02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

1. mál, fjárlög 1939

*Ísleifur Högnason:

Herra forseti, góðir hlustendur!

Ríkisstjórnin, sem fyrir 4 árum kallaði sig „stjórn hinna vinnandi stétta“, hefir nú í seinni tíð hætt að nefna sig því fallega nafni. Þó að það megi kallast virðingarvert, að ríkisstjórnin hefir látið af þeim ósið að skreyta sig með nafni, sem hún ekki getur borið með réttu, er það hryggilegt, að hún skuli á þann hátt hafa brugðizt óskum og vonum hins vinnandi fólks í bæ og byggð, að nú sæmdi henni betur nafnið „stjórn hinnar iðjulitlu yfirstéttar.“ Svo skýr og afdráttarlaus eru lagafrv. þau, sem Framsfl. flytur nú hér í þinginu og öll miða að því að þrengja að rétti og lífsskilyrðum hinna vinnandi stétta, að jafnvel hinar litskrúðugustu auglýsingar, sem fylgja þeim í grg. og meðmælum flm., fá ekki dulið innihald þeirra fyrir hverjum skynbærum manni. Svo langt ganga þau til móts við óskir hinna gömlu opinberu málflytjenda afturhaldsins, að þeir geta ekki dulið fögnuð sinn yfir flutningi þeirra, og yfirborðságreiningurinn, sem hinir svonefndu sjálfstæðismenn hafa belgt sig upp með í hverju máli, til þess að ósóminn af frv. lenti ekki á þeim, verður að gjalli og ösku, þegar til atkvgr. kemur, því að ef hægri foringjar Alþfl. ganga ekki með Framsókn í málum, tryggir íhaldið Framsókn það mikið fylgi við frv., að þau nái samþykki. Sem dæmi þessarar verkaskiptingar þingflokka borgaranna ætla ég að tilfæra lagafrv. það, sem nýbúið er að afgreiða frá hv. Nd. um fækkun siglingafróðra manna og vélgæzlumanna á íslenzkum skipum. Lögin um atvinnu við siglingar eru frá árinu 1936. Þá var álitið, að nauðsyn bæri til þess að fjölga stýrimönnum og vélgæzlumönnum á skipunum. Var tilgangurinn fyrst og fremst sá, að auka öryggi skipa og áhafna að öðrum þræði, og einnig til þess að veita sjómönnum í þessum starfsgreinum betri praktíska uppfræðslu og gera þá hæfari til þess að taka við ábyrgðarmeiri stöðum í skipstjórn og vélgæzlu. Gegn þessu frv. hafa komið fram hin kröftugustu mótmæli frá sjómönnum og farmönnum. Er það einróma álit þessara manna, að öryggi skipa sé aftur stefnt í voða, og sparnaðurinn við fækkun á þessu sviði sé lítill eða enginn. Skipstjóra og stýrimannafélag Reykjavíkur hefir skipað nefnd til að athuga frv., og er í nál. þeirrar nefndar færð fram mörg og ýtarleg rök fyrir skaðsemi frv. Og á hinn bóginn sýna nm. fram á, að sparnaðurinn er sama sem enginn fyrir útgerðarmenn. Telja þeir, að einmitt fyrir vöntun siglingafróðra manna hafi nokkur stórslys hér við land að öllum líkindum orsakazt, þar á meðal strand togarans Jóns forseta, sem er eitt hið hörmulegasta slys, sem hér hefir orðið. Það er blátt áfram hryllilegt ábyrgðarleysi, sem lýsir sér í því, að menn, sem þessum málum eru með öllu ókunnugir, skuli láta smámunalegan nirfilshátt nokkurra stórútgerðarmanna hafa áhrif á sig til þess að berja þessi „manndrápslög“ í gegn. Flm. frv., sem allt eru framsóknarmenn, höfðu mjög litlar málsbætur eða engar, aðrar en sparnaðarhliðina, þegar um málið var rætt. Og að lokum tók einn flm., hv. þm. Barð., þá virðingarverðu afstöðu til frv., að greiða atkv. gegn því. Það var aftur á móti hv. þm. Borgf. sem sjálfstæðismaður, sem heimtaði framgang frv., og það með þeim krafti og frekju, að hann ögraði beinlínis einum flm. þess, hv. atvmrh., með því, hvort hann ætlaði nú virkilega að bregðast „þessu fóstri sínu“, en svo kallaði hann frv. Það kom þá greinilega í ljós, að Framsókn var þarna að efna einhver gömul loforð við íhaldið. Sjálfstfl. mun hafa þótt öruggara að hafa „hreinan skjöld“ í þessu máli. Annars þykjast þeir herrar einir hafa einkarétt á því, að berjast fyrir kröfum útvegsmanna. En hér skiptir auðvitað engu máli um afkomu útvegsins, nema ef vera kynni, að þeir, sem eiga ryðkláfa og fúaduggur, haldi ekki neitt sérstaklega upp á þessa gripi og kysu heldur að hafa vátryggingarféð milli handa.

Það verður mjög að harma það, að þm. Framsfl. skuli láta ginna sig til að ganga þannig erinda Íhaldsins, eins og hér hefir raunin á orðið. Og þessi afstaða öll verður beinlínis viðurstyggileg, þegar formaður Framsfl. ritar hverja greinina á fætur annari í Nýja dagblaðið, þar sem hann fellir höfug krókódilatár yfir hinum bágu kjörum sjómanna, mönnunum, sem hann vorkennir einhver ósköp að vera langdvölum frá heimilum sínum og búa við mjög slæm kjör. Hann spyr í feitum fyrirsögnum að því, hvers vegna endilega þurfi að ofsækja sjómennina. á þeim sama tíma sem hann lætur flokksmenn sína flytja lagafrv. þess efnis, að auðveldlega getur leitt til þess, að heimilin heimti þá aldrei framar. Ég hefi sérstaklega tekið þetta mál til meðferðar vegna þess, að enn á frv. eftir að ganga í gegnum Ed., og vænti ég þess fastlega, að hinir hugsandi og betri menn Framsfl. hefti framgang þess þar. Þetta frv., sem ég hefi gert að umtalsefni, er auk þess, sem það er skaðlegt, mjög hættulegur leikur í stjórnmálataflinu. Eftir að afturhaldsöflin í Framsfl. urðu úrkula vonar um það, að fá meiri hl. þingliðs flokksins til þess að ganga inn á stjórnarsamvinnu við íhaldið, hafa þessi afturhaldsöfl unnið markvisst að því, að eyðileggja samstarf Alþfl. og Framsfl. Þetta er á góðum vegi með að takast. Í taflinn hafa hægri foringjar Alþfl. beðið þann eftirminnilega álitshnekki, að þeim er sýnilega ekki viðreisnarvon. Nú sýnist röðin vera komin að þeim þm. í Framsfl., sem ekki hafa viljað láta undan form. flokksins, og á meðan hann sjálfur þvær hendur sínar í Nýja dagblaðinu og flaðrar upp um sjómennina, lætur hann flokksmenn sína flytja hvert frv. öðru óvinsælla, með skírskotun til undangenginna flokkssamþykkta, í þeim tilgangi jafnframt að rýja af þeim fylgið eins og hægri foringjum Alþfl.

Vinnulöggjafarfrv., frv. það, sem ráðgerir að svipta sveinafélögin rétti til þess að takmarka tölu iðnnema, og frv. það, sem ég hefi verið að lýsa, eru öll þess eðlis, að þau hljóta að verða illa þokkuð og hötuð af þeim, sem þau snerta mest. Og hver sá þm., sem sekur gerist í því að ljá þeim fylgi sitt, opinberar fjandskap sinn við alþýðu landsins. Stjórnin hefir sýnt mjög vítaverða vanrækslu í því að búa þjóðina undir að taka afleiðingum komandi kreppu og yfirvofandi heimsstyrjaldar. Þegar í fyrrahaust lá hér frammi í lestrarsalnum fundarályktun frá Vestmannaeyjum, sem krafðist aðgerða þingsins í þessum efnum. Og ekki þarf því um að kenna, að okkur hafi ekki borizt mjög ótvíræðar aðvaranir um þessi mál frá aðiljum, sem óhætt er að telja, að ríkisstj. og þingið taki meira mark á en kjósendum sínum. En það eru fréttir, sem daglega berast um varúðarráðstafanir ríkisstjórna og þinga á Norðurlöndum, gerðar í því skyni að mæta afleiðingum stríðs og kreppu. Það er ekki nóg með, að ríkisstj. vanræki gersamlega að sameina fólkið til átaka í þessum efnum, eins og við kommúnistar höfum krafizt, heldur er beinlínis svo sumt af ráðstöfunum hennar, að þær ganga í þveröfuga átt eða gera oss enn erfiðara fyrir um að mæta þessum vágestum, þegar þá ber að garði. Það er ekki nóg með það, að útsæðiskartöflurnar séu af skornum skammti, og má um það eflaust kenna verzlunarstéttinni eins og grænmetiseinkasölunni, að hafa ekki pantað nóg af útsæðiskartöflum, heldur er hitt alvarlegra, að kartöflurnar eru svo uppskrúfaðar í verði af grænmetiseinkasölunni, með háu verzlunarálagi, og ríkinu, með aðflutningsgjaldi, að það stappar nærri okri. Mér hefir verið skýrt frá því af innflytjenda útsæðiskartaflna, að kartöflur hafi kostað 8,78 sekkurinn við skipshlið. Tollar, aðflutningsgjald og álagning grænmetisverzlunarinnar námu 5,03 kr. á hvern poka. Smásölunum er heimilt að leggja 40% á kartöflur í útsölu, þótt bót sé í máli, að fæstir eða engir hafi notað sér það. Samt sem áður verða kartöflurnar óhæfilega dýrar. Og veldur þar um mestu álag ríkisins, að fjöldi garðeigenda hefir engin ráð til að kaupa útsæði í þá garða, sem hann hefir, hvað þá að fátækir verkamenn og bændur geti látið sig dreyma um að auka kartöfluræktina. Það er hálfur mánuður síðan ég vítti þetta hér á þingi, að einum ráðh. viðstöddum a. m. k. En að þetta hafi verið leiðrétt, er mér ekki kunnugt. Þess er hér með krafizt af ríkisstj. fyrir hönd þeirra mörgu, sem við kartöflurækt fást, og jafnframt í nafni alþjóðar, sem á svo mjög undir því, að nóg sé til af þessari nauðsynjavöru, að hún tafarlaust afnemi allan toll og allt álag á útsæðiskartöflur og sjái um, að nóg verði til útsæðis, þegar verður farið að sá.

Enginn ágreiningur virðist um það vera, að nauðsyn beri til þess að hagnýta bæði hveraorku og fallvötn, svo sem frekast er unnt, til þess að spara þjóðinni erlent eldsneyti og orkugjafa. Eitt stærsta málið, sem að þessu lýtur, er hitaveita Reykjavíkur. Nú hefir tekizt svo illa til við undirbúninginn á þessu máli, að ekki hefir tekizt að fá erlendis fé til þess að framkvæma hitaveituna fyrir Reykjavikurbæ. Með tilliti til ófriðarhættu er þetta ekki lengur einkamál Reykjavíkur, heldur mál, sem alla þjóðina varðar. Tugum þúsunda tonna af kolum er eytt til hitunar og suðu hér í Reykjavík. Gera má ráð fyrir, að mjög erfitt verði um aðdrætti á kolum til landsins, ef til styrjaldar kæmi, vegna sjóhernaðar, og verður þá augljóst mál, hve mikill ávinningur það væri fyrir aðra landshluta, ef ekki þyrfti að sjá Reykjavík fyrir kolum. Sama máli gegnir vitanlega um þá aðra staði í landinu, sem tök eru á að nota jarðhitann. Þess ber einnig að gæta, að ef hægt yrði að hrinda byggingu hitaveitu Reykjavíkur í framkvæmd, yrði það svo mikil atvinna, að betri tök yrðu á því fyrir ríkissjóðinn að fullnægja þörf annara landshluta um úthlutun atvinnubótafjár. En bezt myndi öllu atvinnubótafé varið til stuðnings þeim framkvæmdum, bæði í hagnýtingu innlendrar orku og aukningu garðávaxta, sem gerðu þjóðina sem óháðasta erlendum innflutningi. ríkisstj. ber að sjálfsögðu að láta þetta hitaveitumál til sín taka, og þingið myndi vinna þarfasta verk með því að greiða fyrir skjótri lausn þess. Till. okkar kommúnista um það, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir útgerðarfélög og einstaklinga til þess að kaupa nýtízku stór dieselmótorskip og endurnýja á þann hátt flotann, hefir hv. Alþingi enn á ný vísað á bug við 2. umr. fjárlaganna. Mér þykir óþarft að lengja umr. um þetta mál með því að endurtaka það, sem ég sagði um þetta efni við útvarpsumr. um fjárlögin í fyrra. Aðeins get ég upplýst það, og hefi eftir góðum heimildum, að danskt 100 smálesta dieselmótorskip, stundaði dragnótaveiði við suðausturströnd landsins 9 mánuði síðasta árs og seldi aflann til Englands. Aflasalan var að verðmæti þessa 9 mánuði 6000 sterlingspund eða röskar 130 þús. krónur og taldi sá, er sagði mér frá þessu, að kostnaður við úthaldið myndi ekki hafa farið fram úr helmingi þess, sem aflinn seldist fyrir. Ég vil að nýju undirstrika það, að mér virðist það barnaskapur að ætla sér að rétta við togaraútveginn með því að ívilna honum um alla tolla og skatta.

Það er augljóst, að auk þeirrar óstjórnar, sem ríkir í togaraútgerðinni, að kolavélar þær, sem notaðar eru, eru sá baggi, sem allt er að sliga. Það er ekki einungis hið háa verð kolanna, heldur þungi þeirra og þungi sjálfra gufukatlanna í samanburði við steinolíu og þunga dieselvéla, sem riður baggamuninn um það, að fiskframleiðsla á gufuskipum verður að mun dýrari en á dieselskipum, og ber þá einnig að taka legu landsins til greina. Hinn frjálsi erlendi markaður spyr ekki um tilkostnað við framleiðsluna; og í samkeppninni við dieselmótorskipin verða gufuskipin undir. Eina framtíðarlausnin á útvegsmálum okkar er því sú, að breyta til frá kolavélum í dieselmótora í flotann. Að till. okkar í þessu efni hafa ekki mætt meiri skilningi en raun ber vitni, verður hæstv. ríkisstjórn ekki ein sökuð um. Allir þeir hv. þm. úr öllum hinum flokkunum, sem lögðust gegn till., eiga þar óskipt mál.

Sjálfstæðismenn hafa hreyft því hér á þingi, að ríkið hætti að reka bú sín á Kleppi og Vífilsstöðum, og bera því við, að tap hafi orðið á rekstri búanna síðastl. ár. Kenna þeir um, að eigi sé gætt hófs um greiðslu launa til verkamanna, sem á búunum vinna. Ég hefi séð vinnuskýrslur Kleppsbúsins frá árinu 1936, og verður ekki sagt, að kaupið þar sé óhæfilega hátt, þótt hækkað hafi verið, frá því sem áður var, og ekki hærra en annara verkamanna, sem að landbúnaði vinna hér í nágrenni Reykjavíkur. Miklu frekari ástæða er til að ætla, að eitthvað færi í handaskolum, hvað rekstri búanna viðkemur. Ríkið rekur eitt bú að Reykjum í Ölfusi. Þetta bú hefir að vísu með höndum fjölbreyttari búskap, en það hefir skilað miklum tekjuafgangi bæði árin 1936 og 1937, 20 þúsund kr. fyrra árið og röskum 11 þús. kr. hið síðara. Í viðtali við bústjórann þar upplýsti hann, að nautgriparæktin þar hefði einnig borið sig, enda þótt að ýmsu leyti sé örðugra en t. d. á Kleppi og Vífilsstöðum að reka þessa grein búskaparins. Mjólkin er 3 aurum lægri hver lítri en á báðum hinum búunum, nokkuð af hinu ræktaða landi ný-rækt og kostnaðarsamari flutningur að og frá en á hinum búunum. Þessum bústjóra er nú Sagt upp starfi sínu frá næstu áramótum vegna væntanlegrar skipulagsbreytingar þar eystra. Þar á að verða skóli og tilraunabú í framtíðinni. Þangað mun nú vera ráðinn skólastjóri, því að augsýnilega hefir hann vantað eitthvað að gera. Ég vil í þessu sambandi taka það fram, að ég hefi ekki hugmynd um stjórnmálaskoðanir bústjórans á Reykjum, nema að hann er ekki flokksbróðir minn. því skal ekki haldið fram að óreyndu; að þessi maður, sem við á að taka, sé ekki starfi sínu vaxinn, en hitt tel ég með öllu óafsakanlegt, að víkja trúverðugum mönnum og hagsýnum frá stofnunum ríkisins. Hér á ég ekki við hagsýni, sem felst í kaupkúgun, og hefi ég ekki heyrt, að á Reykjabúinu hafi henni verið beitt. Hagsýni getur verið fólgin í hirðusemi og réttri vinnutilhögun, og þjóðin gerir kröfur til þess, að menn með slíkum kostum stjórni opinberum rekstri, en ekki menn, sem vegna stjórnhollustu einnar saman fá að hanga í stöðum sínum.

Flokksbróðir minn, hv. 1. landsk., hefir lýst nokkrum þeirra frv., sem Kommfl. hefir borið fram á þinginu. Ég ætla að minnast á tvö, sem bæði hafa verið borin fram á þessu þingi og hinu síðasta. Annað er frv. um greiðslu kaupgjalds í peningum og er farið fram á það. að kaupgjald skuli skilyrðislaust og án allra undantekninga greitt verkamönnum í peningum. Í gildandi lögum eru ákvæði, sem rýra gagnsemi gildandi kaupgreiðslulaga, svo að hægt er fyrir atvinnurekendur að komast framhjá þeim. Víða í bæjum landsins er kaup ennþá greitt með vörum eða skuldajöfnuði, og eiga bæjarstjórnir sumra bæja þyngsta sök í þessu efni. Með því að greiða starfsmönnum sínum og verkamönnum laun sín með ávísunum á vöruúttekt í kaupmannaverzlunum gefa bæjarstjórnirnar þessum verzlunum sínum kost á að rýra tekjur starfsmannanna með óhæfilegu verzlunarálagi. Auk þess sem það heftir frjálsræði manna um val á, hvar þeir kaupa sínar lífsnauðsynjar, og gerir þeim öll skipti óhagkvæmari. Vegna lágmarksálagningar á ýmsum vörum bænda kæra þessar verzlanir sig ekki um að hafa þær á boðstólum þar eð þeim er hagkvæmara að verzla með vörur, sem þeir geta lagt á eftir eigin geðþótta. Af því leiðir, að launþegar geta ekki, þótt þeir vildu, keypt ýmsar vörur landbún., og er því þessi kaupgreiðslumáti, sem ég hér hefi lýst, einnig til óþurftar bændastétt landsins. Engu að síður hefir flokkslið Framsóknar og Alþfl., sem skipar meiri hl. í öllum n., ekki fengizt til að skila nál. um þetta mál. Leiðrétting sú, sem hér er farið fram á, kostar ekki ríkissjóð grænan túskilding, en er stórvægilegt hagsmunamál hinum vinnandi stéttum. Þetta mál leyfa þeir fulltrúar bænda og verkamanna sér að hundsa. og má af því marka hollustu þeirra við þessar stéttir.

Hitt málið er frv. um innlendar skipaviðgerðir. Árlega er greitt út úr landinu í verkalaun hundruð þúsunda króna fyrir viðgerðir á íslenzkum járnskipum. Hér myndi auðvelt að frumkvæma skipaviðgerðir eins vel og fljótt, og það er álit margra, sem málum þessum eru kunnir, að viðgerðirnar yrðu sízt dýrari hér á landi en erlendis.

Iðnaðarmenn hafa eindregið mælt með því, að lög, sem færu í þessa átt, yrðu sett af Alþingi. En það gegnir sama um þetta frv. og önnur, að því hefir ekki verið skilað úr n., og er ekki sýnilegt, að það muni koma þaðan á þessu þingi.

Þjóðin má ekki láta umboðsmönnum sínum á Alþingi liðast að halda uppteknum hætti, að vanrækja hin mest-aðkallandi mál til viðreisnar hag þjóðarinnar og tryggja hana gegn hættu stríðs og kreppu. Það má ekki líðast, að í hverju máli sé látið stjórnast af blindum flokkshagsmunum án minnsta tillits til velferðar fólksins.

Kommfl. æskir samvinnu við alla þá menn í þinginu, sem vilja, þótt ekki væri nema að einhverju leyti, fallast á nauðsyn þess, að mái okkar nái fram að ganga, eins og hann sjálfur er og reiðubúinn til að þess að styrkja hverja þá viðleitni, sem miðar að því að tryggja landslýðnum betri afkomu. Utan þingsins vinnur flokkurinn þrotlaust að sameiningu alþýðunnar til lausnar hinna aðkallandi mála, og það með ágætum árangri. Dagurinn í gær sannaði þm. það, að alþýða landsins lætur ekki standa á sér til þess að vinna að settu marki. En það er: Verndun þeirra lýðréttinda, sem þjóðin þegar nýtur. Markviss sókn til fullnægingar lífsskilyrðum samboðnum menningarþjóð.