05.05.1938
Efri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég mun hafa um þetta mál mjög stutta framsögu. Þess gerist ekki þörf að hafa langa framsögu um málið fyrir þá sök, að þau rök, sem liggja til þess, að þetta frv. er hér fram komið, og að mál þetta verður samþ. hér, eru rakin í grg. frv. Það atriði, hvort rétt sé að setja l. um að afgera þessa deilu, sem hér liggur fyrir, með gerðardómi, ættum við ekki að þurfa að deila um, og munum áreiðanlega ekki deila um, þar sem báðir deiluaðiljar eru sammála um að leggja þetta mál í gerð. Þess vegna skal ég ekki ræða um það, hvort það sé nauðsynlegt út af fyrir sig eða rétt, að leggja málið í gerð eða ekki.

En það er annað atriði, sem ágreiningnum hefir valdið í þessu máli, því að eins og kemur fram í grg. eða þeim skjölum, sem þar eru prentuð, voru aðiljar búnir að koma sér saman um það báðir, að leggja mál þetta í gerð. En síðan kom ágreiningur um það, hvernig ætti að orða samkomulagið um gerðardóminn, og greindi aðilja þar svo mjög á, að um það náðist ekki samkomulag. Eins og kunnugt er og kemur fram í þessari grg., óskaði Stýrimannafélagið eftir, að það væri tekið fram, að hvorugur deiluaðiljanna mætti hafa hinn á nokkurn hátt gjalda þátttöku sinnar í deilunni. En Eimskipafélag Íslands vildi orða þetta nokkuð á annan hátt og binda það við nokkur tiltekin atriði.

Nú er það þannig, að þegar menn hafa deilt eða jafnvel barizt, þá er það venja, þegar deila er útkljáð eða ófriði er létt af, að veita fulla uppgjöf saka. Það er regla, sem alltaf hefir gilt í ófriði og gildir enn. Því að það er ekki eðlilegt, að menn rétti fram höndina til sátta, ef þeir eru ekki vissir um það, að hönd mótaðiljans í deilunni sé í fullkominni einlægni fram rétt til sátta, þó að ég áliti ekki, að það hafi verið í óeinlægni gert af hálfu Eimskipafélags Íslands. Þetta, að sakir séu látnar niður falla, þegar lausn hefir fengizt á deilum, eins og t. d. þessari, er eitt af grundvallaratriðunum, sem tekin voru upp í septembersættina í Danmörku 1899, þá sætt, sem síðan hefir að mörgu leyti verið grundvöllurinn undir þeirri vinnulöggjöf, sem gilt hefir á Norðurlöndum. Þessar reglur hafa einnig verið teknar upp í samningum milli verkalýðsfélaga og vinnuveitenda hér á landi, og eins gilt þá, þótt um harðvítugar deilur hafi verið að ræða; t. d. í þeirri deilu, sem var á milli klæðaverksmiðjunnar Álafoss annarsvegar og hinsvegar verkamanna í þeirri verksmiðju. Jafnframt mun það hafa verið tekið fram, þegar sættin varð í Sogsdeilunni, og einnig í vinnudeilunni í haust viðvíkjandi uppskipun kola. Þá mun þessi regla hafa verið látin gilda: sakir skulu falla niður um leið og við réttum hvor öðrum höndina til samkomulags. Ég held líka, að það geti ekki annað verið en að þetta vaki fyrir stjórn Eimskipafélags Íslands. að þessi regla eigi að gilda í þessari deilu, þó að hún hafi verið hörð. Það má að vísu til sanns vegar færa, að þetta þurfi ekki að taka fram. Og í þeim viðtölum, sem ég hefi átt við deiluaðiljana, hefi ég fært fram þau rök, samkvæmt þeim dæmum, sem ég tilfærði áðan, að þegar menn sættast eftir ófrið og þegar menn rétt fram höndina eftir kappleik, þá liggur í þeirri athöfn það, að deilunni er lokið, og þarf í raun og veru ekki um það nein orð. Einnig þegar menn ganga inn á að leggja mál sín í gerð, þá liggur í því samþykki nákvæmlega það sama og í handtökum eftir leikslok. En þetta hefir ekki orðið venja hér á landi, þó að ég kynni bezt við þá venju. T. d. þegar gerðardómurinn var settur hér út af togaradeilunni í vetur, þá var sú hugsun svo fjarri mér, að ekki gæti komið til mála, að sakir féllu niður, eftir úrskurð dómsins, að mér kom ekki til hugar að setja ákvæði um það í gerðardómsl. Að sakir falli niður, þegar sætt hefir verið gerð í deilu, hefir verið tekið upp í hið almenna samkomulag milli vinnuveitenda og verkamanna í Danmörku með septembersættinni, og mundi þess vegna ekki þær verða tekið upp í samninga um samkomulag í einstökum tilteknum deilum. En vegna þess að þetta hefir ekki verið tekið upp sem almennt samkomulag hér hjá okkur, þá hefir ákvæði um þetta verið tekið upp í frv., en sem ég vildi, að félli niður, ef síðar kann að þurfa að setja l. um gerðardóm hjá okkur, vegna þess, að það á að vera sjálfsagt og undirskilið, að þegar sættir eru gerðar, eiga hefndir á eftir ekki að koma til greina. Annars er í þeirri sætt enginn drengskapur, og menn trúa mönnum þá ekki til þess að gera sættir. Sá ófriður, sem rís, eftir að sættir hafa verið gerðar, er venjulega hættulegasti ófriðurinn. Þannig er a. m. k. í okkar eigin sögu. Fyrst þessi venja hefir myndazt, að setja þetta í samninga, um leið og aðiljar sættast, að sakir skuli falla niður, þá finnst mér það ekki geta komið til mála frá hálfu Eimskipafélags Íslands að neita að ganga inn á samkomulag um þetta atriði eða eitthvert orðalag, sem samsvarar því, sem stýrimennirnir fóru fram á. Mér finnst það í raun og veru jafn fráleitt að fara fram á það, að þetta sé í samningi, eins og það er fráleitt, eftir að búið er að orða það í samningi, að neita því, að það sé þar. Svo sjálfsagt finnst mér, að sakir séu upp gefnar, eftir að sætt er gerð, að það þurfi ekki að orða það. þess vegna lít ég svo á, að ágreiningurinn, sem þarna er í þessu máli milli Eimskipafélags Íslands annarsvegar og stýrimannanna hinsvegar. sé í sjálfu sér svo ákaflega smávægilegur og efnislega ekki neinn, að mér dettur ekki í hug, að það sé ásetningur Eimskipafélags Íslands að fara að hyggja á neinar hefndir viðvíkjandi þessu atriði. Ég hygg, að það sé þannig til komið í frv. þetta ákvæði, að eftir að það hafi verið sett að skilyrði, að málið væri lagt í gerðardóm, þá hafi komið upp einhver metnaður hjá stjórn Eimskipafélags Íslands, sem hún hafi átt erfitt með að losa sig við. Ég held, að það, sem hér er á ferð, sé í raun og veru ákaflega svipað eins og þegar búið var að gera hina stóru sætt á Þingvöllum forðum við Flosa, og greiða öll gjöld, hinn stóra sjóð, þá voru lagðar slæður ofan á fjársjóðinn. sem síðar ollu því, sem við allir þekkjum. Í raun og veru er þessi ágreiningur ekki annað en hliðstæður við þessar slæður, sem lagðar voru ofan á fjársjóðinn. Þetta er í raun og veru ágreiningur um ekki neitt aðeins tilfinningaatriði en ekki raunverulegur ágreiningur, vegna þess að ég trúi því ekki, að Eimskipafélag Íslands ætli að taka upp þá nýju reglu, að það eigi að fara að reku hefndir, eftir að sættir hafa verið gerðar. Ég vænti því, að allir geti orðið sammála um orðalagið á niðurlagi 1. gr. frv., þannig að hér verði með úrskurði gerðardómsins fullar sættir, en engar hefndir hugsað sér að gera á eftir, eins og ef deilan hefði aldrei átt sér stað, að svo miklu leyti sem hægt er að bæta fyrir það tjón, sem þegar er af þessari deilu orðið.

Ég sé, að hv. 1. landsk. er á ferðinni með brtt. við frv. þessi till. liggur að vísu ekki fyrir nú til umr., en úr því ég minntist á hana, verð ég að segja það, að þar er gert ráð fyrir, að frv. verði næstum allt fellt niður, en aðeins ákveðið, að hvorugur aðilja. sem standa að þessari vinnudeilu, skuli vera látinn gjalda þátttöku sinnar í þessari deilu á neinn hátt. Þessa brtt. get ég ekki fallizt á. að sé nauðsynlegt að koma fram með, vegna þess, að gerðardómur um málið er í raun og veru ákveðinn af deiluaðiljum sjálfum. Ef þetta atriði væri sett fram í frumvarpsformi og gert að l. sérstaklega, að aðiljar skuli jafnframt því sem þeir ganga inn á frjálsan gerðardóm, ganga inn á þetta atriði, sem er aðalágreiningsatriðið, þá er ekkert líklegra heldur en að Eimskipafélag Íslands og þeir aðiljar, sem með því standa, mundu segja: Við göngum ekki inn á frjálsan gerðardóm, ef tekið er fram fyrir hendurnar á honum og gerðar af löggjafanum fyrirskipanir um nokkurn hluta af því, sem undir gerðardóminn á að heyra, og það með því að setja ákvæði, sem við vildum ekki ganga inn á. Og það verður heldur ekki séð, að það verði aðiljum neitt óhagstæðara, þó að gerðardómurinn sé til fulls ákveðinn með l. En ég vil sérstaklega benda till. mönnum á, að samkv. 6. gr. þess frv., sem fyrir liggur, er svo ákveðið, að úrskurður gerðardómsins víki fyrir löglega gerðum samningi milli deiluaðilja, á hvaða tíma sem sé. M. ö. o., ef deiluaðiljar t. d. í kvöld eða á morgun koma sér saman um samninga, þá falla vitanlega niður aðgerðir samkv. frv. þessu, ef að l. verður. Það stendur því aðiljum opið, áður en l. koma til framkvæmda, að gera með samningum frjálsan gerðardóm. Ég get því ekki séð, að þess sé nein þörf vegna málsins að koma fram með þessar brtt.

Ég vil að lokum óska þess, að umr. geti orðið sem allra stytztar um þetta mál og að það taki sem minnstan tíma að koma því í gegn, vegna þess að það veltur á því, hvenær deilan leysist. Þar sem stýrimannafélagið hefir beðið um gerðardóm, geri ég ráð fyrir, að deilan leysist um leið og l. verða sett. Ég vil endurtaka þá ósk til hv. þdm., að þeir verði sem stuttorðastir.