03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

46. mál, samvinnufélög

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég vil út af þessum brtt. aðeins benda á, að það nær engri átt að bera saman fyrirkomulagið við sveitarstjórnarkosningar og fyrirkomulagið á frjálsum félagsskap eins og samvinnufélögunum, því að eins og kunnugt er, þá er landinu skipt í sveitarfélög eftir lögum. Það er skylt að hafa þann félagsskap. Sú skipting er lögbundin, og sveitarfélögunum er afmarkað það vald, sem þau hafa innan þjóðfélagsins. Aftur á móti er samvinnufélagsskapurinn frjáls félagsskapur, sem vitanlega nýtur lagaverndar, ef hann er stofnaður, eins og annar félagsskapur. Það er þess vegna alveg ólíku saman að jafna, þar sem annars vegar er um að ræða sérstakt kosningafyrirkomulag, sem fyrirskipað er við hreppsnefnar- og bæjarstjórnarkosningar,en hinsvegar kosningu á fulltrúum í frjálsum félagsskap eins og samvinnufélögunum. Ég skil ekki annað en að hv. flm. sjái, að hér er hreint djúp staðfest á milli. Löggjafinn mundi beinlínis ganga inn á svið frjáls félagsskapar, ef hann ætlaði að heimta, að menn í slíkum félagsskap höguðu á sérstakan hátt kosningum innan félagsskaparins, sem meiri hl. þar ekki kærir sig um. Mér finnst sérstaklega einkennilegt, að þessi postuli frelsisins, eins og hv. þm. A.-Húnv., skuli vera með svona till. Eins og hæstv. atvmrh. tók fram, er vitanlega ekkert við því að segja, ef félögin koma sér saman um að hafa hlutfallskosningar, eins og mér skildist á hv. þm. A.-Húnv., að gert væri í Austur-Húnavatnssýslu, en að lögin fyrirskipi slíkt, finnst mér hrein og bein fjarstæða.

Annars vil ég taka það fram, að tilgangurinn með þessu frv. er alls ekki í nokkru samræmi við þessar brtt. Í frv. er aðeins um það að ræða að fá heimild til þess að skora á deildir SÍS að auka viðskipti sín við það með því að miða fulltrúatöluna að nokkru leyti við viðskiptin, og það er alveg óskylt mál þeim brtt., sem hér hefir verið ruglað inn í málið.