01.11.1937
Neðri deild: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

21. mál, bændaskólar

*Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Við 1. umr. þessa máls gat ég þess, að ég mundi flytja brtt. við frv. Hv. þm. Dal. og ég höfum nú flutt nokkrar brtt., og eru þær á þskj. 59. Þær eru í höfuðatriðum tvennskonar, að í stað 3 missira skóla komi 2 ára skólar, og í öðru lagi eru 6 nýjar gr., þess efnis, að sett sé á stofn framhaldsdeild við bændaskólann á Hvanneyri.

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um framhaldsnámið. Á búnaðarþingi 1933 var samþ. áskorun til Alþ. um að beita sér fyrir því, að upp yrði sett deild til framhaldsnáms í búfræði, og skyldi miða við nauðsynlega menntun handa þeim mönnum, sem svo tækjust á hendur ýmiskonar leiðbeiningastörf. Hv. þm. Dal. hefir á undanförnum þingum flutt frv. um þetta efni, og það er eftir hans frv., sem þessar brtt. eru sniðnar. Búnaðarþingið 1935 mælti með frv. hv. þm. Dal. 1933 var það frv. sent búnaðarþingi, og allshn. þar gerði við það þá brtt., að framhaldsdeild skyldi sett á stofn á Hvanneyri, og er það shlj. okkar brtt. hér. Þessa brtt. samþ. húnaðarþingið með 11 shlj. atkv. Það hafa því hvað eftir annað verið gerðar tilraunir í þessa átt. Maður skyldi ætla, að fulltrúar á búnaðarþingi væru manna hæfastir til að dæma um þetta, og að Alþ. sé skylt að taka tillit til óska, sem þaðan koma.

Ég skal ekki koma inn á inntökuskilyrðin, en ég vil geta þess, að ein brtt. okkar er um það, að nemendur framhaldsdeildar fái 200 kr. styrk til bókakaupa úr ríkissjóði, ljúki þeir námi. Þetta mundi aðeins ná til þeirra, sem að loknu námi gerðu sér vonir um að geta tekið að sér ráðunauts- og leiðbeiningastörf. Ég álít, að þessir nemendur gætu, í stað þeirra hlunninda, sem þeir fá, orðið kennurunum til léttis og jafnvel tekið að sér verklega kennslu með yngri nemendum.

Þá leggjum við til, að nemendum, sem ná I. einkunn, verði veittur styrkur til utanfarar. Slíkir utanfararstyrkir eru mjög gagnlegir. Menn fá tækifæri til að sjá nýjustu framfarir í sinni grein og yfirleitt víkka sinn sjóndeildarhring.

Brtt. okkar um, að í stað 3 missira náms komi 2 ára nám, er aðallega hugsuð vegna verklega námsins að það geti orðið fyllra en ella. Ég minntist á það við 1. umr., að þess væri réttilega getið í grg. frv., að verkleg kennsla búfræðinema hefði verið mjög takmörkuð hér á landi, og að ísl. búfræðingar hefðu verið í litlu áliti, einkum vegna þess, hvað þá skorti vcrklega kunnáttu. Menn verða að gera sér ljóst, að það er ekki lítið, sem þessum mönnum er ætlað að læra, og að menn, sem koma í skólana lítið undirbúnir, geti lært það á svo skömmum tíma, nær ekki nokkurri átt. Þá fyrst koma bændaskólarn- ir að nokkru gagni, þegar menn læra til hlítar það, sem þeim er ætlað. Þeim nægir ekki að fá einhverja yfirborðsþekkingu, sem enga þýðingu hefir þegar kemur út í lífið. Eins og í grg. segir, hafa margir fundið búnaðarskólunum það til foráttu, að þeir, sem þaðan kæmu, kynnu ekki að vinna og ekki að nota hesta og hestaverkfæri, og er það ein aðalástæðan til þess, að búnaðarskólarnir eru í svo litlu áliti sem nú er. Ég skal ekki segja um, hve mikið er hæft í þessu, — en halda menn, að eins sumars búnaðarnám muni bæta úr öllu, sem þarna þarf að ráða bót á? Ég álit það ekki, og reynslan mun sanna, að svo er eigi.

Svo er það, að þótt ákveðinn verði tveggja ára námstími, er skólastjóra heimilt að veita undanþágu, ef hann álítur ástæðu til, og mundi þetta verða framkvæmt þannig, að þeir nemendur, sem mesta kunnáttu og þekkingu hafa, mundu komast af með eitt ár við nám.

Af þeim brtt., sem við höfum borið fram við frv., skal ég drepa á höfuðbreytingarnar. Í 4. gr. 1. mgr. er svo ákveðið í frv., að við hvern bændaskóla skuli vera skólastjóri og tveir fastir kennarar. Við höfum leyft okkur að gera þá till., að í stað tveggja fastra kennara komi þrír. Það virðist ósamræmanlegt, að um leið og á að auka kennslu og lengja skólann, þá eigi að fækka kennurum. Ég álít, að skólastjóri hafi nóg að gera við að stjórna skólanum og skólabúinu, því í sambandi við skólana á að reka fyrirmyndarbú, og mundi skólastjóri því hafa lítinn tíma til kennslu, því eftirlit með stórum búrekstri er mikið starf. Ef ekki eru fastir kennarar, er ekki eins mikil trygging fyrir því, að valdir menn veljist að skólunum. Þó að eitthvað kynni að sparast með því, mun það ekki reynast vel í framkvæmdinni. Ef kennararnir eru fastir og hafa sæmileg laun, sem verður að vera, þá láta þeir sér annara um starf sitt. Ef gripa á menn

á hlaupum til kennslunnar í það og það skiptið, getur það orðið tvíræður sparnaður.

Við leggjum til, að 5. liður 4. gr. falli niður. Það er svo ákveðið, að auk hinna tveggja föstu kennaralauna skuli greiða hverjum skóla upphæð, sem svarar tveim fullum kennaralaunum. Það virðist óþarft að taka þetta fram, því sjálfsagt er, að skólarnir fái það fé til greiðslu fyrir kennslukraft, sem þörf er á. Í sambandi við þetta er breyting á 6. lið 4. gr.

Í 3. mgr. 5. gr. leggjum við til, að í stað orðanna , skal leyft að sleppa yngri deild, en dvelja skulu þeir þó árlangt í skólanum og koma að vorlagi til hans“ komi: má leyfa að sleppa yngri deild, en dvelja skulu þeir þó árlangt í skólanum. — Verður það þá eftir ákvörðun skólastjóra, hvort menn sleppa við yngri deildina.

Viðvíkjandi inntökuskilyrðunum komi í stað „eitt sumar“: tvö sumur. Hv. 2. þm. Skagf. vildi láta koma 2 ár í staðinn fyrir 1 sumar, en ég álít það ekki heppilegt, vegna þess, að nemendur, sem koma úr kaupstöðum, hafa ekki tækifæri til þess að dvelja svo langan tíma í sveit í einu, og því heppilegra að binda þetta við sumartímann.

Þá höfum við gert viðaukatill. við 5. mgr. 7. gr., svo hljóðandi: „Svo skulu og þeir nemendur, er þess óska, fá tilsögn í meðferð og hirðingu dráttarvéla“. Ég álit, að eins og búskapnum háttar nú hér hjá okkur, þá sé þetta mjög nauðsynlegt ákvæði, því þótt eigi að leggja meira upp úr hestanotkun en verið hefir, þá er svo víða orðinn einyrkjabúskapur, að ef menn eiga ekki kost á dráttarvélum til jarðyrkju, verður afleiðingin sú, að þessir einyrkjar, sem ekki hafa tíma til að vinna landið með hestaverkfærum, geta ekki haldið jarðræktinni áfram. Álít ég því heppilegt að taka þetta ákvæði inn í frv.

10. gr. leggjum við til, að verði felld niður, því ef skólinn verður tveggja ára skóli, eins og við leggjum til, þá fara till. okkar fram á, að nemendurnir fái frítt uppihald; skólinn leggi þeim fæði og þjónustu. Þetta mundi kosta nokkuð, en ef nemendurnir vinna tvö sumur í skólanum, þá mundi ekki þurfa mikinn annan vinnukraft til skólabúsins en þann, sem nemendurnir legðu fram. Auðvitað má ekki ganga of langt með að láta nemendurna vinna; þeir verða fyrst og fremst að njóta kennslu.

Að endingu vil ég segja það, að að sjálfsögðu ber ríkisvaldinu að styðja alla fræðslu í landinu, en fyrst og fremst álít ég, að því beri að styðja þá skóla, sem stundað er verklegt nám i, og eru það þá fyrst og fremst bændaskólarnir og aðrir skólar landsins, sem starfa að því að glæða áhuga fólksins fyrir sveitunum og landbúnaðinum. Ég álít, að bændaskólarnir megi verða mikill liður í því að auka ást og traust fólksins á byggðunum og stöðva þannig flóttann úr sveitunum, sem ekkert virðist þverra. Árangurinn af starfi bændaskólanna mun verða mestur og beztur með því, að þar sé stundað sem mest verklegt nám, og þeim tilgangi mun bezt náð með því, að till. okkar verði samþ.