06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

46. mál, samvinnufélög

Páll Zóphóníasson:

Ég ætla, að það hafi komið fram í minni fyrstu ræðu hér, sem hv. 2. þm. Eyf. virðist ekki hafa heyrt. þótt hann væri þá hér í deildinni, að ég álit, að eins og þetta ákvæði er nú í þessu frv.. sem fyrir liggur á þskj. 51, sé ekkert sagt um það, hvernig eigi að miða við krónurnar. Ég tók það fram, að það væri hægt að miða við þær á tvo ólíka vegu, og rakti ég, hvernig það væri. Annarsvegar væri hægt að láta einn fulltrúa frá hverju félagi og svo til viðbótar fulltrúa fyrir svo og svo mikla krónutölu í viðskiptum. Þá mætti einnig miða fulltrúatöluna við félagatöluna, en þó þannig, að því aðeins hefðu þau þann rétt. að þau skiptu við félagið fyrir ákveðið lágmark, til að útiloka málamyndafélagsmenn frá áhrifum á gang félagsmála. Þessar tvær leiðir sagði ég. að væri hægt að fara, og ég sagðist vilja útiloka aðra leiðina, og í þeim tilgangi er brtt. flutt.

Mér skildist það koma fram í umr., og skil ég þó ekkert í því, að brtt. væri flutt að einhverju leyti til þess að útiloka þátttöku einhverra minna þroskaðra félaga í Sambandinu heldur en annara, sem væru á hærra þroskastigi félagslega séð. Og mér skilst, að þessi lítt þroskuðu félög séu félögin í kaupstöðunum. Hvernig kemur þetta út þar? Hvort ætli það séu kaupstaðarbúarnir eða sveitamennirnir, sem skipta meira við kaupfélögin, sem þeir eru í? Hverjir ætli leggi sér meira til munns af því, sem þeir framleiða? Maðurinn í óþroskaða félaginu hefir meiri viðskipti. Félag með 100 meðlimum í Reykjavík hefir meiri umsetningu en félag með 100 miðlimum í sveit. (EÁrna: Þetta er algerlega rangt). Hv. 2. þm. Eyf. segir, að þetta sé rangt. Hann ætlar að fóta sig á því, að það sé fleira fólk á sveitaheimilunum, en oft ekki nema einn heimilismanna skrásettur sem félagsmaður. En hvað segja hagskýrslurnar? Þær segja, að það sé að meðaltali 0,2 fleiri menn á heimili í sveit en í kaupstað. En hvað heldur hv. þm., að muni miklu á úttektinni, eins og t. d. kjöti og mjólk? Eigi að fara að miða fulltrúatöluna við viðskiptaveltuna, verður reyndin sú, að það koma inn fleiri fulltrúar frá kaupstaðafélögunum en sveitafélögunum, eða öfugt við það, sem ætlazt er til með lagabreytingunni.

Ég trúi því ekki, að stj. SÍS ætli að fara að gera slíkan réttarmismun á milli einstakra manna og hér er um að ræða. en ef það er hugsað til að koma því í kring á þennan hátt, þá er algerlega skotið framhjá markinu, því að kaupstaðarbúar fá fleiri fulltrúa, ef á að miða við krónutöluna, en ekki félagatöluna.