02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, fjárlög 1939

*Jón Pálmason:

Háttvirtu tilheyrendur fjær og nær! Ég skal fyrst geta þess, að þegar hæstv. forsrh. var að slá um sig með spádómum um það, hvernig hér væri ástatt, ef sjálfstæðismenn hefðu ráðið, þá er það furðulega fávislegt, því að þar talar hann um það, sem hann veit ekkert um, því við höfum verið minnihlutaflokkur í bráðum 11 ár og því ekki getað ráðið í fjármálum þjóðarinnar eða á Alþ.

Á síðasta eldhúsdegi hér á Alþ. sýndi ég fram á það með glöggum dæmum, hvernig fjármálastjórnin hefir verið hér á landi að undanförnu, hvernig skuldir og rekstrarhalli framleiðslunnar hefir farið vaxandi og hvernig allur rekstrarkostnaður í ríkisstarfseminni hefir blásið út ár frá ári. Nú skal ég sýna fram á, hvaða máli síðustu þekktar staðreyndir tala um þetta efni og draga dæmin mest frá síðasta ári, 1937.

Í byrjun þessa þings, þegar hæstv. fjmrh. lagði fjárl.frv. fram, lét hann vel af afkomu síðasta árs, eins og venjulega, og gat þess m. a., að skuldir ríkisins hefðu minnkað á árinu um 1 millj. kr.

Þetta lét vel í eyrum, en það var ekki rétt nema að forminn til, því að jafnframt því, sem borgað hafði verið af föstum lánum, hafa skuldir ríkisstofnananna vaxið þeim mun meira, því að eftir því, sem næst verður komizt, voru þær skuldir ríkisstofnana, sem ekki eru taldar méð skuldum ríkisins á áramótum, 4½ millj. kr., þar af voru ósamningsbundnar vanskilaskuldir 1. febr. rúml. 1½ millj. kr., og í jan. hafði verið samið um 400 þús. kr. af skuldum tóbakseinkasölunnar. Auk þess voru vanskilaskuldir pósts og síma rúm 400 þús., en það virðist talið með ríkisskuldum. Við áramótin næstu á undan voru skuldir ríkisstofnana ekki taldar með ríkisskuldum, um 1600 þús. kr., svo að þessar skuldir virðast hafa aukizt á árinn um 2,9 millj. kr., en þar í er eitt fast lán, til stækkunar á útvarpsstöðinni, 747 þús. kr. Að öðru leyti er þessi skuldaaukning þannig til komin, að mikið af þeim vörum, sem ríkisstofnanirnar hafa flutt inn, hafa þær ekki getað greitt vegna gjaldeyrisskorts. Svo langt er komið t. d. með tóbakseinkasöluna, að hún skuldar meira erlendis en nemur öllum ársinnflutningnum. Það er nú náttúrlega ekki gott, að samningsbundnar skuldir ríkisins séu miklar og vaxi, en hitt er þó hálfu verra, að hinar og þessar stofnanir, sem ríkið á og rekur, skuldi hingað og þangað úti um öll lönd háar upphæðir fyrir raftæki, bíla, tóbak, brennivín, útvarpstæki o. fl. En skuldaaukningin erlendis frá viðskiptum síðastl. árs er meiri en þær 2,9 millj., sem ég hefi nú nefnt, því að nýlega upplýsti hv. þm. Vestm. hér á Alþ., að skuldir 60 innflytjenda, sem gefið höfðu skýrslu, hefðu á árinu vaxið um 2,3 millj. kr., og auk þess eru háar upphæðir þar fyrir utan, sem aðrir skulda, svo skuldaaukningin frá viðskiptum síðasta árs er ekki undir 6 millj. kr., þrátt fyrir allt gumið um góðan verzlunarjöfnuð.

Eins og hv. þm. Snæf. gat um hér í kvöld, er ástandið með erlend viðskipti nú verra en nokkru sinni fyrr, enda engin furða, þegar svo er ástatt, sem ég hefi nú lýst. Þetta sannar það, sem vænta mátti, að innflutningshöft koma ekki að því haldi, sem til hefir verið ætlazt, þegar ár eftir ár er með erlendu lánsfé haldið uppi falskri kaupgetu hjá nokkrum hluta þjóðarinnar, en það kalla ég falska kaupgetu, sem er í fullu ósamræmi við kaupgetu þjóðarheildarinnar út á við og í fullu ósamræmi við fjárhagsmátt framleiðslunnar og alls almennings í landinu.

Á þessu þingi, eins og undanfarið, hefir fjvn. lagt í það mikla vinnu að kynna sér ríkisreksturinn og allar þær kröfur, sem til þingsins berast. Menn undrast að vonum, að af þessu skuli ekki leiða víðtækar till. um niðurskurð á fjárl., en til þess liggja tvær aðalástæður. Sú fyrst, að allar ónauðsynlegustu greiðslur ríkisins eru föstum samningum bundnar milli stjórnarflokkanna, og till. og frv. frá sjálfstæðismönnum um niðurfellingu þeirra myndu aðeins leiða af sér rifrildi, meiri tímaeyðslu og lengra þing ár eftir ár. — Hin ástæðan er sú, að þm. horfast ár eftir ár í augu við þá aðferð ríkisstj., að taka fjárl. alls ekki til greina í framkvæmdinni nema á vissum sviðum. Verður slíkt eðlilega til að lama viðleitni þm. af öllum flokkum í því að leggja sig fram um nauðsynlegar endurbætur. Fjárl. eru árlega ljót og ákveða miklu hærri fjárframlög en þjóðin er fær um, en reynslan hjá hæstv. stj. er þó fjárl. miklu verri. Hæstv. fjmrh. hefir ár eftir ár þverbrotið það loforð, sem hann alloft hefir hrópað út til þjóðarinnar, að fylgja fjárl., og skal ég færa að því nokkru frekari rök en hv. þm. Snæf. gerði áðan. Árið 1937 segir hæstv. fjmrh., að ríkisgjöldin hafi farið 2,3 millj. fram úr áætlun fjárl., og er það allrífleg upphæð. En það er meira blóð í kúnni, því að þar til viðbótar hafa gjöld ríkisstofnananna orðið miklu hærri en fjárl. ákveða. Þannig hafa gjöldin hjá pósti og síma farið fram úr áætlun um 383 þús. kr., hjá útvarpi, tóbakseinkasölu og Áfengisverzlun 65 þús. kr., eða samtals 448 þús. kr. Hvað gjöldin hjá öðrum stofnunum hafa orðið hærri en heimildir, er ekki unnt að sjá til hlítar, af því að þær eru ekki færðar upp í fjárl. Þó er ljóst, að hjá viðtækjaverzluninni, landssmiðjunni, bifreiðaeinkasölunni og raftækjaeinkasölunni hefir verið greitt samtals rúml. 48 þús. kr. í laun um fram það, sem ákveðið er í starfsmannaskrá ríkisins. Það liggur því fyrir, að hjá stofnunum ríkisins hefir verið eytt til gjalda nærri ½ millj. kr. umfram það, sem fjárl. ársins 1937 heimila. En þetta kemur ekki fram í skýrslu hæstv. fjmrh. og er hulið almenningi, því að reikningsfyrirkomulagið er þannig, að tekjurnar samkv. 3. gr. fjárl. eru 500 þús. kr. minni en ella mundi. Umframgreiðslurnar 1397 eru því ½ millj. kr. hærri a. m. k. en hæstv. fjmrh. gaf upp. Í allri upphæðinni, 2,8 millj., eru að vísu allstórir póstar, sem greiddir eru eftir öðrum l. en fjárl., svo sem til pestarinnar o. fl., og auk þess er alltaf eitthvað, sem fer fram úr áætlun og er óviðráðanlegt, en þrátt fyrir það er eyðslan hóflaus, sem þarna kemur í ljós.

Eins og kunnugt er, fer hæst upphæð af gjöldum ríkisins og stofnana þess í laun allskonar, og þær fjárhæðir fara ört vaxandi ár frá ári. Síðan byrjað var að setja af fjvn. starfsmannaskrá ríkisins, hefir ætlunin verið sú, að ríkisstj. fylgdi skránni, a. m. k. þannig að greiða ekki hærra. Þetta hefir þó alltaf verið þverbrotið af hæstv. stj., og skal ég því til sönnunar sýna fram á, hvernig þetta hefir verið síðastl. ár. Ég hefi sem sé reynt að gera upp, hve miklu munar á starfsmannaskrá og raunverulegri eyðslu í laun allskonar í allri ríkisstarfrækslunni. Alveg nákvæmt er þetta ekki, því að öll kurl koma þar ekki til grafar. Þar sem starfsmannaskrá og fjárl. ber ekki saman, hefi ég farið eftir fjárl. Niðurstaða þessarar rannsóknar er sú, að í laun hefir tekizt að eyða árið 1937 722680 kr. samtals umfram það, sem heimilað er í fjárl. Svo einstök hefir eyðslan verið á árinn 1937, jafnhliða því, sem framleiðsla landsmanna til sjávar og sveita er rekin með stórum halla.

Ég gat þess í vetur, þegar ég gerði grein fyrir fjármálastjórninni í útvarpinu, að ég tæki þá stofnun sem sýnishorn, enda kvartaði Jónas útvarpsstjóri undan því, að ég skyldi vera að finna að hjá honum einum. Ég ætla ekki að tala um útvarpið sérstaklega nú, en staðfesta þau ummæli útvarpsstjórans, að það er víðar ófagurt um að litast. Það getið þið öll líka gert ykkur hugmynd um af því, að slík undur hafa skeð, að á einn ári er eytt í laun 722 þús. kr. umfram fjárl.

Ég skal þá fyrst minnast á þá stofnun, sem stendur hæstv. ráðh. næst, stjórnarráðið. Þar hefir verið greitt í starfslaun árið 1937 45439 kr. umfram fjárlagaáætlun. Það er vel að verið, enda koma þar fram ýmsir furðulegir póstar. Í þessu er t. d. upphæð, sem heitir launabót, samtals 24233 kr., og fyrir aukavinnu 5415 kr. Undir annan kostnað er fært kr. 11129, sem eru laun til ýmsra manna. T. d. eru 2500 kr. til Ólafs Friðrikssonar, þótt ekki sé vitað, að hann hafi starfað neitt í stjórnarráðinu. 2750 kr. til Guðmundar Péturssonar símritara. 970 kr. til Einars Magnússonar fyrir að þýða dósentsritgerðirnar frægu. Og margt fleira. Bóndi norðan úr Skagafirði, Gísli í Eyhildarholti, fær þar 300 kr. o. s. frv. Þegar það er borið saman við fyrri ár, hvað fer í laun og annan kostnað í stjórnarráðinu auk ráðherralaunanna, má geta t. d. þess, að árið 1928 var allur kostnaður við stjórnarráðið, auk ráðherralauna, tæp 127 þús. kr., en 1937 er þessi kostnaður fullar 200 þús. Um 73 þús. kr. hefir þessi liður hækkað síðan 1928.

Hjá póststjórninni hér í Reykjavík hefir kostnaðurinn aukizt allríflega síðustu árin, og þykir mér rétt að geta um það. Árið 1937 fóru launagreiðslur aðeins í pósthúsinu í Reykjavík og póststjórnarskrifstofunni um 52905 kr. fram úr heimild fjárl. Síðan 1930 hafa launin í pósthúsinu í Reykjavík hækkað um 65 þús. kr., en á sama tíma hafa launin á öllum öðrum póstafgreiðslum og bréfhirðingum í landinu hækkað um ein 4 þús. Að hækka laun á einu ári án fjárlagaheimildar í ekki stærri stofnun en pósthúsinu og póstmálaskrifstofunni hér í Reykjavík um nærri 53 þús. kr., hygg ég, að sé nokkuð einstakt stjórnarfar; og þetta er því ljótara, sem lengra er skyggnzt undir yfirborðið, því að á sama tíma sem mest hækkun hefir orðið á launum hjá póststjórninni, hafa tekjurnar minnkað og einn fyrirhafnarmesti þáttur starfseminnar næstum horfið út úr vegna haftanna, en það er erlendur bögglapóstur. Nettohagur ríkisins af póstmálastarfseminni hefir líka minnkað úr 182 þús. kr. 1933 í 24 þús. kr. 1937. En 1937 er greitt í eftirvinnu, aukalaun og frímerkjauppbót hjá póststjórninni hér hvorki meira né minna en 66800 kr., þar af fyrir eftirvinnu og aukavinnu 40 þús. kr. Eitt dæmi um stjórnina að öðru leyti á þessum stað er, að póstmeistari hefir að undanförnu haft á kostnað póstmálanna dýran lúxusbíl, einn þann fínasta í bænum, og að mestu til eigin þarfa. 1936 var kostnaðurinn við hann 3215 kr., en 1937 3364, og þá voru höfð bílakaup og gefið í milli 1800 kr., svo að kostnaðurinn 1937 varð um 5164 kr.

Það hefir á þessu sviði, sem mörgum öðrum, komið í ljós, hver áhrif það hefir að skipta um menn, og margt leyfir hæstv. stj. góðum flokksmönnum. Hjá landssímanum hafa launin farið fram úr ákvörðun Alþ. á árinu 1937 um 92800 kr., en þar með eru allar I. flokksstöðvar í landinn. Þetta er nú óneitanlega allríflegt, þó að það komist ekki neitt í námunda við póstinn.

En svona gæti ég haldið áfram að telja upp stofnun eftir stofnun, því að þær eru tiltölulega fáar hjá hæstv. stj., sem í launagreiðslum hafa haldið sig við starfsmannaskrá og fjárl. ríkisins. Þrátt fyrir allt þetta fer það ekki dult, að ýmsir stjórnarliðarnir hér á þingi telja á því mikla nauðsyn að hækka launin hjá starfsmönnum ríkisins. T. d. hélt hv. 1. þm. Skagf. mikla ræðu hér við 2. umr. fjárl. um það, hvílík ósvífni og lýðskrum það væri af mér, sem er bara fátækur bóndi, að heimta lækkun á launagreiðslum ríkisins. Það hefir líka tekizt að fá hæstv. fjmrh. til að hækka laun menntaskólakennara um 15 þús. kr. aðeins með fjárlagaákvæði, og þannig eru góðar líkur til, að áfram haldi. — Hvernig háttað er launagreiðslum og aukagreiðslum hjá ýmsum gæðingum stj., er mál, sem er næstum ótæmandi, og sleppi ég því að sinni. Ef til vill gefst færi á að drepa á fáein atriði, áður en þessum umr. lýkur, ef tilefni gefst til.

En það er fleira en laun, sem stofnanir ríkisins eyða að óþörfu i, og mætti margt til tina. Það má t. d. nefna það, að 5 stofnanir hafa 1937 borgað til tækifærisgjafa 5694 kr. Þá hafa 5 stofnanir, raftækjasalan, landssmiðjan, útvarpið, ríkisprentsmiðjan og tóbakseinkasalan greitt fyrir skemmtiferðir starfsmanna 4060 kr., og til risnu hafa 6 stofnanir greitt 5429 kr. Mætti þar og víðar nefna ýmsa furðulega liði. Þetta eru þó smámunir einir hjá öllu því óhemjufé, sem borgað hefir verið í aukalaun allskonar og ég hefi drepið nokkuð á.

Þá skal ég fara fáeinum orðum um annan þátt svipaðrar tegundar í óstjórn landsins, en það er öll kaupskrúfupólitíkin og öfgarnar á því sviði, sem þróazt hafa undir handarjaðri stj. og náð heltaki á öllum atvinnurekstri landsmanna, beinlínis fyrir það, að ríkisstj. hefir átt líf sitt undir því, að vera nægilega taumlipur við Alþýðusamband Íslands. Það er kunnugt mál, að síðastl. 10 ár hefir aldrei verið gerður svo samningur um kaup og kjör, að ekki hafi verið aukin fríðindi og hækkað kaupgjald, hvernig sem á stendur, og vitanlega af áðurnefndum ástæðum. Hagur framleiðslunnar og fjárhagsgeta landsins hefir á þessu sviði jafnt sem í launamálum alveg verið lagt til hliðar. Enn er þessi stefna í fullum gangi og verður áreiðanlega áfram, meðan sú stjórn situr, sem á lif sitt undir hinum svonefnda Alþfl. Afleiðingarnar eru nokkuð kunnar, en verða aldrei skerðar til fulls. Ég skal nú taka tvö dæmi þessu til sönnunar, sitt úr hvorum aðalatvinnuvegi. Ég ætla ekki að draga fram myndirnar úr lífi okkar skuldugu og aðþrengdu bænda í dreifbýlinu, sem flesta er búið að dæma til einyrkjahokurs og fjárhagslegrar eymdar. Ekki heldur frá útgerðarmönnum, sem undantekningarlítið eru orðnir eignalausir og vonsviknir. Nei, ég skal taka dæmin þar, sem aðstaðan er bezt, úr rekstri sjálfrar hæstv. stj. Að gefnu tilefni skal ég fyrst víkja nokkru nánar að því, sem fulltrúi Bændafl. drap, á, sem sé rekstur ríkisbúanna á Vífilsstöðum og Kleppi. Því fremur hefi ég ástæðu til að víkja að þessu, af því sá ræðumaður þekkti sýnilega ekki orsakir þeirrar útkomu, sem hann drap á og var sameiginlega sú árið 1937, að þótt engin leiga væri reiknuð eftir höfuðstólinn, lönd, hús, bústofn og áhöld, sem er að matsverði um 300 þús. kr. virði, þá er samt 6 þús. kr. halli á búrekstrinum. Þessi búskapur hefir lengst af gengið prýðilega, enda hafa búin verið heppin með bústjóra. Þó hefir gengið stórum betur á Vífilsstöðum, því að ríkið hefir lagt í það bú aðeins 26 þús. kr., en þar er nú höfuðstóll upp á 160 þús. kr. Hvernig stendur þá á þessari eindæma útkomu 1937 þarna, þar sem aðstaðan er bezt á landinu? Allur heyskapur tekinn á vélfæru túni og mjólkin keypt á 28 aura á staðnum. Þegar ég fór að athuga, hverju þetta gegndi, sá ég, að orsökin er ein, og hún er ekki of litið mjólkurverð, heldur hin, að vorið 1936 var gerður vinnusamningur við verklýðsfélag hér í Reykjavík, sem raskaði öllum fyrri reglum. Þessum samningi var kúgað inn á ráðsmenn búanna, auðvitað að þeim nauðugum, af stjórnarnefnd ríkisspítalanna, undir forustu helzta launaráðunauts stj., hv. þm. N.-Ísf. Aðalatriðin eru svona: Karlmenn hafa 110 kr. á mánuði hálft árið og 100 kr. hálft árið; kvenmenn 75 kr. á mánuði hálft árið og 55 kr. hálft árið. Allt verkafólk hefir fritt fæði, húsnæði og öll vinnuföt. Vinnutími er 9½ tími á dag. Ef lengur er unnið, t. d. við heyþurrk, þá er yfirvinnukaup eða frí í vinnutíma næstu daga. Ef giftir menn búa utan heimilis, ber búunum að greiða þeim 100 kr. á mánuði fyrir fæði og húsnæði. Allt verkafólk fær hálfsmánaðar frí um hásláttinn með fullu kaupi og allt árið frí einn dag í viku, hvernig sem á stendur. T. d. verða bústjórarnir að kaupa annað fólk einn dag í viku allan veturinn til að annast búpeningshirðingu, og raskar það vitanlega öllum reglum um hirðingu, eins og gefur að skilja. Þessi samningur mun nú vera eins dæmi á landbúnaði a. m. k. á Norðurlöndum. Áður en hann var gerður, þurftu bústjórarnir árlega að neita fleiri tugum af fólki um vinnu, svo að þörf búanna var ekki til að dreifa. Eftir nánustu upplýsingum kostar samningur þessi t. d. Vífilsstaðabúið 5–6 þús. kr. á ári í beinum framlögum, en óbeina tjónið er miklu meira, eins og útkoman ber vott um. Þið skuluð nú, bændur góðir og aðrir landsmenn, sem fylgið stjórnarflokkunum við hverjar kosningar, hugleiða það, hvernig þetta dæmi gefur myndina af manndómi ykkar ríkisstj.

Hitt dæmið ætla ég að taka frá síldarverksmiðjum ríkisins, þeim fyrirtækjum, sem talin eru arðsamasti atvinnuvegur landsins eins og stóð síðastl. ár. Veiðin var fágætlega góð og verð á afurðum í bezta lagi. Um útkomuna höfum við glögga skýrslu frá öruggum liðsmanni Framsfl., Jóni Gunnarssyni framkvæmdarstjóra. Og hvernig varð svo niðurstaðan af rekstri þessara arðsömu fyrirtækja í bezta veiðiári, sem komið hefir? Þannig að rekstrarhallinn á öllum verksmiðjunum á árinu er að áliti framkvæmdarstjórans og meiri hl. verksmiðjustjórnarinnar 435 þús. kr. Þetta ódæma ástand er auðvitað að kenna óstjórn, sem eðlilega hlýtur að skrifast fyrst og fremst á reikning ríkisstj., sem setti óhæfa menn til stjórnar á þessum þýðingarmiklu fyrirtækjum. Annarsvegar hefir óstjórnin komið fram í misheppnuðum og rándýrum framkvæmdum, eins og stóru þrónni, og á þann hátt hefir óhemjufé verið á glæ kastað. Hinsvegar hafa launagreiðslur verið hóflausar. Framkvæmdarstjórinn fékk, eins og kunnugt er orðið, 12 þús. kr. árslaun, 4 þús. kr. launauppbót og 110 kr. á dag í ferðakostnað erlendis. Allir starfsmenn aðrir hafa verið launaðir á sosialistískan mælikvarða, eins og við mátti búast, og til sönnunar því, að launin hafi ekki verið mjög skorin við neglur skal ég geta þess, að ég hefi hér í höndum skýrslu um launagreiðslur til allra fastráðinna starfsmanna verksmiðjanna á Siglufirði, að ársmönnum undanskildum. Þessir menn eru 165 að tölu og hafa fengið 22 kr. á dag að meðaltali allt vinnslutímabilið, 71 dag. Nú hafa stjórnarliðarnir í verksmiðjustjórninni samið um allverulega kauphækkun til þessara manna. Þó eru síldarafurðir nú fallnar í verði um nærri helming, og síðastl. ár vantaði 300 þús. kr. til, að verksmiðjurnar gætu greitt upp rekstrarlán sitt í Landsbankanum. Á síðasta þingi hjálpuðum við sjálfstæðismenn Framsfl. til að bjarga verksmiðjunum undan þeirri óstjórn, sem yfir þeim var, og flestir okkar munu hafa gert ráð fyrir, að ráðh. flokksins, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., myndu ekki óðfúsir óska eftir að semja á ný við sósialista um þetta eða annað, sem hangir saman eins og keðja, fyrst stjórnarsamvinnan rofnaði á annað borð. En sjón er sögu ríkari um það efni, og þegar hæstv. forsrh. er að tala um þetta ástand, þá slær hann mest sjálfan sig, því að undir hans stjórn, hefir þetta þróazt bezt.

Annars ætti það nú að vera ljóst öllum landslýð, að þessi tvö dæmi, sem ég hefi hér dregið fram frá landbúnaði og sjávarútvegi, þau sanna það betur en nokkuð annað, að ekkert land, engin aðstaða, engin góðæri, dugir til að þola slíka endemisóstjórn, sem lýsir sér í þessu og fleira. Ágætustu aðstöðu og eindæma góðæri er á arðsamasta sviði okkar framleiðslu snúið upp í ægilegan rekstrarhalla og tjón. Þrátt fyrir það er haldið áfram samvinnunni.

Sama stefna er boðuð áfram, enda vitað, að ekki er á miklu betra von. Það er nú ekki furða, þótt hinn smærri og arðminni atvinnurekstur á sviði landbúnaðar og útgerðar eigi örðugt uppdráttar, þegar svona gengur þar, sem aðstaðan er bezt, enda hafa öfgarnar alstaðar læst klónum í allan frjálsan atvinnurekstur og stefnt til eyðileggingar.

Nú er nýbúið að hækka kaup og auka fríðindi á siglingaflotanum hjá hásetum og vélstjórum. Kröfur liggja fyrir um hækkað kaup í vegavinnu og daglaunavinnu allskonar, og svo stöðva stýrimennirnir siglingaflotann út af kauphækkunarkröfum. Má búast við, eftir fenginni reynslu, að á öllum sviðum verði hækkað kaup, ella dregur Alþfl. hungurólina að hálsi ríkisstj. Stýrimannaverkfallið er sérstaklega ljóst dæmi um sanngirnina á þessu svíði og hvernig sú stefna og sá hugsunarháttur er, sem stjórnarflokkarnir hafa alið upp í landinu. Stýrimennirnir eru meðal bezt launuðu manna þjóðarinnar, með 5–10 þús. kr. launum auk ýmsra fríðinda. Þessir menn, sem hafa mun betri kjör en ríkar þjóðir í nágrannalöndunum veita samskonar stétt, láta spana sig til að heimta meira og hlaupa svo í land og stöðva allan flotann, þegar ekki er gengið strax að, og það einmitt þegar tæpast stendur hagur þjóðarinnar og alls almennings í landinu. Þarna er myndin af áhrifum þeirra pólitísku og félagslegu kenninga, sem stjórnarflokkarnir hafa á undanförnum árum dreift yfir landið.

Ég skal taka það fram, að það hefir komið glöggt í ljós að undanförnu, að nokkrir menn í þingliði Framsfl. eru algerlega andvígir ýmsu því, sem er og hefir verið að gerast. Þeim er farið að blöskra og taka fullkomlega undir það höfuðboðorð, sem stefna Sjálfstfl. grundvallast á, að allur atvinnurekstur verði að bera sig og svara vöxtum af þeim höfuðstóli. sem í honum stendur. En þessir menn og þessar skoðanir hafa reynzt vera í minni hluta meðal hv. framsóknarmanna, og þess vegna er samið við verkfallapostulana enn á ný og sama stefna í fjármálum og atvinnulífi þjóðarinnar boðuð áfram, hve lengi sem minni hl. þingflokksins og meiri hl. kjósendanna lætur það við gangast.

Ég get nú búizt við, að ýmsir, sem lítið fylgjast með alþjóðarmálum, undrist að mér skuli ofbjóða launagreiðslur og kaupgjald í landinu. Þessu er þannig varið, að það er svo tiltölulega fátt af öllu landsfólkinu, sem er á föstum launum eða í stöðugri atvinnu, að eftir því sem launin eru hærri og kaupið hærra, eftir því er ranglætið meira gagnvart öllum öðrum, sem hafa miklu verri aðstöðu og verri kjör.

Í launa- og kaupgjaldsmálum á að ráða tvennt: Hvað er ríkið og atvinnuvegirnir fært um að greiða og fyrir hvað er hægt að fá fólk til þeirra starfa, sem vinna þarf. Þetta hefir verið og er að engu haft, en haldið uppi launum og kaupgjaldi á kostnað framtíðarinnar með erlendu lánsfé. Nú sækja tugir og jafnvel hundruð manna um hverja launastöðu, sem vitað er um og auglýst er, og það er margvíslegum örðugleikum og oft pólitískum kröfum háð, að koma fólki í vegavinnu og aðra þá vinnu, sem hið opinbera lætur framkvæma. því betri sem kjörin eru, því fleiri reyna að keppa um hnossið, því fleiri hverfa frá framleiðslunni, því meira verður afvinnuleysið og því breiðara djúpið milli lífskjara þeirra, sem út undan verða, þ. e. meiri hlutans, og hinna, sem hið opinbera veitir fríðindin. Þetta er óþolandi ástand, og þetta er að drepa allan sjálfstæðan atvinnurekstur í landinu og allar framtíðarvonir á því sviði.

Ef einhverjir undrast mína afstöðu til þessara mála, þá vil ég minna á, að ég er hér á Alþ. fulltrúi fátækra sveitamanna og atvinnulítilla og eignalausra verkamanna. Og ég verð að segja það, að því betur sem ég kynnist ástandinu, því meira rennur mér til rifja sá mismunur, sem hið opinbera vald skapar á lífskjörum fólksins í landinn, og ekkert meira öfugmæli er til í okkar máli en jafnaðarmannaheiti þeirra manna, sem mesta eiga sökina.

Nú mundu náttúrlega allir óska, og ég manna frekast, að allt fólk ætti þeim kjörum að sæta, sem bezt eru, en fátækt og framleiðsluhættir okkar lands útiloka það. Þess vegna verður að krefjast einfaldari og jafnari lífskjara, og þess vegna verður að krefjast annarar stjórnarstefnu. Þessi þjóð hefir lengst lifað á því að notast sem mest við eigin framleiðslu. Því lengra sem frá því er horfið, því meira hallar undan fæti í menningu og sjálfstæði þjóðarinnar. Þá siglir skútan alltaf undan ólgandi straumi nautnagirni, kröfufrekju og ábyrgðarleysis.