01.11.1937
Neðri deild: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

21. mál, bændaskólar

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég skal nú, þegar hv. flm. þessara brtt. hefir mælt fyrir þeim, segja um þær nokkur orð. Er þá fyrst brtt. um það, að í stað tveggja fastra kennara verði þrír, en hinsvegar ætlast hv. flm. til þess, að felld verði niður heimild til þess að verja tveimur fullum kennaralaunum til ýmissar kennslu við skólann. Ég álít, þótt flm. segi, að með brtt. hans séu auknir og bættir starfskraftar skólans, að hér sé gengið til baka, því eftir því, sem frv. leggur til, er hægt að hafa 4–5 menn starfandi við kennsluna, og báðir skólastjórar bændaskólanna hafa lagt til, að þessi leið, sem frv. leggur til, verði farin, en ekki allt bundið við fasta kennara. Það getur verið mjög þægilegt að hafa einhverja menntamenn að einhverju leyti starfandi við skólann. Víða hagar svo til, að menntamenn eins og prestar og læknar búi í svo miklu nágrenni við skólana, að þeir gætu kennt einhverjar námsgreinar þar, en það virðist útilokað samkv. till. hv. flm., og ég mæli eindregið á móti því fyrir hönd n., að þessi brtt. verði samþ. Það getur líka verið mjög gott að fá viðurkennda kunnáttumenn í jarðræktarstörfum, hestavinnu og meðferð dráttarvéla til að starfa einn eða tvo mánuði við þessa skóla á sumrin, þó að þeir geti ekki tekið að sér bóklega kennslu. Álít ég því miklu betra að hafa það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir.

Um b-lið brtt. við 4. gr. má segja, að hún er alveg rétt. Það litur næstum út fyrir, að þetta ákvæði hafi fallið úr frv. í prentun, því sjálfsagt er, að húsnæði fylgi með í hlunnindum kennara. En n. gerði till. um, að þessi liður væri felldur niður vegna þess, að gert er ráð fyrir, að laun kennara verði ákveðin í launalögum og hlunnindi sömuleiðis, og er þá þetta ákvæði sjálffallið. Brtt. frá n. við þessa gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðherra ákveður laun þeirra og hlunnindi þangað til ný launalög verða sett.“ Lít ég því svo á, að engin þörf sé á þessari brtt., ef brtt. n. verður samþ. En ég álít rétt, að það komi fram í umr. hér, að n. álitur, að húsnæði eigi að fylgja með í þeim hlunnindum, sem kennarar við bændaskólana hafa.

Þá kemur að því, sem er önnur aðalbrtt. hjá hv.flm. Það er að gera skólana að tveggja ára samfelldum skólum í stað þriggja missira. N. gat ekki fallizt á þessa till, vegna þess að vafasamt yrði, að aðsókn yrði þá nóg að skólunum; menn mundu ekki vilja binda sig um tveggja ára tíma til þess að vinna þarna. Það er rétt, sem flm. benti á, að fólksleysi er svo mikið, að erfitt er fyrir fullvaxna syni að fara frá heimili for eldra sinna til að stunda verklegt nám eitt sumar, hvað þá tvö ár. En ég get að ýmsu leyti fallizt á rök hv. flm. fyrir því, að ekki myndi veita af tveggja ára verklegu námi á bændaskólunum.

Hv. þm. hefir talað um það bæði í ræðu sinni á laugardaginn og í dag, að þeir, sem útskrifuðust úr bændaskólunum, hefðu lítið álit á sér meðal almennings. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu algerlega. Ég skal fara sýslu úr sýslu með hv. þm., og ég þori að fullyrða, að ég gæti bent honum á fjölda bænda, sem hafa stundað nám á bændaskólunum og eru fremstir í sinni röð. Trúnaðarmenn Búnaðarfélagsins eru flestir búfræðingar, og það er ekki af því, að þeir hafi náð

prófi í bændaskóla, heldur af því, að þeir hafa meiri þekkingu en aðrir. En þetta er viðkvæðið nú síðustu árin, að niða búfræðingana niður og segja, að þeir standi öðrum að baki; en ég mótmæli því algerlega og tei það á engum rökum byggt. Ég hefi talið ástæðu til að taka þetta fram vegna þess, að hv. flm. hefir komið að þessu í ræðu sinni bæði nú 1 dag og við síðustu umr. Um hitt get ég verið honum sammála, að verklegri kennslu hefir verið mjög ábótavant í bændaskólunum, og að því leyti væri full þörf á að hafa þar tveggja ára nám, en n. hefir ekki getað fallizt á þá till., vegna þeirrar ástæðu, sem ég hefi þegar skýrt frá, að þá mundu ekki fást nógu margir nemendur. En ég álít, að ekki saki, þótt þessi sumarvinna verði reynd nokkur ár, og þá sýnir reynslan, hvort ástæða er til að lengja námstímann og hvernig þessi breyting heppnast.

Um b-lið 5. gr. hefir n. ekki séð ástæðu til að rökræða, en getur verið því samþykk, að þar standi eins og brtt. gerir ráð fyrir, að bóklega kennslan fari aðallega fram að vetrinum, í stað þess, að hún fari einungis fram að vetrinum, því það getur verið gott að hafa fyrirlestra í sambandi við verklega námið að sumrinu til. Ég vil fyrir mitt leyti mæla með því, að hún verði samþ.

Um c-liðinn er það að segja, að hann gengur í sömu átt og brtt. n., þ. e. a. s. að skylda menn til að stunda verklegt nám, ef þeir sleppa fyrri deildinni, en ég geri það ekki að neinu kappsmáli, hvort þessi till. er samþ. eða till. n.

Sama er að segja um brtt. við 6. gr. Um hana þarf ekki að ræða; það er búið að tala um hana áður í sambandi við að lengja námstímann um eitt sumar.

Þá er 4. brtt., við 7. gr., b-liður, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Svo skulu og þeir nemendur, er þess óska, fá tilsögn í hirðingu og meðferð dráttarvéla“. N. leit svo á, að þetta væri innifalið í 7. gr., þar sem sagt er, að nemendum skuli kennd hirðing og notkun þeirra verkfæra, sem verulega þýðingu hafa fyrir búskap, og þurfi því ekki að taka það fram sérstaklega, og geri ég ekki að neinu kappsmáli, hvort þetta verður samþ. eða ekki.

Þá vil ég minnast á höfuðbreytinguna, sem í brtt. felst. Það er um framhaldsdeild, sem lagt er til, að sé stofnuð við bændaskólann á Hvanneyri. Hv. flm. benti réttilega á, að búnaðarþing hefði samþ. till. í þessa átt. Mín persónulega skoðun er, að ég dreg í efa, að það sé framkvæmanlegt að stofna framhaldsdeild við annanhvorn bændaskólann. Er þar fyrst að athuga, hver kostnaðurinn yrði, en hann myndi verða mikill. Það er ekki hægt að starfrækja framhaldsdeild á hvorugum staðnum nema með því að byggja allmikið. Á Hvanneyri er nú þegar svo þröngt, að varla er forsvaranlegt að hafa svo þröngt fyrir þá nemendur, sem þar eru nú. Það er ekki hægt að reka skólann eins og hann nú er án þess að byggja allmikið, hvað þá framhaldsdeild. Þetta atriði er það, sem ég álít, að þurfi fyrst og fremst að athuga. Svo er annað. Eins árs framhaldsdeild mundi ekki veita nemendunum þá þekkingu, sem nú er krafizt af sérfróðum mönnum í landbúnaði. Við Íslendingar erum að mörgu leyti mikið á eftir nágrannaþjóðunum í landbúnaðarháttum, og því nauðsynlegt fyrir okkur að kynnast erlendum aðferðum. Ég álít því, að við eigum fyrst um sinn að styðja að því, að menn geti sótt menntun sína út úr landinu. Hv. flm. ætlast að vísu til, að þessir menn fái tækifæri til að skreppa til útlanda. Nú munu 5 menn héðan stunda almennt landbúnaðarnám í Kaupmannahöfn auk tveggja, sem stunda önnur landbúnaðarvísindi, og 2 munu stunda almennt landbúnaðarnám í Noregi. Þessir 7 menn koma heim næstu ár, og þar höfum við menn til að taka við þeim störfum, sem hér er gert ráð fyrir. Ég álít því ekki aðkallandi að setja á stofn þessa framhaldsdeild, þó málið sé í sjálfu sér gott og það beri að stefna að því, að við fáum síðar slíka námsstofnun. Ég hygg, að ekki sé rétt að fara að setja nein pappírsákvæði um þetta áður en búið er að athuga hvað þetta muni kosta og hvaða gagn það muni gera.

Ég álít, að fyrst og fremst eigi að stefna að því að auka námið í bændaskólunum eins og þeir eru. Ég skal geta þess, að n. átti tal við skólastjórann á Hvanneyri um þetta mál, og hann leit svo á, að fyrst og fremst ætti að gera skólann þar svo úr garði, að hægt væri að láta kennsluna nú fara sæmilega fram áður farið væri að fást við framhaldsdeild. Þess vegna getur landbn. ekki fallizt á till. um að setja á stofn framhaldsdeild að svo stöddu og álítur, að málið þurfi meiri undirbúning áður en ráðizt verður í framkvæmdir. — Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar að sinni.