01.11.1937
Neðri deild: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

21. mál, bændaskólar

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Eins og bent er á í nál. landbn. á þskj. 65, hefir sú höfuðbreyt. verið gerð með þessu frv. á l. frá 1930, sem nú gilda, að í frv. er gert ráð fyrir 3 missira samfelldum skóla með vinnuskyldu. Þær aðrar brtt., sem fyrir liggja, standa að miklu leyti í sambandi við þessa breyt., svo sem að auka kennaraliðið og hækka laun kennaranna vegna aukinna starfa, sem á þá hlaðast. N. telur þessar brtt. til bóta og álítur rétt að auka verklega námið við bændaskólana. E. t. v. minnist ég frekar á það síðar, ef tilefni gefst til.

Brtt. landbn. eru hvorki margar né mikilvægar. Við höfum gert smábreyt. við 1., 2. og 3. gr. frv., en það eru allt orðabreyt.

Við 4. gr. höfum við gert brtt., sem fjallar um launakjör og aðstöðu kennara bændaskólanna. Í frv. er gert ráð fyrir ákveðnum launum til þeirra, en n. fannst réttara að ákveða þetta í launal. á sínum tíma, en að ráðh. hafi heimild til þangað til að ákveða laun kennara. Þetta taldi n. heppilegra fyrirkomulag en að sérstök l. væru sett um laun þeirra. Og fyrir þessu eru fordæmi, svo að menn þurfa ekki að vera hræddir við að samþ. það. Ég vil geta þess, að það er bæði skoðun n. og mín persónulega, að það þurfi að bæta kjör þessara kennara allverulega, því að þeir eru allra verst launaðir af hliðstæðum mönnum. Ég vil benda á héraðsskólakennarana. Bændaskólakennarar, sem e. t. v. hafa eytt talsvert lengri tíma til undirbúnings undir sitt starf, hafa töluvert lægri laun en þeir. Þetta telur n., að sé óréttlátt.

Við 5. gr. er smábreyt. Í niðurlagi gr. er ákvæði um, að þroskaðri nemendur geti verið lausir við yngri deild, en það þó gert að skilyrði, að þeir komi að vorlagi til skólans vegna verklega námsins. N. leit svo á, að þetta væri ekki nauðsynlegt, en að rétt væri, að skólastjóri hefði það á sínu valdi, hvernig um þetta færi.

6. gr. fjallar um skilyrði fyrir inntöku í skólann. Þar hefir n. gert brtt. við b-lið. Í gr. stendur, að nemandi skuli hafa unnið að almennum landbúnaðarstörfum a. m. k. eitt sínar eftir að hann varð 14 ára. N. virtist, að úr því að farið væri að gera kröfur um þetta á annað borð, væri þetta of lítið. Þess vegna leggur n. til, að í stað eins sumars eftir 14 ára aldur komi 2 ár eftir 12 ára aldur. Með því að færa aldursmarkið niður er einnig gert hægara fyrir nemendum úr kaupstöðum og kauptúnum.

Þá er smábrtt. við 7. gr. Það er eiginlega bara orðabreyt. til þess að draga úr ákvæði um, að í báðum deildum skuli kenna búsmiði o. s. frv., sem þar er talið upp. N. vill, að standa skuli: Ennfremur skal kenna o. s. frv.

Í 9. gr. er svo kveðið á, að þeir einir skuli hafa rétt til að kalla sig búfræðinga, sem lokið hafi bóklegu og verklegu fullnaðarprófi við skólana eða hliðstæða skóla erlendis. Við þetta vill n. bæta — til þess að koma í veg fyrir misskilning —, að rétt til að heita búfræðingur skuli þeir einnig hafa, sem tekið hafa próf eftir hinum eldri bændaskólal.

Loks er brtt. við 14. gr., um það, hvenær l. skuli öðlast gildi. Þar verður að koma 1938 í stað 1937.

Þá hefi ég minnzt lauslega á brtt. landbn., en til viðbótar vil ég geta þess, að eftir að n. hafði skilað áliti sinu, kom skólastjóri Hvanneyrarskólans til viðtals við n., og getur verið, að n. beri fram 1–2 brtt. við 3. umr. samkv. því, sem hann ræddi við nefndina.

Ég skal geta þess út af brtt. hv. 4. landsk. þm. og hv. þm. Dal. á þskj. 59, að ég mun ekki ræða þær fyrr en flm. hafa talað fyrir þeim.