16.12.1937
Neðri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

140. mál, mæðiveikin

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. hefir flutt hér nokkrar brtt. á þskj. 401. Meginhluti þeirra brtt. er aðeins breyt. og bæting á formi frv., en ekki efni. Hefir n. við yfirlestur á frv. og leiðbeiningar ýmissa þm., sérstaklega hv. 1. þm. Skagf., breytt ýmsu þannig, að skýrar kæmi fram en í frv. Þetta skýrir sig allt sjálft. Eina efnisbreytingin er aftan við frv., ný málsgr. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er landbúnaðarráðherra að fela nefndinni yfirstjórn og eftirlit með vörnum gegn útbreiðslu mæðiveikinnar. Skipar þá landbúnaðarráðherra framkvæmdarstjóra eftir till. nefndarinnar, er annist framkvæmd varnanna.“ Ef hægt er að fá heppilega menn, þótti n. rétt og einlægast og án vafa kostnaðarminnst að fá sömu menn í starfið, og þótti því rétt að hafa heimildina. Um frv. að öðru leyti skal ég vera fáorður, en aðeins segja nokkur orð til hv. þm. Ak. út af því, sem hann beindi til mín við fyrri umr. málsins. Hann sveigði því að mér, að ég þættist sitja sjálfur inni með alla þekking og þyrfti ekki hans upplýsinga. Það er fjarri því, að svo sé, eins og ég held, að hafi komið greinilega fram í ræðu minni, að hans fagþekking væri vitanlega mörgum sinnum meiri en mín. Hinu hélt ég fram, að það, sem hann færi með um orsök og eðli sjúkdómsins, komi ekki þessu frv. við, fyrst og fremst vegna þess, að þetta frv. fjallar ekki um þessa hlið málsins, sem að vörnunum snýr, en ræða þm. grundvallaðist á því atriði, heldur fjallaði frv. um það, á hvern hátt bætt yrði úr því tjóni, sem þegar er orðið, hvort sem það er fyrir handvömm þeirra, sem að vörnunum standa, eða ekki. Í öðru lagi vil ég segja það, að ég á engan hátt ásaka hann og aðra dýralækna fyrir, að þannig er komið, sem komið er. En í þessu sambandi hélt hann fram, að slík ásökun væri sama og ef mannalæknar í Reykjavík væru ásakaðir fyrir það, hvernig fór um spönsku veikina, sem geisaði 1918. Þetta er ósambærilegt, — og ég ætla hvoruga að ásaka. En ég vil aðeins segja, að alveg eins og þá var reynt að stemma stigu fyrir útbreiðslu veikinnar, er nú reynt af Alþingi að stemma stigu fyrir útbreiðslu fjárpestarinnar, eftir að það sást, hversu hættuleg hún var. En mér virtist hv. þm. beina ákúrum til Alþingis út af aðgerðum síðasta þings, að koma upp girðingum. Ég sé ekki, hvað annað var hægt að gera. Það hefir sýnt sig og sýnir enn, svo að ekki getur leikið á tveim tungum, að þessi veiki er smitandi. Það er hægt að rekja fyrstu upptökin bæ frá bæ. Og út af því, sem hv. þm. sagði, að ekki hefði tekizt að sýkja kindur, vil ég upplýsa það, að þetta hefir rannsóknarstofu háskólans tekizt, með því að sprauta inn í þær sýklum, þannig að það er sannað, að þessi sýki er smitandi. Og þá var ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að gera það, sem unnt var, til þess að koma í veg fyrir þær samgöngur milli sýktra og ósýktra svæða, eftir því sem mögulegt var, og til þess var engin önnur leið en girðingar. Hitt er annað mál, að þeir fræðimenn, sem hafa haft veikina til meðferðar — og ég tel dýralæknana þar með — hefðu átt að gera það, sem í þeirra valdi stóð til þess að gefa upplýsingar um það, hvaða eðlis veikin er, og má vel vera, að ýms mistök hafi orðið hjá þeim, sem með málið hafa farið. En á áliti þeirra hefir byggzt almenningsálitið, a. m. k. að nokkru leyti, og aðgerðir löggjafarvaldsins. Og ég sé ekki, að þingið hafi getað gert annað en það, sem það hefir reynt að gera til þess að stemma stigu fyrir útbreiðslunni, og eins það, sem nú á að gera til að draga úr tjóninu, sem af völdum veikinnar hefir orðið og yrði, ef ekkert væri gert. Ég sé ekki, að hægt sé að ásaka einstaka þm. eða þingið í heild fyrir þetta. Um hitt er ég sammála hv. þm., að til þess að hægt sé að ráða niðurlögum veikinnar til fulls, sé nauðsynlegt að finna orsökina, en það er ekki á þingmanna valdi, því að vitanlega hafa þeir enga þekkingu til þess. Þeirra verkefni er eingöngu að draga úr því tjóni, sem orðið er, og koma í veg fyrir tjón. Og það er Alþingi að reyna að gera.