18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

140. mál, mæðiveikin

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að mál þetta er seint komið fram á þinginu, en það er óþarfa viðbára, að þingmenn eigi bágt með að átta sig á því af þeim orsökum. Frá þingbyrjun höfum við sem sæti eigum í landbn. þingsins og í undirnefnd landbn., sem því miður hafði engan fulltrúa frá jafnaðarmönnum, verið að fást við þetta mál. Við höfum hvað eftir annað farið með það í okkar flokka, a. m. k. framsóknarmennirnir. Ég þykist viss um, að þeir hv. stjórnarandstæðingar, sem unnu að þessum málum með okkur, hafi haft sömu aðferð gagnvart sínum flokkum. Og með því starfi, sem fram hefir farið í undirnefnd landbn., hefir verið reynt að láta hv. þm. fylgjast sem bezt. Ég lagði að hv. 9. landsk. að taka sæti í nefndinni í staðinn fyrir mig, en hann taldi sig ekki hafa tíma til þess, en ég veit til þess, að jafnaðarmönnum hefir verið tilkynnt, jafnóðum og eitthvað gerðist, hvernig málin stæðu. Ég tel það alveg eins heppilegt fyrir framgang málsins, að unnið hefir verið að því í fámennum nefndum og þm. látnir fylgjast með því jafnóðum og því hefði verið skellt inn í þingið illa undirbúnu og orðið þar að bitbeini milli flokka. Í þess stað hefir verið reynt að ná samkomulagi um ágreiningsatriðin í nefndunum, og hefir tekizt.

Enginn vafi er á því, að mikil ásókn verður á nefnd þá, sem á að úthluta þessu styrktarfé, og verður að leggja allt kapp á, að í hana veljist góðir menn, og það .,góðir“ menn í öðrum skilningi þess orðs en það er venjulega notað í prestamáli. Það hefir mikið verið rætt um þetta atriði, og með tilliti til þess hefir verið sett í 6. gr. frv. ákvæði um að í reglugerð skuli ákveðið um nánari framkvæmd laganna.

Við höfum hugsað okkur, að til þess að menn komi til greina við úthlutun styrktarfjárins, verði tekjur þelrra að hafa rýrnað eitthvað ákveðið af völdum pestarinnar, t. d. um ¼ eða 1/3 hluta. Umsækjendur verða að leggja fram sannanir fyrir því, að tekjur þeirra af búrekstri hafi rýrnað þetta og þetta, að hjálpin, sem þeir fá, stendur í vissu hlutfalli við tekjurýrnunina. Það er auðvelt að ganga úr skugga um þetta atriði, og eru til tvær góðar leiðir til að afla sér þeirra upplýsinga. Nefndin verður að fara þær báðar, ef hún vill fá tryggar upplýsingar. Önnur aðferðin er sú, að rannsaka skattaskýrslur umsækjanda yfir fleiri ár, og hin er sú, að athuga viðskiptareikning þeirra. Ég skal láta ósagt, hvort nægilegt er að ákveða þessi atriði í reglugerð. En ég geri ráð fyrir, að nefndarmennirnir verði búnir að koma sér niður á þessar reglur fyrir næsta þing. Ef þeir álíta, að ekki sé nægilega tryggt að ákveða þessi atriði í reglugerð, geta þeir þá lagt fcrir það þing brtt. við lögin.

Hv. 9. landsk. talaði um ágreining þann, er orðið hefir milli sérfræðinga um veikina. Ég skal ekki fara langt út í það mál, þó að margt mætti um það segja. — Hv. þm. Ak. sagði í umr. í Nd., að það hefði aldrei tekizt að smita nokkura kind með veikinni. Af þeim fimmtán kindum, sem í tilraunaskyni voru settar með sýktu fé í vor, hafa sjö veikzt. Og hver kind, er sprautuð hefir verið með efni úr sýktu fé, tekur veik- ina eftir 6–7 mánuði. Það er því búið að smita kindur með veikinni og finna meðgöngutíma hennar nokkurn veginn.

Hv. 9. landsk. sagði, að allar þær lækningatilraunir, sem gerðar hefðu verið, væru fálm. Þetta tel ég mjög fjarri sanni. Það hafa verið prófuð skipulega ýms meðul, sem helzt hefir verið talið, að gætu einhver áhrif haft, og sem betur fer hefir nokkrum kindum hatnað. En hvort um varanlegan bata er að ræða, er óvíst enn. — Hv. þm. talaði um erlenda sérfræðinga. Það hafa nú þegar komið hingað til lands tveir erlendir sérfræðingar, að tilhlutun ríkisstj. Þeir dvöldu hér báðir nokkurn tíma og störfuðu að rannsóknum .á þessu máli. Ennfremur hafa lungu og preparöt verið send til allra þeirra rannsóknarstofnana í Evrópu, Ameríku og Afríku, sem fást við rannsóknir á svipuðum sjúkdómum. Í Nd. var vitnað í ummæli þýzks prófessors, sem fengið hefir til meðferðar lungu og preparöt úr sýktu fé, og telur þessi maður, sem er þekktur bakteriolog, að hér sé um að ræða hluti, sem ekki þekkist þar í landi. Það er því ekki rétt hjá hv. 9. landsk., að ekki hafi verið reynt að fá góða erlenda sérfræðinga til að rannsaka veikina.

Ég tel, að vel geti komið til mála að breyta ákvæðum frv. svo, að n. verði kosin af Sþ.; ég er því ekki mótfallinn og skal athuga, hvort ekki fæst samkomulag um það atriði.