24.11.1937
Efri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

21. mál, bændaskólar

Guðrún Lárusdóttir:

Á þinginu 1932 eða 1933 bar ég fram í þessari hv. d. brtt. við fjárl. um það, að nokkrum þúsundum kr. af fé, sem veitt er til atvinnubóta í kaupstöðum landsins, yrði varið til þess að styrkja nokkra atvinnulausa, fátæka kaupstaðapilta til náms við bændaskóla. Þá var þannig ástatt, að orð fór af því, að bændaskólarnir væru ekki vel sóttir, og þess vegna mundi hafa verið pláss í þeim fyrir nokkra pilta úr kaupstöðum. Það, sem fyrst og fremst vakti fyrir mér, þegar ég flutti þessa brtt., var það, sem komið hefir fram í umræðum um þessa gr., sem hefir sérstaklega vakið umtal hér í hv. d., sá háski, sem ungum mönnum í kaupstöðum er búinn af iðjuleysi. Iðjuleysið er undirót alls ills og það eru mörg sorgleg dæmi þess, hversu ungir efnispiltar leiðast afvega einungis vegna iðjuleysis. Ennfremur vakti það fyrir mér með þessari till. minni, að mér fannst það tímabært að gera ofurlitla tilraun til þess að leiða hug ungra kaupstaðamanna að þeim verkefnum, sem sveitirnar hafa upp á að bjóða. En þessi till. fann ekki náð fyrir augum allra hv. þdm. og m. a. man ég vel, að hv. 10. landsk. greiddi ákveðið atkv. á móti, og furðaði mig á því þá. En nú er mér það gleðiefni, að hann skuli vera kominn á sömu skoðun og ég um, að það sé ástæða til þess að greiða fyrir því, að ungir kaupstaðapiltar komist í sveit. Það, sem hann þá fann að uppástungu minni, var það, að peningana átti að taka af atvinnubótafénu. Það kann að hafa mátt haga þessu eitthvað á annan veg, en þegar þess er ennfremur gætt, hvílíkur flótti á sér stað nú á tímum úr sveitunum til kaupstaðanna, þá er ekki ótímabært að nota hvert tækifærið, sem gefst, til þess að ráða einhverja bót á þessu, og mér sýnist hv. þm. með till. sinni vilja reyna til þess að gera það, jafnvel þótt það sé í smáum stíl.

Viðvíkjandi þeim tveimur till., sem fyrir liggja frá hv. 10. landsk. og hv. landbn., má náttúrlega segja, að munurinn á þeim sé í fljótu bragði séð ekki geysimikill, en þó er hann sá frá mínum bæjardyrum séð, að það er eins og það sé verið að amast við því, að kaupstaðadrengir gangi í þessa skóla, því að, eins og hv. 10. landsk. tók fram, er það að sjálfsögðu meðfæddur réttur, sem sveitapilturinn hefir til bændaskóla fram yfir kaupstaðapiltinn, og ég felli mig betur við, að þetta ákvæði, sem hér um ræðir, sé látið falla burt; það er ekki fyrir þær sakir, að ég tortryggi, að skólastjórnir leyfðu undanþágur, heldur af því, að ég kann illa við að lögfesta skýlaust ákvæði um það, að kaupstaðadrengjum sé meinað að komast í bændaskólana öðruvísi en með sérstakri undanþágu. Ég mun því fylgja brtt. hv. 10. landsk. um þetta mál. Ég tel rétt, að þeir unglingar landsins, sem á annað borð hafa áhuga fyrir því að kynna sér málefni bændaskólanna, hafi jafna aðstöðu til þess að njóta þeirra, og ég tel ekki hættu á því, að það sæki aðrir um upptöku í skólana en þeir, sem hafa sérstakan áhuga á málefninu. Ég er ánægð yfir því, að sú hugmynd mín, sem ég talaði um í sambandi við brtt. mína, á áðurgreindu þingi, hefir í rauninni komizt í framkvæmd, því að ég veit, að undanfarin ár hafa ungir menn héðan úr Reykjavík — mér er ekki kunnugt um aðra kaupstaði landsins í því sambandi — sótt bændaskólana með lítilsháttar styrk frá bæjarfélaginu og það hefir yfir höfuð gefizt vel. Því miður er mér ekki fullkunnugt um, hve margir þeir eru, en ég veit, að unglingar, sem notið hafa tilsagnar á Hólum og Hvanneyri, hafa haft gott af veru sinni þar. Þeim hefir fundizt sjóndeildarhringurinn stækka og viðhorfið breytast við að kynnast lifnaðarháttum sveitanna og starfsháttum, sem óneitanlega eru yfirleitt ólíkar því, sem kaupstaðapilturinn á að venjast. Fyrir því tel ég heppilegt hvert það spor, sem stigið er í þá átt að örva unga kaupstaðapilta til þess að sækja nám sitt og menntun sína, að því leyti sem til menntunar kemur í þessum efnum, einmitt í sveitir landsins. Við vitum, að úr sveitunum er mergur þjóðarinnar runninn, og þó að nokkur breyting sé orðin á því frá því, sem áður var, þá er það svo sem allir vita, að lengi býr að fyrstu gerð, og eins og kjarni íslenzku þjóðarinnar hefir verið úr sveitalífinu, eins býst ég við, að það verði, ef að því lífi er hlúð svo sem skyldi. Þess vegna tel ég líka hyggilegt að vera vakandi yfir öllu, sem getur gert það að verkum, að það megi takast, að ungum mönnum úr kaupstöðum sé hjálpað til að leita fyrir sér með nám og verustað í sveitum. Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, og hefi ég þá gert grein fyrir, hvers vegna ég fylgi þessari till. hv. 10. landsk.