28.10.1937
Neðri deild: 13. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

53. mál, lestrarfélög og kennslukvikmyndir

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að aflað verði á sérstakan hátt nokkurrar fjárupphæðar, sem verja skuli árlega til styrktar lestrarfélögum í sveitum og kauptúnum.

Það er kunnugt, að í flestum kaupstöðum landsins eru bókasöfn, sem reka útlánastarfsemi og njóta yfirleitt nokkurs styrks úr ríkissjóði, sem smámsaman hefir verið ákveðinn í fjárl. Hinsvegar hafa í strjálbýlinu mjög víða úti um sveitir landsins risið upp samtök um að koma á fót bókasöfnum fyrir almenning, hin svokölluðu lestrarfélög. Það er nú orðið langt síðan þessi samtök hófust fyrst og nú er meiri eða minni visir til slíkra samtaka viða í sveitum landsins, kauptúnum og kaupstöðum. En félög þessi eiga víða mjög erfitt uppdráttar. Það gengur misjafnlega að fá menn til að ganga í þessi félög og taka á sig útgjöld þeirra vegna, sem ekki verður hjá komizt, ef félögin eiga að geta starfað. Við flm. þessa frv. álítum fullkomlega tímabært, að þessi menningarviðleitni í strjálbýlinu sé viðurkennd. Við þykjumst þess vissir, að þó ekki verði um að ræða mjög háa upphæð árlega, sem til þessa verði veitt, þá verði það sú hjálp og sú viðurkenning, sem mundi verka mjög örvandi á þessa starfsemi.

Áður en skólar voru almennir hér á landi, hélt þjóðin við menningu sinni með lestri bóka. En þrátt fyrir það, þó skólar séu nú komnir fyrir almenning í landinu, þá er enn margt fólk, einkum í strjálbýlinu, sem verður að halda við menntun sinni og afla sér menningar á annan hátt, og eru það þá bækurnar, sem gera fólkinu það fært að tengja það við umheiminn. Og á því er enginn vafi, að sú menntun, sem skólarnir veita, kemur því aðeins að fullu gagni, að almenningur hafi bókakost. Ýmsir telja sjáanleg merki þess. að lestrarlöngun almennings og bóklestur, einkum í þéttbýlinu, fari minnkandi. Menn kjósi fremur að afla sér fræðslu á annan hátt en með lestri bóka. En í strjálbýlinu er þessu minna til að dreifa. Og við flm. þessa frv. teljum hina mestu þörf að styðja þessa gömlu og nýju menningarviðleitni í strjálbýlinu. Menningarviðleitni, sem stefnir í þá átt bæði að koma í staðinn fyrir starf skólanna og auka gildi þess.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv. að þessu sinni, en vil mega vænta þess, að hv. þdm. sjái, að þó hér sé ef til vill ekki stórt mál á ferðinni, þá er það gott mál. Að lokinni þessari umr. óska ég, að málinu sé vísað til 2. umr. og menntmn.