24.11.1937
Efri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

21. mál, bændaskólar

*Jón Baldvinsson:

Eftir að hafa hlustað á þessa ræðu hv. frsm. sé ég, að fyrir honum vakir það, að hér skuli vera verulegar takmarkanir fyrir kaupstaðapiltana. Hann sagði, að umsóknir um skólavist næsta vetur væru nú byrjaðar að koma og þeim yrði svarað eftir röð. Sér nú ekki hv. þm., að það muni litið þýða fyrir kaupstaðapilta að sækja, sem ekki hafa verið þau tilteknu tvö ár í sveit. Því hv. þm. bætti því við, að umsækjendum yrði svarað eftir röðinni, og játandi, ef þeir hefðu gögn í lagi. Kaupstaðapiltarnir hafa ekki gögn í lagi nema þeir hafi verið í sveit þau tilteknu tvö ár. Sveitapiltar, sem hafa dvalið í sveit til 14 ára aldurs, eru aftur á móti öruggir, þó þeir hafi kannske ekki snert á sveitastörfum síðan. Sveitapilturinn og kaupstaðapilturinn hafa báðir hlotið þetta bóklega gutl í barnaskólunum, en það, að hafa verið á barnaskólaaldri í sveit, en ekki í kaupstað, gerir gæfumuninn. En hv. þm. gekk fram hjá því að kaupstaðarpilturinn sækir varla um búnaðarskóla nema hann hafi mikinn áhuga

Það er ekki hægt að bera stýrimannaskólann saman við þetta. Þar er um það að ræða að hafa á hendi verkstjórn, stýra skipi og bera ábyrgð á lífi manna, en hér er verið að ala menn upp til þess að stunda atvinnuveg, sem þúsundir manna starfa við, og það er einskis krafizt af manni, sem gerist sveitabóndi, ef hann hefir peninga til að kaupa jörðina fyrir, hann þarf ekki að hafa verið í skóla, enda þótt það sé betra að bændur fái fræðslu um landbúnaðarmál. Það er því ekki hægt að bera það saman að ala menn upp til þess að stunda sérgrein eins og stýrimenn eða vélstjóra, sem eiga að sjá um gang véla, og þá menn, sem fara í atvinnugrein eins og landbúnað. Þá var verið að gera gys að því. að það mundu verða mikil straumhvörf við þetta, sennilega út af því, sem hv. þm. Vestm. sagði, og ég að einhverju leyti. Það hefir verið sagt, að hér væri ekki nema um örfáa menn að ræða. Þetta er okkur báðum ljóst. Mér er ljóst, að það eru ekki nema undantekningar, sem koma hér til greina, sem sé aðeins þeir, sem hafa áhuga fyrir þessu. Hv. þm. sagði, að það skipti engu. Mér finnst það skipta máli. er einhver ungur maður kemst á rétta leið í lífinu, og þó að það skipti ekki máli fyrir þúsundirnar í kaupstöðunum hvort 3 eða 4 menn komast í bændaskóla, þá skiptir það máli, að maðurinn geti helgað sig því lífsstarfi, sem hann er bezt fallinn til, og „hvert hár gerir skugga“. Aðalatriðið fyrir mér er, að menn geti fengið að stunda það starf, sem þeir hafa sérstaklega áhuga fyrir, eins og ég veit, að margir piltar úr sveit hafa mikinn áhuga fyrir sjómennsku og ganga jafnvel í stýrimannaskólann og þeim er alls ekki meinað það. Það er ekki hægt að bera það saman við það að stunda sveitabúskap, sem engar kröfur eru gerðar til aðrar en þær, að hafa peninga til þess að kaupa jörð fyrir.