05.05.1938
Efri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Magnús Jónsson:

Ég mun verða við tilmælum hæstv. forsrh. um að verða stuttorður, þó að hann hefði sjálfur getað fylgt þeirri reglu betur. Það stendur svo á um þessa deilu, að hún hefir verið að smáfærast saman, þannig að það hefir orðið færra og færra, sem á milli hefir borið, allt frá því að um mörg deiluatriði var að ræða, og þar til ekki ber annað á milli en að aðiljar koma sér ekki saman um orðalagið á einni till. Og þess vegna er það ekki nema formsatriði, sem Alþingi þarf að inna af hendi í þessu máli. Þessi deila kostar stórfé á hverjum degi, og Alþingi á því að hlaupa undir bagga og gera það handtak, sem þarf, til þess að gangi saman.

Ég vil aðeins segja nokkur orð út af ræðu hæstv. forsrh. Hún var óþarflega löng, eins og ég hefi bent á, og að því er mér virtist með óviðkunnanlegum blæ. Það var eins og hæstv. ráðh. væri að gefa í skyn, að Eimskipafélagið væri að hugsa um að niðast á þeim mönnum, sem hafa tekið þátt í kaupdeilunni, et ekki væri sérlega sterklega um búið. Ég vil gefa hæstv. forsrh. tækifæri til að leiðrétta þann misskilning.

Þetta sama kom einnig fram í hinni skrifl. yfirlýsingu frá Alþfl. En annað eins og þetta er mjög óheppilegt, þegar verið er að sætta aðilja. En þar sem, eins og ég gat um áðan, um svo sjálfsagt handtak er að ræða, finnst mér eðlilegt, að Alþ. greiði fyrir málinu.