18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1938

*Þorbergur Þorleifsson:

Ég þarf ekki að standa upp til þess að mæla fyrir neinni brtt. við fjárl., vegna þess að ég hefi enga borið fram. Ég taldi mér það skyldu sem einn af fjvnm. að flytja ekki hækkunartill. við þetta frv., þó að ég hafi tilhneigingu til að flytja ýmsar brtt. eins og hver annar þm. En ég stend hér upp af því að ég finn mig knúðan til að segja nokkur orð í tilefni af því, að nokkrir hv. þm. hafa flutt till. um að fella niður eða lækka styrk til nokkurra rithöfunda á 18. gr. Það mun vera svo, að ég sé talinn fulltrúi þeirra manna hér á þingi, sem hafa þann hugsunarhátt, að slíkir styrkir, eða réttara sagt laun, eigi nokkurn rétt á sér. Og það er síður en svo, að það sé andstætt vilja alþýðu manna í landinu, að slík laun séu veitt þeim, sem geta lagt eitthvað verulegt af mörkum á þessu sviði, nefnilega á sviði lista og vísinda. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að á umliðnum öldum hefir það, sem skáld og snillingar þjóðarinnar hafa lagt af mörkum, ekki síður en annað orðið til þess að halda lífinu í þjóðinni gegnum allar þær hörmungar, sem yfir hana hafa dunið. Það er að vísu svo komið, að það er ákaflega erfitt fyrir ríkissjóð að geta staðið undir öllum þeim greiðslum, sem það opinbera þarf að inna af höndum. En ég held samt, að þegar reynt er til að lækka þessi fjárl. með því að fella niður nokkur skáldalaun á 18. gr., sem að upphæð ern fáar þúsundir króna, þá sé óhætt að segja, að verið sé að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Það er að ráðast á garðinn þar, sem hann er lægstur þegar verið er að hneppa af þeim, sem ern að reyna að hugsa fyrir þjóðina og lýsa henni á framtíðarbrautinni. Ég fullyrði, að þeir, sem flutt hafa þessa brtt., hafa ekki gert sér grein fyrir því, að þeir eru að fremja ranglæti með flutningi hennar. Og þar sem tekjur ríkissjóðs eru teknar ekki aðeins með beinum sköttum, heldur einnig með tollum, hér eins og víða annarsstaðar, þá er það víst, að öll alþýða manna borgar eitthvað í ríkissjóð, bæði ríkir og fátækir. En það er alveg óhrekjanleg staðreynd, að í þessum fjárl. er ekkert, sem kemur að eins almennu gagni og veldur eins almennri ánægju og það, sem skáld og listamenn láta af höndum og þeir eru launaðir ofurlítið fyrir á þessari 18. gr. Það er þess vegna bein árás á hagsmuni fólksins, að gera tilraun til þess að svelta skáld og listamenn þjóðarinnar, svo að hugsunarháttur þeirra nái síður út til fólksins. Það er enginn maður svo djúpt sokkinn niður í eymd og niðurlægingu að hann hafi ekki ánægju af einhverri tegund listar. Ég skal taka t. d. sönglistina. Hver er það, sem hefir ekki ánægju af söng? Barnið í vöggunni og gamalmennið í kör hefir jafnvel ánægju af þessari list. Hún nær til allra, ungra og gamalla, svo að aðeins ein tegund listar sé nefnd. Við vitum líka, hvað leikrit, kvæði og sögur skálda fljúga út meðal allra og brenna sig inn í hverja einustu mannsál í landinu. Og ætli mörgum alþýðumönnum fyndizt ekki dagarnir dimmir og nóttin löng, ef þessu öllu væri kippt burt? Og ef það er svo, sem enginn mun þora að neita, að andlegir fjársjóðir skálda og listamanna séu einhvers virði, þá leiðir af sjálfu sér, að þessir menn eiga heimtingu á að fá eitthvað fyrir þá vinnu, sem þeir vinna, ekki einu sinni fyrir nútíðina, heldur einnig alla framtíð. Fyrir löngu síðan hefir þetta líka verið viðurkennt af allri þjóð, fyrir löngu síðan hefir Alþingi viðurkennt þetta, fyrir löngu síðan hafa skáld og listamenn verið teknir upp á fjárl. til þess að gefa þeim tækifæri til að lifa eins og aðrir menn og vinna að hugðarmálum sínum, sem um leið hafa verið hugðarmál allra hugsandi manna í landinu. Á 15. gr. fjárl., þar sem eru fjárveitingar til vísinda, bókmennta og lista, voru fyrst tekin flest skáld og listamenn, — á þá gr. hafa síðan verið tekin ýmis skáld og listamenn og standa þar enn þann dag í dag. En það er ekki skoðað sem fastur samningur um ókomin ár, þó að maður sé tekinn á þessa gr. fjárl., enda hefir það oft verið svo, að þótt eitthvert skáld eða listamaður sé tekinn upp á þessa gr. í ár, þá hefir ekkert þótt við það að athuga, þótt hann hafi verið felldur niður næsta ár. Þess vegna var það, að Alþingi þótti það á sínum tíma ekki nægilega tryggt með þá andans snillinga, sem það vildi tryggja, að gætu lifað og starfað meðal þjóðarinnar, að þeir fengju að standa á þessari gr. Þess vegna varð það úr að setja þau skáld og rithöfunda og listamenn á aðra gr. fjárl., 18. gr., og hefir það verið skoðað sem fastur samningur við viðkomandi persónur, sem teknar hafa verið á þá gr. Og til þess að tryggja, að ýmsir þeir menn, sem Alþingi áleit, að launa skyldi fyrir sín störf, skyldu ekki eiga undir duttlungum Alþingis í hvert skipti, hvort þeir fengju að lifa áfram eða ekki, þá voru þessir menn settir á 18. gr.

Nú er það svo, að þessi skáld og þessir listamenn eru bláfátækir, því að það er ekki arðsvon af þeirra starfi, enda mun varla nokkurt skáld eða listamaður geta lifað af því starfi, sem þeir vinna fyrir fólkið. En með því að setja slíka menn á 18. gr. var litið svo á, að einskonar samningur hefði v erið gerður við þá, að þeir skyldu ha£a áfram þau laun, sem þeim voru ákveðin, þegar þeir voru settir á þessa gr. Nú á að færa þessum mönnum þá jólagjöf að skammta þeim enn minna. Hvað myndu t. d. embættismenn segja, ef eins væri gert við þá?

Ég sé hérna í dyrunum að deildinni aldraðan mann, sem róið hefir á sjó margar vertíðir, en síðan skrifað listrænar bækur. Hann er nú kominn um sjötugt. Fyrir 2 árum ætlaði Alþingi honum nokkurn styrk og setti hann á þessa gr. Á nú að vísa honum út á hafið aftur og neyða hann til að hætta við merkilegt verk? Ef ekki er hægt að treysta Alþingi til að standa við hluti, sem almennt eru skoðaðir sem samningar, er þess ekki að vænta, að virðingin fyrir Alþingi fari vaxandi.

Hv. þm. A.-Húnv. virðist vera mjög hneykslaður á ritum Halldórs Kiljans Laxness. Hann sagði, að þeir tveir hv. þm., sem flytja brtt. um að lækka skáldalaun hans, hafi í rauninni háðir verið sammála um að fella hann alveg niður af fjárl. Hv. þm. sagði ennfremur, að það, að veita þessum höfundi ritlaun, væri svartasti bletturinn á fjárl. okkar Íslendinga. Ég býst varla við, að hv. þm. sé ljóst, að með slíkum ummælum er hann einmitt að styðja hugsunarhátt fólksins á Fæti undir Fótarfæti, sem H. K. L. getur um í síðustu sögu sinni, en það fólk leit svo á, að skáldmenning væri einskonar plága, líkt og svarti dauði til dæmis, sem þyrfti að útrýma. Þetta er sá hugsunarhátturinn, sem svelti Bólu-Hjálmar, drap Sigurð Breiðfjörð og lét Jónas Hallgrímsson veslast upp af skorti handan við hafið, í landi, sem stundum hafði reynzt þess háttar Íslendingum jafnvel meiri griðastaður en sjálft heimalandið. Er hv. þm. ljóst, að hann er að stuðla að því, að saga Ólafs Kárasonar Ljósvíkings endurtaki sig? En á sama hátt og fólkið á Fæti undir Fótarfæti skildi ekki Ólaf Kárason, eins má segja, að hv. þm. skilji ekki H. K. L., þó að sá munur sé hér á, að fólkið á Fæti var heimskt og óupplýst, en hvorugt er, sem betur fer, hægt að segja um hv. þm. A.-Húnv.

Hv. þm. A.-Hún. hefir þann metnað fyrir sína þjóð að vilja ekki, að þjóðin fái að heyra þessar sögur úr fortíð sinni, sem eru raunar engu ljótari en sögur þær ýmsar, sem nú eru að gerast viða um heim, t. d. á Spáni og annarsstaðar. En ég hefi þann metnað fyrir mína þjóð, að ég vil ekki, að saga Ólafs Kárasonar Ljósvíkings endurtaki sig. Ég vil ekki, að litið sé á skáld og listamenn eins og litið var á hreppsómaga á undanförnum öldum.

Um það má vitanlega alltaf deila, hversu há skáldalaun eigi að vera. Það þótti ýmsum glannalegt, þegar Alþingi veitti H. K. L. 1934 þau hæstu skáldalaun, sem veitt hafa verið hér á landi. En fyrir þessu voru þó færð mjög gild rök í hv. fjvn., og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr nál. eftirfarandi:

„Þá leggur nefndin til, að Halldór Kiljan Laxness fái rithöfundarlaun til jafns við hið aldurhnigna höfuðskáld Einar Benediktsson. Hefir Halldór að baki sér glæsilega braut sem rithöfundur. Hefir hann farið víða um lönd, numið tungur og siðvenjur annara þjóða, en jafnframt orðið einn hinn orðauðugasti og snjallasti maður að rita móðurmál sitt og skilja eðliseinkenni sinnar eigin þjóðar. Hann hefir óvenjulega mikla skapandi gáfu, svo að hann minnir þar mest á Matthías Jochumsson. En slík er aðstaða þvílíks skálds með fámennri þjóð, að í ritlaun fær H. K. L. fyrir hinar síðustu bækur sínar svo sem 1/5 hluta þess, sem hóflegt þykir, að framkvæmdarstjóri í togarafélagi fái til árlegrar eyðslu hér í Reykjavík. En það er hverjum manni ofvaxið að skrifa árlega þvílíka bók eins og Sjálfstætt fólk. Með svo miklu átaki, ekki sízt í sárri fátækt, slítur jafnvel hið mesta skáld kröftum sínum á fáum árum.

Með því að tryggja Halldóri K. Laxness föst laun á borð við það, sem lágt settir verzlunarmenn fá hér í bænum, er stefnt að því, að hann geti með þeirri hagsýni, sem honum er lagin, lifað sem óháður rithöfundur og ritað bækur sínar eftir því sem viðfangsefni leyfa, en ekki til að hafa undan prentaranum. Halldór Kiljan er sá nútímarithöfundur, þeirra, sem nú rita á íslenzku, sem langnæst stendur því að geta unnið sér og landi sínu skáldfrægð með öðrum þjóðum og á þann hátt aukið hróður lands síns og þjóðar“.

Þetta eru þau rök, sem þá voru færð fyrir því, að þessi maður yrði settur á fjárl. Síðan eru liðin nokkur ár, og á þeim hefir skáldfrægð Halldórs aukizt stöðugt, utan lands og innan. Jafnvel hörðustu andstæðingar hans, eins og t. d. Guðmundur Friðjónsson, verða að viðurkenna, að hér er um snilling að ræða. Ef rétt hefir verið á sínum tíma að taka hann upp á fjárl., hvaða rök liggja þá til þess, að rétt sé að taka hann þaðan nú, eftir að hann hefir að staðaldri numið enn ný lönd og nú að síðustu gefið út safn af ritgerðum, þar sem sumt er með því merkilegasta, sem skrifað hefir verið á íslenzku?

Hugsunarháttur hv. þm. A.-Húnv., sem kemur fram í þessu máli, er enginn annar en hugsunarháttur fólksins á Fæti undir Fótarfæti. Og saga Ólafs Kárasonar Ljósvíkings er engin önnur en saga íslenzku þjóðarinnar gegnum aldirnar. Nú vill hv. þm. láta þessa sögu endurtaka sig hér á Alþingi. Framkoma hv. þm. er að vísu áferðarfallegri en fólksins, sem ég gat um, en hugsunarhátturinn er í raun og veru hinn sami, sá, að þessir andans snillingar séu einskis virði og að þá beri að þurrka út.

Hv. 3. þm. Reykv. upplýsti það hér, sem ég vil þakka honum fyrir, að H. K. L. hefði ekki miklar tekjur af ritum sínum, er þýdd væru á erlend mál, vegna svonefnds gagnkvæms rithöfundaréttar, svo að þess vegna getur ekki verið um að ræða ástæðu til að fella hann niður af fjárl. En annars teldi ég það ekki svo voðalegt, þó að skáld hefði sæmilegar tekjur. Það er ekki verið að hneykslast á því, þó að menn, sem t. d. selja ýmiskonar varning, hafi miklar tekjur, ef til vill allt upp í 100 þús. kr. á ári, en ef það kemur í ljós, að skáld hafi miklar tekjur, þá kveður oft við annan tón.

Hvernig sem á er litið, verður það að teljast óverjandi að fella niður nokkurn af þeim listamönnum og skáldum, sem teknir hafa verið upp á 18. gr. Það yrði aldrei hægt að skoða öðruvísi en sem einskonar svik við þessa menn. Þeir hafa reitt sig á að fá þennan styrk í framtíðinni. Margir hv. þm. hafa sjálfir orðið að berjast fyrir lífi sínu einhverntíma, og ættu þeir því að geta skilið, hversu illa það gæti komið sér, ef þessir menn yrðu sviptir styrk sínum, sem þeir eiga eins mikinn rétt á og aðrir launþegar hins opinbera í landinu á sínum launum.

Það væri ef til vill ástæða til að fara lengra út í þetta mál, en vegna þess, að orðið er áliðið nætur, mun ég ekki gera það. En ég treysti svo á drengskap hv. þingmanna, að ég vona fastlega, að þeir láti þessar till. fara sömu leið og þær hafa farið á undanförnum þingum.