24.11.1937
Efri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

21. mál, bændaskólar

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti: Ég vil ekki láta hjá líða að láta í ljós álit mitt á því, sem hv. 10. landsk. hefir tæpt á í sambandi við sína brtt., um þá takmörkun, sem mönnum í kaupstöðunum er sett fyrir aðgangi að búnaðarskólunum. Ég álít, að það sé a. m. k. fullt eins þýðingarmikið og hv. 10. landsk. hefir gefið í skyn, ekki aðeins fyrir þá, er við sjó búa, heldur líka sveitamennina, að nota hvert ráð, sem gefst til að koma í veg fyrir fólksstrauminn úr sveitunum til kaupstaðanna, sem ég hygg, að allir séu á einu máli um, að er hið mesta böl. Þó það kannske orki tvímælis yfirleitt, hvort réttara sé nú á þessum tíma að auka byrðar ríkissjóðs um þessar 10 þús. kr. til þess að gera breytingar á bændaskólunum, eða að geyma það betri tíma, þá er það víst, að það mætti mikið til þess vinna fyrir þjóðfélagið, ef hægt væri að koma af stað nokkrum straumhvörfum í þessu efni, stöðva að einhverju leyti þann mikla og stöðuga flótta úr sveitunum að sjónum. Til þess að stöðva þennan flótta þyrfti sjálfsagt margar og miklar ráðstafanir, og í sambandi við það finnst mér það alveg rétt, sem hv. 10. landsk. heldur fram, að það má á engan hátt, hvorki með þessari eða annari lagasetningu, torvelda það, að þeir, sem alast upp við sjó, geti, ef þeim býður svo við að horfa, lagt stund á landbúnað. Og þessi skrifl. brtt. hv. 10. landsk. fer fram á að nema burt úr frv. það haft, sem sett er á þá, er alast upp við sjó, til að sækja búnaðarskólana. Mér finnst sú till. hafa við full rök að styðjast. Meira að segja finnst mér, að þeir, sem búa í sveitunum, og þeir, sem taka að sér flutning hagsmunamála landbúnaðarins á Alþingi, ættu sér í lagi að vera því hlynntir að fá þannig nýtt blóð í sveitirnar og ekki á nokkurn hátt að setja tálmanir á leið ungra manna úr kaupstöðunum, er þangað kynnu að vilja leita. Það gefur líka auga leið, að þó undanþáguheimildin sé í l., þá er þetta ákvæði í b-lið ekkert annað en forréttindi fyrir sveitamennina. Og þó segja megi, að þessir skólar séu fyrst og fremst fyrir sveitamenn, sem þeir auðvitað verða í framkvæmdinni eins og þeir hafa verið, þá legg ég þann skilning í þetta mál, að þessir skólar, eins og allir skólar, eigi fyrst og fremst að vera fyrir áhugamennina, hvar sem þeir eru uppaldir. Mér finnst þess vegna, að þessi brtt. snerti ákaflega þýðingarmikið principmál, og því sé rétt, að hún verði samþ. Það hljóta allir að sjá, að Alþingi verður fyrr eða síðar að gera meira en það hingað til hefir gert til þess að koma í veg fyrir það, að fólkið flykkist hugsunarlaust úr sveitunum að sjónum, og samtímis greiða fyrir áhugasömum mönnum, er við sjávarsíðuna búa og vilja stunda búskap í sveit, með því að láta þá fá til þess sömu aðstöðu og sveitamennina sjálfa. Ég vil biðja þá hv. þdm., sem sérstaklega bera hagsmuni sveitanna fyrir brjósti, að athuga vel einmitt tilmæli eins og þessi, sem eru ekki síður hagsmunamál sveitanna en kaupstaða og bæja.