16.12.1937
Neðri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

140. mál, mæðiveikin

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Ég bjóst ekki við, að formælendur frv. óskuðu eftir sérstaklega miklum umræðum, þegar það kemur svo seint fram, og þætti nær að nota tímann til þess að koma því klaklaust í gegn. En þeir geta reitt sig á, að ég muni reyna að svara svo lengi sem þeir gefa mér tilefni. Þess vegna stend ég upp til að koma nokkrum orðum fram gegn því, sem hv. frsm. n. beindi til mín sérstaklega um leið og hann afsakaði að nokkru orð sín í minn garð í gær. Hann kvaðst alls ekki hafa sett sig á háan hest sem vísindamaður. Þetta kom nú ekki til greina, en orðalag allt á ræðu hans var nú þannig, að hann vildi draga úr áhrifum minnar ræðu, með því að tala um, að hún hefði verið flutt á þremur tungumálum og fleira þess háttar. Þetta hljómar nú kannske vel í eyrum hv. þm., en ekki kann ég við svona bardagaaðferð, þegar verið er að flytja þær upplýsingar inn í þingið, sem því veitir ekki af að fá og hefir ekki átt kost á hingað til. Auðvitað er ekki hægt að flytja slíka ræðu nema í ádeiluformi á þing og þjóð. Því að ég álít, að mörg víxlspor hafi verið stigin í þessu máli frá byrjun og fram á þennan dag. Og ég hefi fært rök að því frá mínu sjónarmiði, að svo sé.

Þá hneykslaðist hann á samanburðinum á spönsku veikinni 1918 og þessari fjárpest. Það má náttúrlega kippa úr samhengi því, sem ég sagði, og fá fjarstæðan samanburð. En þegar ásökun í garð okkar dýralækna var kastað fram, að við gætum ekki læknað hvert tilfelli, þá vildi ég benda á, að svo er um hina veglegu stétt, læknastéttina. Og eins og læknastéttin var fremur vanmáttug gagnvart pestinni 1918, þarf ekki að furða sig svo mjög á, þótt dýralæknar séu ekki máttugri menn gagnvart einhverri skæðri fjárpest, sem kann að koma upp. Því að það er líka kostað margfalt meira til heilbrigðismála manna en dýra, og mannalæknar fá meira til sinna aðgerða en dýralæknar.

Þá staðhæfði þessi hv. þm., að hægt væri að rekja að mestu leyti þessa veiki frá einum ákveðnum bæ. Ég mótmælti því ekki. Ég sagði, að þetta væri satt, — bara með þeim forsendum, að þá þyrfti maður að hafa leyfi til að nota meðgöngutíma sjúkdómsins eins og gólfþurrku, hafa hann eins og maður vill, einn mánuð og upp í eitt og hálft ár. Með því móti má alltaf rekja umferð veikinnar og smitun með jafnmiklum eða jafnlitlum líkum. En það er ekki vísindaleg aðferð, og þetta mundi enginn læknir leyfa sér yfirleitt, því að hver sjúkdómur hefir ákveðinn meðgöngutíma. (BÁ: Er það ekki lærður læknir, sem hefir látið rannsaka þetta?). Nei, ekki lærður dýralæknir, og það er dálítið annað. Ef ég ætlaði að fara að „praktisera“ mannalækningar, myndi verða þakkað fyrir. (BÁ: Er ekki „bakteriologian“ sú sama hjá báðum tegundum læknanna?). Ja, „bakteriologian“ er ekki nema partur af dýralækningunum og kemur lidið „praktiskum“ dýralækningum við. En það hevrir til allri læknisfræði að þurfa að læra feikilega mörg undirstöðuatriði fyrst. En síðan má tala um sérgreinir innan læknisvísindanna, því að þau eru margþætt. Þetta veit ég, að hv. frsm. skilur og þekkir.

Þá staðhæfði hv. þm. ennfremur, að tekizt hefði að sýkja fé með þessari veiki. Ég veit ekki, hvort þetta er satt. Þetta var sagt í fyrra, en borið til baka. Þetta er sagt í dag og borið til baka á morgun, svo að maður veit lítið, hvað fært er að fullyrða.

Þá vík ég að þessu frv., sem fyrir liggur. Hv. þingmönnum fannst, að ég hefði farið fyrir ofan garð og neðan í ræðu minni, og þó sagði ég í niðurlagi ræðunnar, að ég vildi ekki beita mér á móti frv., vegna þess að ég tel þingið neytt til að gera ráðstafanir, af þeim ástæðum, sem allir vita að eru fyrir hendi. Hitt hefi ég undirstrikað, að sú stefna, sem tekin var um varnarráðstafanir og ráðstafanir yfirleitt, hafi verið tekin í mikilli vanþekkingu. Ég álít undirstöðuatriðin skökk, og þess vegna sé ekki von á betri árangri, og nú eru menn loks farnir að viðurkenna, að árangurinn er ekki eins æskilegur og menn höfðu gert sér vonir um. Það er sanngjarnt að kannast við þetta, en mjög vilja menn þó breiða yfir sín eigin afglöp í þessu máli. — Ég skal ekki lengja mál mitt um þetta. Ég ætlaði ekki að veitast að frv. og ekki brtt. landbn., en tel mér skylt að ræða mál þetta eins og komið var. Ég hefi ekki hyllzt til að vekja umr. um það. En ég mun svara fyrir mig í hvert skipti sem á mig er deilt.