. sem kaupandi.

Ef reiknað er með Laxárvirkjuninni, með 2000 hö eða 1350 kw. í mesta álagi, og auk þess Glerárraforkuverinu með allt að 250 kw., þá eru þetta alls 1600 kw. Og það gera 300 vött á mann í mesta álagi.

Eftir reynslu hér á landi og einnig miðað við reynslu erlendis, má reikna með 49 kr. tekjum á hvern íbúa í kaupstöðum utan Reykjavíkur, þegar þátttaka hvers íbúa í mesta álagi orkuvers er orðin sem svarar ca. 300 vöttum.

Sé reiknað með þessum tölum, þá er dæmið einfalt, og tekjur þessarar rafveitu af raforkusölu verða þá alls 5100X49=250000 kr., þegar stöðin er komin í fulla notkun. En þess er að gæta, að hér er reiknað með stærri stöð.

Árleg útgjöld rafveitunnar áætlast þannig: 1. Til viðhalds á orkuveri, háspennulínu og aðalspennistöð, 1,4% af 1500 þús. — 21000 kr.

2. Til viðhalds innanbæjarveitukerfi Akureyrar samkv. áætlun Árna Pálssonar og K. Ottersteds 12000 kr.

3. Aukningar bæjarveitukerfis 20000 kr.

4. Gæzla og innheimta 57000 kr., alls kr. 110000,00.

Þá yrðu eftir til að standa straum af stofnláni Laxárvirkjunarinnar, þeim lánum, sem hvíla á núverandi rafveitu og viðhaldi hennar, kr. 140000,00. Það má aðeins geta þess að lokum, að sú litla raforkustöð, sem við höfum á Akureyri (330 hö. á túrbínuása), gefur bænum nú með þessari díselvél 148 þús. kr.

Við, sem til þekkjum þarna norður frá og vitum, hversu mikil þörf er fyrir meiri raforku í bænum, göngum að því vísu, að þetta sé ekki mjög áhættumikið, m. ö. o. teljum okkur trygga — með þeirri raforkunotkun, sem er í vændum — að geta staðið undir þessu láni.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta meir. Ég bygg, að ég hafi gefið þær beztu upplýsingar, sem fyrir hendi eru. Og ég vildi að lokum óska þess, að þetta þýðingarmikla mál fyrir Akureyri og stóran part af Norðlendingafjórðungi mætti mæta góðvilja og skilningi hv. þdm.

Ég vil svo mælast til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað, til 2. umr. og fjhn.