03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

46. mál, samvinnufélög

*Jón Pálmason:

Út af ræðu hæstv. atvmrh. ætla ég að segja örfá orð sem meðflm. að þessum brtt. Hann tók það fram, að samkv. þessari till. væru hlutfallskosningar fyrirskipaðar, en þær væru ekki fyrirskipaðar samkv. sveitastjórnarl. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. atvmrh. Þarna er alveg um sömu hluti að ræða. Fyrirskipunin nær aðeins til þess að nota hlutfallskosningar, ef einhver ákveðinn hluti félagsm. óskar þess, samkv. þessari till. 1/10 hluti fundarmanna, en samkv. sveitastjórnarl. einhver ákveðinn hluti, þegar um hreppsnefndarkosningar er að ræða. Mér finnst það mjög eðlilegt, að kosningum í samvinnufélögunum væri alveg eins háttað eins og nú er komið bæði í búnaðarfélagsskapnum og í kosningum til sveitar- og bæjarstjórna.

Ef það er rétt, sem stjórnarflokkarnir hafa barizt fyrir hér á Alþ. undanfarin ár, að koma á hlutfaliskosningum í búnaðarfélögunum og fyrirskipa líka á þennan hátt hlutfallskosningar við hreppsnefnda- og bæjarstjórnarkosningar, þá er einnig alveg rétt að hafa sömu reglu, að því er samvinnufélögin snertir. Ég fæ ekki skilið, að það sé hvorki neitt hættulegt né athugavert, þótt þessi brtt. verði samþ. Það er aðeins lagt til að færa regluna inn á annað svið. Sú tilhögun hlýtur að hafa sömu áhrif, að því er þennan félagsskap snertir. Ef á annað borð á að fella þessa till. hér á Alþ., þá er það ljóst, að þeir þm., sem hafa barizt fyrir hlutfallskosningum í sveitarfélögum og búnaðarfélögum, eru komnir í fullkomið ósamræmi við sína fyrri venju.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta, nema tilefni gefist til, en vil geta þess, að þessum l. hefir verið fylgt í mínu héraði, að hafa hlutfallskosningar, ef ákveðinn hluti félagsmanna óskar þess, en slíkt kemur ekki til nema við einstöku kosningar. Enda held ég, að þar hafi ekki orðið neinir árekstrar út af þeim ákvæðum, og ég efast ekki um, að þannig myndi fara annarsstaðar, ef þessi l. verða samþ. þannig.