01.11.1937
Neðri deild: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

21. mál, bændaskólar

*Stefán Stefánsson:

Hv. frsm. landbn., 2. þm. Skagf., tók þessari brtt. okkar hv. þm. Dal. á þskj. 59 að ýmsu leyti mjög vingjarnlega. Vil ég í því sambandi sérstaklega nefna þessa framhaldsdeild, sem lagt er til í okkar brtt., að sett verði á stofn við Hvanneyrarskólann. Hann taldi hina mestu þörf á þessari framhaldsdeild. Það virðist sem ekkert annað vekti fyrir honum til að vera á móti því heldur en það, að til þess vantaði húsakost á Hvanneyri, sem sagt, að ef þessi framhaldsdeild ætti að verða sett á stofn, þá yrði gerð krafa um meiri fjárframlög heldur en möguleikar væru á að veita, að mér skildist. En ég held því fram, að svo framarlega sem þessi hugmynd er rétt og góð í sjálfu sér, sem ég tel hana vera, og enda einnig búnaðarþing, sem hvað eftir annað hefir gert till. um þessa hluti, þá eigi ríkisvaldið ekki að láta það standa í vegi fyrir framkvæmdum, að því sé borið við, að ekki sé til fé til þessara framkvæmda. Ég hygg, að fé það, sem í þetta færi, yrði ekki svo verulegt, að hv. þdm. ætti að hrjósa hugur við því að leggja það fram. Ég hygg, að fé verði lagt fram úr ríkissjóði til þess, sem miður skyldi heldur en þess að auka þekkingu landsmanna á landbúnaðarstörfum á þennan hátt.

Hv. frsm. minntist á, að 7 menn íslenzkir væru nú í útlöndum við landbúnaðarnám og því væri minni þörf á að setja á stofn þessa framhaldsdeild nú en ella hefði verið. Ég viðurkenni, að það kann að vera nokkurs virði að hafa þessa menn til þess að taka við þeim störfum, sem framhaldsdeildinni er ætlað að vinna. En að því er þau störf snertir held ég því fram, að innlend tilraunastarfsemi og prófvísindi yrði betri grundvöllur undir þekkingu íslenzkra búnaðarráðunauta heldur en sú fræðsla, sem miðuð er einungis við erlenda staðhætti ýmsa, því að hér eru að ýmsu leyti aðrir staðhættir en erlendis.

Hv. frsm. vildi draga það í efa, að þessi framhaldsdeild yrði þess megnug að veita nemendum sínum þá þekkingu, sem þeir þyrftu á að halda eftir þeim kröfum, sem ætti að gera til þeirra manna. Ég játa, að ég er ekki honum jafn til að dæma um þetta. En ég held því fram, að þessi framhaldsdeild yrði mönnum hagkvæmari til náms heldur en eins árs erlent nám eingöngu.

Hv. þm. Borgf. var einnig till. um þessa framhaldsdeild meðmæltur en taldi, að mér virtist, eins og hv. frsm., það standa í vegi, að ekki væri fé fyrir hendi til þessara framkvæmda.

Að því er snertir hina höfuðbreyt., sem till. er um í brtt. okkar hv. þm. Dal., að í stað þess, að í frv. á þskj. 21 er gert ráð fyrir að skólarnir séu þriggja missira skólar, er í brtt. gert ráð fyrir, að þeir verði tveggja ára skólar —, að því er snertir þessa breyt. gat hv. frsm. þess, að honum þætti æskilegt, að bændaefni stunduðu svo langt nám. En hann dró í efa, að með því móti mundu menn eins sækja skólana. Ég get hugsað mér vandkvæði í þessu efni, sérstaklega hjá nemendum, sem eru fyrirvinna í foreldrahúsum og óhægt eiga þess vegna með að komast að heiman. En með tilliti til þeirra, sem vinna utan síns heimilis í sveit, og einnig þeirra, sem búa í kaupstöðum, virðist mér ekkert mæla á móti þessari breyt., því að þarna fengju menn frítt húsnæði og uppihald um tveggja ára tíma, þannig að skólavistin kostaði nemendur ekkert nema það, sem til fatnaðar færi, þennan tveggja ára tíma. Ég hygg því þessa breyt. ekki eins fráfælandi sem hv. frsm. vildi vera láta eða gera ráð fyrir. Í grg. frv. segir um bændaskólana og starf þeirra fyrir aldamótin síðustu á þá leið, að árangur af starfi skólanna undir þessu fyrsta fyrirkomulagi hafi á ýmsan hátt verið glæsilegur; mestar breyt. til bóta hafi orðið á verklega sviðinu og að með þeim mönnum, sem komu frá skólunum, hafi breiðzt út þekking meðal bænda um hagnýtari vinnuaðferðir og notkun nýrra verkfæra til framfara og endurbóta í búnaði. Það er einmitt það, sem við viljum flm. brtt., koma til vegar með þessari lengingu á námstímanum, að árangur skólanna verði glæsilegri. Fyrst og fremst yrði hann glæsilegri með því að nemendur fengju fullkomnari reynsluþekkingu um ræktun og notkun verkfæra, sem þeim er ætlað að fá þekkingu á í búnaðarskólunum, heldur en þeir fá á einu sumri. Því að ég hefi ekki trú á, að á einu sumri geti þeir menn, sem áður en þeir koma í skólann hafa ekki notið annarar fræðslu en venjulegrar barnafræðslu, notfært svo tækifærið til verklega námsins, að það nám komi þeim að nokkru verulegu haldi. Ég held því miður, að þetta yrði yfirborðsmenntun, sem nemendur yrðu ekki færir um að notfæra fyrir sig og því siður mundi gera þá færa um að leiðbeina bændum um þessi efni.

Þá minntist hv. frsm. á þá till. í brtt. okkar við 1. málsgr. 4. gr. .frv., að í staðinn fyrir tvo fasta kennara, sem gert er ráð fyrir í frv., komi þrír fastir kennarar. Hann taldi þetta afturför frá till. frv. Er það venjulega talin afturför við einn skóla að ákveða, að kennarar skuli vera fleiri en þeir hafa verið áður? Ég vil telja það í framfaraátt, að fjölga kennurum við skóla, en ekki spor aftur á bak. En við gerum einnig ráð fyrir, sem er í samræmi við vilja hv. frsm., að notaðir verði einnig allir þeir aðrir kennslukraftar til viðbótar þessum föstu kennurum, sem þörf er á og lagt er til í frv., að ráðnir séu til skólans þ. e. a. s. aukakennarar, og að það sé lagt í vald skólastjóra, í samráði við landbrh., að meta, hverra kennslukrafta sé þörf við skólana.

Þessi brtt. okkar er gerð með það fyrir augum, að þegar gert er ráð fyrir að auka námið, þá eigi ekki að fækka fastakennurum. Ég hygg, að með því að hafa nægilega marga fasta kennara við búnaðarskólana, sé fengin meiri trygging fyrir því, að kennslan sé góð, heldur en með því að taka menn til kennslunnar gripna á hlaupum í það og það skiptið.

Þá talaði hv. frsm. mikið um, að ég hefði gert mikið úr því, að búfræðingar vissu oft ekkert að náminu loknu að því er snerti verklega kunnáttu. Ég vil minna hv. frsm. á, að e. t. v. hefir hann staðið að samningu grg. frv., og ég sagði aðeins, að þetta væri réttilega fram tekið í grg. frv.

Það skiptir í sjálfu sér litlu um launakjörin, hvort þau eru ákveðin í l. um bændaskóla eða í launal. En ég tel skylt að bæta kjör þeirra manna, sem kenna í bændaskólunum. Það er broslegt að sjá það í l., að 3 kennarar í bændaskóla fái ekki meiri laun allir samtals en einn skrifstofumaður hjá ríkinu. Ég vona, að menn geti verið mér sammála um, að þarna sé ástæða til að bæta úr á þessu sviði.

Þá var þessi viðbót við 7. gr., sem við hv. þm. Dal. leggjum til, nefnilega að nemendum verði sérstaklega veitt tilsögn í meðferð og hirðingu dráttarvéla, þeim er þess kynnu að óska. Hv. 2. þm. Skagf. vildi telja, að 5. málsgr. 7. gr. frv. fæli þetta í sér, þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Einnig skal nemendum kennd hirðing og notkun þeirra verkfæra, er verulega þýðingu hafa fyrir búskap, einkum með tilliti til aukinnar hestanotkunar“. Ég hygg, að í daglegu tali séu dráttarvélar ekki taldar verkfæri. Teldi ég því til skýringar rétt að taka þetta fram eins og við leggjum til í brtt. Ég hygg það fullkomlega rétt, að þegar í daglegu tali er talað um verkfæri, sé átt við hestaverkfæri. svo sem sláttuvélar, rakstrarvélar, snúningsvélar o. þ. h., en ekki dráttarvélar. Þar í sveitum, sem ég þekki til, mundi enginn maður í daglegu tali tala um dráttarvélar sem verkfæri; mönnum finnst þær of stórkostlegar til þess að kalla þær því nafni.

Hefi ég svo ekki fleiru við þetta að bæta að sinni, en vil vænta þess, að hv. þdm. geti orðið sammála um samþykkt á þessari höfuðbreyt., sem við hv. þm. Dal. leggjum til. Og það, sem skýrt bendir til, að svo megi verða, er einmitt álit þessara hv. nm., 2. þm. Skagf. og hv. þm. Borgf., að þeir lýstu sig fylgjandi till. um framhaldsdeild við Hvanneyrarskólann, en aðeins töldu það á móti framkvæmd þeirrar till. okkar, að ekki væri nægilegt fé fyrir hendi. Okkur flm. brtt. er vel ljóst, að þetta kostar nokkurt fé. En við erum reiðubúnir til að athuga möguleika fyrir tekjuöflunarleiðum til þess að standast útgjöld, sem af þessu leiðir. Ég tel, að bæði fyrr og síðar hafi verið veitt fé úr ríkissjóði til ýmissa hluta, sem miður skyldi heldur en til þess að efla sérstaklega verklega menntun bænda í landinu og þeirra, sem eiga að hafa með höndum leiðbeiningarstörf um landbúnaðarmál.