14.12.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

21. mál, bændaskólar

*Jón Baldvinsson:

Þessi till. á þskj. 364 er í rauninni ekki fyrirferðarmikil, en þó felst í henni stefna, sem ég kann engan veginn við og mér finnst, að þeir hv. þm., sem sérstaklega telja sig fulltrúa bænda, ætli að beita sér fyrir. Ég vil geta þess, að þegar frv. til l. um bændaskóla kom fyrst fram á Alþ., þá var í 6. gr. þess frv. ekki gert ráð fyrir, að piltar, sem fengju aðgang að bændaskólunum. þyrftu að hafa verið nema eitt sumar í sveit eftir 14 ára aldur. Nú er aldurstakmarkið að vísu lækkað, en líka fjölgað árunum, sem þeir eiga að hafa verið í sveit. Það, sem vakti fyrir mér, þegar ég flutti till. í hv. Ed. um að fella þetta niður, var sú stefna, að bægja ekki kaupstaðarpiltum og piltum úr kauptúnum frá því að sækja bændaskólana, of þeir hefðu ábuga fyrir því að stunda landbúnað, því að það veit hv. 1. flm. brtt., að það eru margir piltar í sveitunum, sem ekki hafa minnsta áhuga fyrir landbúnaðarstörfum, en svo geta hinsvegar verið margir piltar í kaupstöðum, sem hafa mikinn áhuga fyrir þeirri atvinnugrein, sem er eðlilegt vegna þess, að kynslóðin, sem er að vaxa upp núna í kaupstöðunum, stendur í svo nánu sambandi við þá menn, sem fluttu úr sveitunum til kaupstaða og kauptúna, svo að það er ekki nema eðlilegt, að þetta fólk, sem stendur svo nálægt bændafólkinu, beri í brjósti einhverja ræktarsemi í garð sveitanna, enda hygg ég, að úr kaupstöðum og kauptúnum hafi komið ekki allfáir menn, sem hafa sýnt mikinn áhuga fyrir ræktun jarðarinnar. Ég þarf ekki annað en að benda hv. 1. flm. á það, að það hefir í rauninni enginn lagt fram jafnmikla og góða ræktun, oft við léleg skilyrði, eins og þeir, sem í kaupstöðum og kauptúnum búa. Sú ræktun hefir á síðari árum jafnvel tekið fram ræktun á góðum jörðum í sveitunum sjálfum, — og því mega ekki synir þessara manna, áhugasamir unglingar úr kaupstöðum og kauptúnum, eiga rétt á því til jafns við sveitapiltana að komast inn í þessa skóla? Hv. frsm. sagði, að þeir ættu að hafa unnið eitthvað að þessum störfum áður en þeir færu í skólana, svo að þeir kæmu ekki inn í skólana eins og álfar út úr hól. Ég veit ekki, hvort hv. þm. Skagf. hefir verið með einhver sérstök meiðyrði í garð kaupstaðapiltanna um, að þeir væru sérstakir álfar, sem ekki væri líklegt, að hægt væri að troða neinu í um landbúnaðarmál: Ég held, að verkin sýni merkin um það, að það hafi einmitt farið fram gríðarlega mikil ræktun í kaupstöðum, sem hafi víðast hvar verið betri heldur en sú ræktun, sem fram hefir farið í sveitunum undir umsjón húnaðarfélaga og ráðunauta, að þeim að öðru leyti ólöstuðum. Nú er það svo um kaupstaðapilta, að foreldrar þeirra reyna vel flestir að láta þá fara í sveit. Það þykir betra og hollara fyrir unglinga og börn, ef hægt er að koma þeim í sveit að sumrinu, en hv. 1. flm. veit, að það eru aðallega yngri krakkar, 8–12 ára, og eru þau oft á þessu reki öll sumurin í sveit. En þegar unglingarnir hafa náð 12 ára aldri, þá þurfa foreldrar þeirra að láta þá vinna eitthvert starf í kaupstöðunum, til þess að létta undir með heimilinu, svo að einmitt eftir 12 ára aldur til 14 ára eiga þeir erfitt með að fara í sveit og vinna þar. Hv. I. flm. minntist á það sem rök fyrir till. sinni, að það hefði þekkzt, að kaupstaðapiltar hefðu gengið í bændaskóla og svo aldrei sinnt búskap eftir það. Ég vil segja hv. þm. það, að ég hugsa, að það séu fleiri sveitapiltar, sem hafa farið á bændaskóla og aldrei sinnt landbúnaði siðan. Ég þykist vita, að fjöldi af sveitapiltum, sem farið hafa í búnaðarskóla, hafi síðan aldrei meir sinnt landbúnaði. Hvers vegna skyldi vera komið svo, að stórkostlegur meiri hluti þjóðarinnar er búsettur í kaupstöðum og kauptúnum? Er það ekki vegna þess, að fólkið hefir flutt úr sveitunum til kaupstaðanna? Sveitapilturinn getur haft ákaflega mikla löngun til þess að fara til, sjávar og stunda sjómennsku. Faðir hans og forfeður langt fram í ættir hafa kannske stundað sjómennsku á togurum og skútum o. s. frv. Sveitapilturinn getur haft löngun til þess að fara á stýrimannaskóla, og þó að ekki sé hægt að bera saman jafnþrönga stétt og t. d. stýrimannastéttina og hinsvegar heila atvinnustétt eins og landbúnað, þá getur sveitapilturinn haft löngun til að stunda þessa atvinnu, og eins getur verið, að kaupstaðapilturinn hafi mikla löngun til þess að stunda landbúnað, þó að hann hafi ekki aðstöðu til þess vegna slæmra kringumstæðna. Hann hefir ekki fé til að kaupa sér jarðnæði, en ef hann hefði fengið sér skólamenntun, þá væri hugsanlegt, að hann gæti fengið starf í sveit og ílenzt þar síðan, enda er sannleikurinn sá, að úr kaupstöðunum hafa komið piltar í bændaskólana, sem hafa siðar orðið nýtir menn í sveitum. Ég vil því eindregið mæla á móti því, að farið verði að samþ. þessa till., sem gengur þvert ofan í yfirlýsta stefnu allra flokka nú, en það er sú stefna að reyna ekki eingöngu að halda fólkinu kyrru í sveitunum, heldur að breyta straumnum og reyna að fá fólkið til að fletja aftur til sveitanna. Þetta er eitt af því, sem gæti stuðlað að þessu, en fyrir það er girt með þessum ákvæðum, eins og þau eru nú í frv., vegna þess hvernig til hagar hjá unglingum í kaupstöðum. Ég veit, að með þeirri nýbýlalöggjöf, sem samin hefir verið, er ætlazt til, að reynt verði að stuðla að því, að fólkið haldist við í sveitunum, því að aðalmarkmið hennar er, að unga fólkið í sveitunum geti reist þar heimili, átt kost á jarðnæði, og það er auðvitað virðingarvert, en það gæti vel verið, að það þyrfti að gera meira en það. Ég er ekki í vafa um, að nú, þegar aðalatvinnuvegurinn við sjóinn bregzt svo herfilega, þyrftu kaupstaðirnir að tryggja sér lönd til þess að hafa til afnota fyrir íbúa sína, svo að þeir gætu fengið því fólki jarðnæði, sem þá ósk kynni að bera í brjósti að búa í sveit og hafa þar heimili. Þetta liggur að vísu ekki fyrir nú, en ég vildi benda hv. þm. á, að þetta getur verið atriði í baráttunni fyrir því að beina straumnum aftur frá kaupstöðunum til sveitanna. Það eru miklir erfiðleikar á að gera ráðstafanir til að hjálpa fólkinu, þegar það hópast saman í þúsundatali á litlu svæði af landinu og mun erfiðara að ráða fram úr vandræðum þess þar en í strjálbýlinu í sveitunum, enda er ekkert til þess sparað.

Vildi ég vænta, að hv. Alþ. vildi samþ. frv. eins og það liggur fyrir, en sinna ekki brtt., sem fram hefir komið á þskj. 364.