15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

140. mál, mæðiveikin

Skúli Guðmundsson:

Hv. þm. Ak. hélt hér langa ræðu, og þó hv. þm. Mýr. hafi þegar tekið fram flest af því, sem ég hafði við þá ræðu að athuga, vil ég þó bæta við nokkrum orðum. — Hv. þm. vill láta líta svo út, sem of mikið hafi verið gert úr veikinni, að hér hafi að óþörfu verið vakinn upp draugur til að hræða fólk á. Fullyrt hafi verið, að hér sé um nýjan sjúkdóm að ræða, og á þeirri fullyrðingu byggð löggjöf og veitt stóreflis fjárframlög. Til stuðnings máli sínu las hv. þm. upp kafla úr þýzku bréfi og kom með sæg af vísindalegum tilvitnunum. En það kemur ekki því máli við, sem hér er til umræðu, hvort veikin er ný eða gömul eða hverju nafni hún nefnist. Staðreyndin er sú, að féð hrynur niður í ýmsum héruðum landsins, og bændur hafa nú þegar beðið svo mikið tjón af völdum veikinnar; að enginn neitar því, að það sé siðferðisleg skylda hins opinbera að rétta þeim hjálparhönd. Samt reynir hv. þm. Ak. að læða því inn, að tjón bænda sé ekki meira en það, að ráðstafanir eins og þær, sem hér er lagt til að gerðar verði, séu að meira eða minna leyti óþarfar. Þessu vildi ég eindregið mótmæla. — Hv. þm. vitnaði máli sínu til stuðnings í samtal, sem hann hafði átt við bónda í Vestur-Húnavatnssýslu. Kvaðst hann hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að bóndinn hefði ekki misst neitt af fé sínu, hann hefði slátrað 60 kindum, og veikin væri nú um garð gengin hjá honum. Þetta er ekki rétt. Mér er kunnugt um, að hjá þessum bónda hefir veikin verið síðan á hausti 1936, og er þar enn. Út af þessu vil ég geta þess hér, að menn hafa mætt veikinni á tvennan veg. Mér er kunnugt um, að þar, sem veikin lagðist að fyrst, í Borgarfirði, drap hún margt fé, – og þegar hún svo fór að berast norður, til Húnavatnssýslu, í fyrrrahaust, og menn vissu, að um samskonar veiki var að ræða, þá þótti ýmsum bændum sá kostur vænstur, að taka það úr fé sinu, sem sýktist, og slátra því, svo að það smitaði ekki út frá sér, og til þess að gera sér eitthvert verð úr þessum kindum. Aðrir hafa ef til vill lagt trúnað á það, sem hv. þm. Ak. og fleiri héldu fram, að hér væri ekki um neina nýja veiki að ræða, og mundi hún því fjara út af sjálfu sér. Þessir menn gættu því ekki að slátra fá sínu í tíma, og í flestum tilfellum í Húnavatnssýslum hefir niðurstaðan orðið sú, að féð hefir smádrepizt, venjulega í haganum, og eigendum þess ekki orðið neitt úr því. Ég skal nefna dæmi um þetta. Bóndi einn í Miðfirði átti hátt á annað hundrað fjár, átti nóg hey og fóðraði vel. Þessum bónda leizt ekki á að slátra þeim kindum, sem fyrst veiktust, en það var síðara hluta vetrar. Afleiðingin varð sú, að fé hans var að drepast allt vorið og sumarið. Nú fyrir nokkru átti þessi bóndi 10–20 kindur eftir, og tala þeirra lamba, sem hann lagði inn í kaupstaðinn í haust, var ekki nema 20–30% af því venjulega. Fleiri dæmi eru til lík þessu. Ég vil því mótmæla því eindregið, sem hv. þm. Ak. var að dylgja um, að hér sé einungis um trú að ræða, ímyndunarveiki, sem búið sé að berja inn í fólk, og því sé ástæðulaust fyrir þing og stjórn að hafa afskipti uf málinu. — Hv. þm. kvartaði yfir því, að dýralæknar landsins hefðu ekki fengið leyfi til að runnsaka veikina. Hann var þó í öðru orðinu að tala um þær athuganir, sem hann hefði gert. Ég skal segja hv. þm. það, að ég treysti mér til að benda honum á bændur í Vestur-Húnavatnssýslu, sem fúslega leyfðu honum að gera athuganir og tilraunir á fé sínu, þó að skoðanir manna þar um dýralæknishæfileika þessa hv. þm. séu mjög skiptar. En bændur munu yfirleitt hugsa sem svo, að þó að ein og ein kind kunni að misfarast vegna tilrauna, sem gerðar séu, væri ekki miklu til kostað, ef það gæti leitt til þess, að meðal fyndist við veikinni. En dýralæknarnir hafa gert mest að því að hafa hátt um veikina, og þykjast hver um sig hafa höndlað allan sannleika um hana. Og starf þeirra hefir gengið mest út á það að rifa niður hver fyrir öðrum uppgötvanirnar.