03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

46. mál, samvinnufélög

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Það, sem ég sagði um fyrirkomulag sveitarstjórnarkosninganna, stafaði af því, að ég hafði skilið það, sem hv. 4. landsk. sagði í fyrri ræðu sinni, þannig, að það væri í öllum tilfellum skylt að hafa hlutfallskosningar við sveitarstjórnarkosningar, en þetta mun ekki hafa átt að skilja þannig.

Út af því, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði, að þetta hefði ekki valdið neinum árekstrum í því kaupfélagi, sem hann er þátttakandi í, vil ég benda á það, að fyrst þar hefir verið höfð hlutfallskosning undanfarið, án þess að nokkur lagafyrirmæli væru um það, þá geta að sjálfsögðu önnur félög tekið slíkt upp, ef þeim þykir það betur henta, án þess að þau séu nokkuð bundin við það af löggjafarvaldinu. því vil ég endurtaka það, sem ég áðan sagði, að ég tel alveg óþarft að setja slíkt í lögin og vil mæla á móti þessum brtt.