18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1938

*Eiríkur Einarsson:

Ég á brtt. við fjárl., en af því maður veit, hvernig högum er háttað, er ekki ástæða til að bæta miklu við vegna fjárhagsafkomunnar, og lét ég því nægja að bera fram eina smávægilega brtt. á þskj. 427, 10. lið. Er það lítilsháttar hækkun á framlagi til þjóðvegarins í Gnúpverjahreppi, eða úr 3000 kr. upp í 4500. Ég varð til þess að flytja þessa brtt. af því, að mér er það ljóst vegna kunnugleika míns, að þessi hreppur, sem liggur til fjalla, á yfir ákaflega miklar vegalengdir að sækja, og það til daglegra nauðsynja, þar sem menn verða þarna uppi í vegleysunum að brjótast við að flytja til mjólkurbús Flóamanna. Er þetta svo mikil fyrirhöfn og starf hjá þeim, að illkleift má teljast, þótt framkvæmt sé. Í þessu sambandi vil ég geta um það, að nágrannasveitir þessa hrepps til beggja hliða, Landmannahreppur og Hrunamannahreppur, hafa hærri styrk, þó að ég telji það ekki eftir, en viðurkenni, að það sé veitt að maklegleikum. T. d. var framlag til Landmannabrautar ákveðið miklu lægra í frv. heldur en það er nú, því að í fjárlagafrumvarpinu eins og það nú liggur fyrir er það ákveðið 10 þúsund krónur. Þetta sýnir, að sá vegur hefir haft góða meðmælendur, og er það vel farið. En ég tel, að þar sem 10 þús. eru lagðar til annarar sveitarinnar, en 8 þús. til hinnar, sem sé Hrunamannahrepps, þá sé ekkert samræmi í að veita ekki nema 3000 kr. til þessa hrepps, því að vegalengdir eru svo svipaðar hjá öllum þessum þremur hreppum, en það hefir verið svo nú í síðustu ár, að þessi hreppur hefir borið heldur lítið frá borði; en ég skal ekki fara nánar út í þá sálma.

Þá vil ég benda á, að þessi hreppur, Gnúpverjahreppur, verður fyrir mikilli áníðslu á sumrum á vegum sínum, sem stafar af því, að á einum efsta bæ sveitarinnar er gististaður, og er þangað sífelldur bílastraumur allt sumarið svo að segja hvern góðveðursdag, og segir sig sjálft, að það er mikil áníðsla á veginum. Þetta eru ástæður, sem ég vona, að hv. þm. sjái og vilji virða til réttlætingar fyrir þessari örlitlu hækkunartill., sem ég ber hér fram.

Það er talað hér um mæðiveikina í sambandi við vegagerð og aðrar fleiri framkvæmdir til þeirra sveita, þar sem þessi veiki er og von á henni. Við vitum ekki, hvenær hún kann að koma í þessar sveitir, en það getur orðið áður en varir. En ef á að fara að skilgreina, eins og mér virðist vaka fyrir hv. 1. þm. N.-M., hvaða fjárveitingar væru samþ. vegna veikinnar, þá veit ég satt að segja ekki, hvar á að draga markalínuna, því að það liggja fyrir till. um fjárframlög til vegagerða í nærri því öllum sveitum landsins, hvort sem þær eru á mæðiveikisvæðinu eða ekki.

Ég læt þá máli mínu lokið um þessa brtt, en fyrst ég stóð upp, þá vil ég aðeins minnast á tvö málefni, sem fyrir liggja. Annað er brtt. á þskj. 444, frá hv. 1. þm. Arn., um styrk til Mjólkurbús Ölfusinga. Hann mælti sjálfur fyrir till. réttilega í dag og óskaði eftir, að Alþingi veitti henni samþykki sitt, og þarf ég ekki að ítreka það. Ég vil aðeins taka þar í sama strenginn og óska eftir, að sem flestir, helzt allir hv. þm., verði til að samþ. hana eins og hún liggur fyrir, án alls tillits til þess, hvort ég hefði helzt viljað hafa hana eins og hún er eða í einhverju öðru formi, því að hún er sprottin af góðum vilja og mikilli nauðsyn.

Þegar Ölfusbúið var reist samtímis Flóabúinu, þá var ég einn þeirra, sem unnu að því að koma upp búinu fyrir austan Ölfusá, og ég var einn þeirra manna, sem voru ákveðið á móti því, að Ölfusbúið væri reist. Ég áleit glapræði að reisa tvö bú svona sitt á hvorri þúfu. En ég gat þar engin áhrif haft, heldur fengu aðrir því ráðið, að reist voru tvö bú. En úr því að sú varð niðurstaðan, að búin urðu tvö, þá tel ég, að það sé þingleg skylda að styðja að því, að þetta bú, fyrst það er til og starfar, líði ekki þrengingar, heldur fái staðizt. Að búinu standa margir bændur með miklum trúnaði og þrautseigju, þrátt fyrir alla þeirra erfiðleika, og þegar mæðiveikin er komin inn í þeirra sveit og þegar Ölfusið er kúasveit og til þess ætluð af náttúrunnar hendi, þá aukast enn rökin fyrir því, að nauðsyn sé að styðja mjólkurframleiðslu þessara bænda og mjólkurbú þeirra.

Svo er það þetta stóra vegamál, Suðurlandsbrautin. Það sýnist koma úr hörðustu átt frá mér, sem svo oft hefi farið og flækzt milli Reykjavíkur og austursveitanna, bæði vetur og sumar, ef ég fer að mæla á móti mikilli fjárveitingu til þessarar vegagerðar, enda er öðru nær en ég vilji gera það. En ég vil ekki láta þetta þing svo hjá líða, að ég mótmæli ekki né sýni fram á, hversu röng ákvörðun það er, að Suðurlandsbrautin skuli hafa verið ákveðin á þeim stað, sem raun hefir á orðið, þar sem á að krókleggja hana suður í Krýsuvík, 40–50 km. lengra en þurfti að vera, og engin rök hafa enn komið fram, sem hafa sýnt, að sú leið væri ekki eins góð, ef einhverjir annarlegir duttlungar hefðu ekki ráðið því, að lengri leiðin var valin suður í Krýsuvík. En þó að 10 þing í röð og breiðfylking hvers þings í röð segi, að það skuli vera Krýsuvíkurleiðin, þá tek ég í strenginn með þeim, sem segja — og undir það mun framtíðin taka —, að þetta var rangt, því að það er rangt að verja 150 þús. kr. af atvinnubótafé og benzínskatti til að halda áfram þessum vegi. Vitanlega er þetta nauðsynleg fjárveiting og rétt að láta atvinnubótaféð fara til þess, úr því að þetta ráð var tekið, í staðinn fyrir að leggja veginn á hinum staðnum, þar sem hann átti að vera.