21.12.1937
Sameinað þing: 18. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

21. mál, bændaskólar

Frsm. landbn. Nd. (Steingrímur Steinþórsson):

Mér virtist nú ræða hv. 9. landsk. bera þess merki, að hann sé algerlega í rökþrot komin við að mæla á móta þessari till., því að hann fór út í allt aðra sálma. Hann tók til að rangfæra orð mín og gera mér upp, að ég vildi, að allir sem í búnaðarskóla færu, yrðu ráðunautar, sem ösluðu í klofháum stígvélum um allar jarðir til þess að segja fyrir, hvar ætti að grafa skurði og þess háttar. Ég get borið það undir hið. háa Alþingi, að mér hafa aldrei farizt orð í svipaða átt. Þetta er alger tilbúningur og sýnir gleggst, að hv. þm. hafði engin rök gegn þessari till., enda var ekki reynt að hnekkja því, sem ég hélt fram. Hliðstæðir skólar aðrir, eins og stýrimannaskólinn og vélstjóraskólinn, sem er alveg hliðstæður fyrir sjómenn, hafa sett svipuð skilyrði hjá sér. (SÁÓ: Þetta er ekki sambærilegt). Ég segi, að þetta sé sambærilegt, og ekki undarlegt, þó að gerðar séu hliðstæðar kröfur um menn, sem fara til sérskóla sjómennskunnar. Þetta er alveg sambærilegt. Þess vegna hefi ég ekki skipt um skoðun í þessu máli. Síður en svo. En hinsvegar er það svo, að nú hefir komið fram ósk frá hæstv. landbrh. um, að þessi till. sé tekin aftur, af þeirri ástæðu, að óttast er um, að frv. geti fallið, ef till. er samþ., ef þeir, sem hafa beitt sér fyrir henni, skipa sér allir í einn hóp til að fella frv. Get ég sagt það sem mína eigin skoðun, að ég vil ekki eiga á bættu, að frv. falli af þessari ástæðu. lin ég verð að segja, að þeir, sem beita sér gegn þessari till., hafa sýnt allmikið kapp í þessu máli, og hefir það meira ráðið en vit og íhygli. Ég hefi nú átt tal við a. m. k. suma af landbnm. Nd., og ég held mér sé óhætt að segja, að meiri hl. þeirra muni fallast á það, að brtt. verði tekin aftur nú að þessu sinni. Og ég held þá, að ég taki þá ábyrgð á mig fyrir hönd flutningsmannanna að taka aftur till., til þess að eiga ekkert á hættu um það, að frv. falli.