18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

1. mál, fjárlög 1938

*Pálmi Hannesson:

Að vísu er lítið gagn að mæla hér yfir tómum stólum í Alþingi. En ég á eina litla till. á þskj. 428, sem ég vil þó flytja örfá orð með. Hún er um það, að heimila ríkisstj. að greiða Jóni Ófeigssyni full laun, ef hann lætur af starfi í ár vegna veikinda. Ástæður eru þær, að dr. Jón Ófeigsson er og hefir verið mjög veikur og verður að taka sér hvíld frá kennarastörfum. Við væntum þess, að hann eigi afturkvæmt í skólann. En það er engan veginn vist. Hér á í hlut tvímælalaust einn merkasti skólamaður og kennari landsins. Hann er þekktur sem stúdentakennari fjöldamörg ár, kennslubókahöfundur og stórmerkur orðabókahöfundur. Þetta er landslýð kunnugt. En ég vil bæta hér enn nokkru við. Dr. Jón er framúrskarandi embættismaður, sem gerir öll sín embættisverk fullkomlega. Hann hefir að vísu þótt gera nokkrar kröfur til annara, en ég fullyrði, að hann hefir alltaf gert mestar kröfur til sín sjálfs.

Um þetta mál tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Ég vænti þess, að allir hv. þm. greiði atkv. með þessari till. minni.