20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

140. mál, mæðiveikin

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv., sem sjá má á þskj. 439. Meining mín með þessari till. er sú, að hér verði fylgt sömu reglu eins og almennt hefir gilt, að því er mér virðist, hér á Alþ., þegar skipuð er meiri háttar nefnd, er ríkið hefir meiri og minni afskipti af. Ég tel, að hér sé um svo mikilsvert starf að ræða, þar sem er yfirumsjón með úthlutun þess fjár, sem frv. gerir ráð fyrir að ríkissjóður láti af hendi til þeirra, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum mæðiveikinnar, að rétt sé, að allir flokkar eigi þar hlut að máli, því að það má alveg búast við því, að einhver gagnrýni kunni að skapast um það, hvernig þessu fé yrði varið. Ég geri því ráð fyrir að till. mín þurfi ekki að valda neinni deilu í sambandi við þetta mál. Hinsvegar skal ég að gefnu tilefni lýsa yfir því, að ef Alþfl. verður tryggð seta í þessari nefnd, þá mun ég geta fallizt á að taka till. aftur, til þess að hún þyrfti ekki að tefja fyrir framgangi málsins.

Um málið að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða. Það er ef til vill ekki á hvers manns færi að tala um þetta stórmál, en ég býst við, að flestum fari eins og mér, að þeir telji ekki annað fært en að veita þeim stuðning, sem fyrir mestu tjóninu hafa orðið af völdum mæðiveikinnar. Og ég verð að segja það sem mína skoðun, að þetta er í raun og veru meira af vilja gert en getu af þingsins hálfu, og í öðru lagi hitt, að hér er í raun og veru enginn sannfærður um, hvort þetta mál hafi frá upphafi verið réttum tökum tekið eða ekki.