29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

46. mál, samvinnufélög

*Ísleifur Högnason:

Ég tel, að sú breyt. á frv., sem hér um ræðir, sé til bóta, ef sá skilningur verður lagður í þessi ákvæði, sem ég ætlast til, að ekki verði látin gilda sem almenn regla. að fara eftir viðskiptum félagsmanna, heldur sé það til að tryggja, að menn séu ekki til málamynda í sambandinu, og geri ég ráð fyrir, að við það sé átt. En ef ætti að gefa sambandinu rétt til að takmarka atkvæðisréttinn við viðskiptaveltuna, yrði það til þess að veita þeim, sem efnaðri eru, meiri rétt en þeim fátæku, en ég geri ekki ráð fyrir, að þann skilning beri að leggja í þessi ákvæði, heldur sé það meiningin að tryggja, að deildir séu ekki til málamynda í félaginu. Er það ekki rétt? (BJ: Jú, jú). Með þeim skilningi er ég samþykkur frv.