02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, fjárlög 1939

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hæstv. forsrh. hefir flutt hér yfirlitsræðu um niðurstöður af starfi ríkisstjórnarinnar. Ég ætla þess vegna að snúa mér að því að svara því, sem hér hefir komið fram í kvöld, þótt ég geti náttúrlega ekki á þeim stutta tíma, sem ég hefi til að svara, fengizt við allt það moldviðri, sem hér er þyrlað upp. Hv. þm. A.-Húnv. deildi á ríkisstjórnina fyrir launagreiðslur. Ég get fært sannanir fram fyrir því hvenær sem er, að launagreiðslur hjá ríkisstofnunum eru yfirleitt lægri hjá þeim, sem hafa laun um meðallag og yfir meðallag heldur en hjá stofnunum í Reykjavíkurbæ. Og á sama tíma sem ríkisstj. hefir unnið að því að færa niður kaup hjá þeim, sem hærra eru launaðir, þá er ekkert gert eða sáralítið til þess hjá hliðstæðum fyrirtækjum og einkum hjá þeim fyrirtækjum, sem flokksbræður hv. þm. A.-Húnv. stjórna. Ég hefi athugað launagreiðslur hjá 16 einkafyrirtækjum hér í Reykjavík, og ekki tekið bankana með. Niðurstöðurnar eru, að í þessum 16 fyrirtækjum eru 23 framkvæmdarstjórar, og meðallaun þeirra eru 16 þús. kr. á ári. Ennfremur eru 7 aðrir með 11 þús. kr. árslaun að meðaltali. En hæstu laun hjá forstjórum ríkisins eru 10 þús. kr. á ári, eins og laun eru að meðaltali hjá bókurum og fulltrúum hjá þessum einkafyrirtækjum. Og ráðherralaunin eru sem kunnugt er 10 þús. kr. Þá eru bankarnir. Hjá Landsbankanum eru 3 menn með 21600 kr. að meðaltali og 3 með 11 þús. kr. Hjá Útvegsbankanum er 1 með 21600 kr. og 2, sem unnið hafa til skamms tíma með 12 þús. kr. að meðaltali, og 3 með 10500 kr. Þessar launagreiðslur eru flestar hjá fyrirtækjum, sem flokksbræður hv. þm. A.-Húnv. ráða yfir. Og fram til skamms tíma hafa þeir haft meiri hluta í bankaráði Landsbankans, og mér er ekki kunnugt um, að þeir hafi gert nokkra einustu tilraun til, að færa launin niður. Ég vil nefna sem dæmi það, sem kom nýlega fram í sjúkrasamlagi Reykjavíkur, sem er ákaflega eftirtektarvert í sambandi við launagreiðslur. Þar varð ágreiningur um, hvað launin ættu að vera há. Vildu fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. hafa launin a. m. k. 600 kr. á hverjum mánuði. Var það nokkuð fyrir ofan það, sem fulltrúi Framsfl. lagði til. Þannig er afstaða Framsfl. yfirleitt, bæði þeirra, sem fara með stjórn, og undirtektir blaða hans gagnvart launagreiðslum. En hver er afstaða Sjálfstfl.? Hver nema sú, að það voru blöð þessa flokks, sem í sambandi við sjómannadeiluna á Siglufirði æstu upp kröfur sjómanna til launahækkunar og héldu fram, að þær væru á fullum rökum. reistar, þrátt fyrir tap á útgerðinni. Það voru atvinnurekendur á Siglufirði, sem höfðu forgöngu í því að hækka launin í launadeilunni þar. Það, sem bezt ber vitni um afstöðu sjálfstæðismanna í launamálum, er það. að ekki einu sinni þessir fjórir sjálfstæðismenn, sem eiga sæti í fjvn. fyrir hönd flokksins, gátu sameinazt um till. hv. þm. A.Húnv. um að lækka laun hjá ríkisstofnunum. Einn af þeim greiddi atkv. gegn henni. Og það er á allra manna vitorði, að hér á þingi myndi till. hv. þm. í þessu efni ekki fá neinn byr innan Sjálfstfl. Með hverju ætlar hann að ráða bót á þessum of háu launagreiðslum? Með því að fylgja Sjálfstfl. Með því að vinna að því, að flokkurinn fái meiri hluta og þeir menn, sem ráða launakjörum hjá Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda og hjá Eimskip og öðrum stofnunum í bænum, sem gera nær ókleift að lækka laun hjá ríkisstofnunum. Þetta eru nú heilindi! Hver skyldi trúa, að menn eins og hv. þm. Reykv., hv. þm. Vestm., hv. þm. G.- K. og hv. þm. Borgf., sem allir eiga mikinn þátt í því að ákvarða launakjör hjá þeim fyrirtækjum, sem ég talaði um, verði til að lækka launin hjá þeim, sem hærri laun hafa í þjónustu ríkisins, eftir að þeir hafa tekið þessa ákvörðun í þeim fyrirtækjum, sem þeir ráða yfir. Ef ríkisstj. er ámælisverð fyrir að greiða það kaup af hálfu ríkisins, sem gert er nú, hvað má þá segja um þá sjálfstæðismenn, sem reka þannig umboðsstjórn eins og t. d. í Sölusambandinn, þar sem þeir ákveða mönnum allt að því tvöfalt hærri laun en þeir hafa, sem hæstu laun hafa hjá ríkisstofnunum. Ef við höfum brugðizt trúnaði kjósenda okkar, hvað má þá segja um þá, sem hv. þm. A.-Húnv. ætlast til, að komi til valda hér á Alþingi? Og hversu færir væru þeir til að lækka þessar greiðslur, sem hann hér hefir verið að fjargviðrast um? Hér á þingi hefir enginn af flokksbræðrum hv. þm. A.-Húnv. tekið undir þessi mál með honum, og það er vegna þess, að þeir eru honum alls ekki sammála. Hinsvegar er það vitanlegt, að ef þeir ættu að ráða, þá yrðu það þeir, en ekki hv. þm. A.Húnv., sem skipuðu þessum málum.

Hv. þm. A.-Húnv. fór hér með nokkrar fleiri tölur aðrar en þær, sem snerta launagreiðslur, og var með ýmiskonar upptuggu um það, að samtals hjá öllum ríkisstofnunum færu í tækifærisgjafir 5 þús. kr., til skemmtiferða 4 þús. kr. og til risnu 5 þús. kr. Þetta er allt og sumt af þessu tagi, sem hann hefir getað fundið í 3 mánuði. En sumt af þessu er þannig, að ekki er hægt að spara það, vegna þess að einkafyrirtækin hafa veitt mönnum þessi fríðindi og ríkisfyrirtækin hafa komið á eftir. Ég hefi viljað skapa heilbrigt aðhald um kostnað ríkisrekstrarins og lagt mig fram til að sjá um, að fjvn. fengi nægilegan tíma til að sinna þessu. Ég hefi gert það í þeirri trú, að stjórnarandstæðingar vildu hafa í n. heilbrigða gagnrýni og þannig styrkja ríkisstj. gagnvart einstökum forráðamönnum, sem kannske hafa tilhneigingu til að fara ekki sem sparlegast með fé. En slíkur málflutningur eins og hjá hv. þm. A.-Húnv., með þeirri illkvittni og ósanngjörnu gagnrýni, sem hann notar, verður til einskis gagns. Nú er ekkert við því að segja, þótt hv. þm. A.-Húnv. deili á háar launagreiðslur og annað þessháttar og reyni að auka fylgi Sjálfstfl. ef honum gæfist tækifæri til og álíti, að Sjálfstfl. myndi reynast betur en Framsfl. En af þeim dæmum, sem ég hefi bent á, og fjölda mörgum öðrum, sem hv. þm. A.-Húnv. eru eins kunnug eins og mér, þá veit hann, að það er svo fjarri því, að það myndi verða stýrt nær hans sjónarmiðum, þó að Sjálfstfl. réði í þessu máli. Þess vegna er það aðallega ámælisvert hjá hv. þm. að láta Sjálfstfl. nota sig til að hafa þennan málflutning í útvarpið og tyggja þetta í eyru kjósenda vitandi að það er ekkert annað en blekkingar, og yrði ekki framkvæmt, þótt hans flokkur kæmist í meiri hl. Hv. þm. A.- Húnv. sagði einhverju sinni í útvarpið í sambandi við launagreiðslur, að hann myndi aldrei láta bregða sér um „hin þöglu svik“. En ég vil nú segja þessum hv. þm., að hann gerir sig beran að ennþá verri svikum með því að leggja áherzluna á að gagnrýna þau atriði, sem fara betur úr hendi, en láta vera að deila á það, sem fer stórlega verr úr hendi fyrir hans flokksmönnum.

Hv. þm., sem hér hafa talað, hafa rætt nokkuð um afkomu ríkissjóðs, og það með nokkuð undarlegum hætti, þannig að þeir hafa sérstaklega lagt megináherzlu á að reyna að rugla málin fyrir hlustendum, svo að þeir fengju ekki að átta sig á þeim. Hv. þm. Snæf. sagði, að skuldir ríkissjóðs hefðu í tíð núverandi stj. aukizt um 5–6 millj. kr. Í árslok 1934 hefðu þær verið um 12 millj. kr., en í árslok 1937 46 millj. kr., sem sé að aukningin á þessu tímabili hefði verið 4 millj. En öll sú upphæð er ekki nema sem svarar því, sem ríkið hefir tekið á sig af skuldum Útvegsbankans. Niðurstaðan er því sú, að vegna ríkisrekstrarins hafa skuldirnar ekki hækkað einn einasta eyri á þessu tímabili, þrátt fyrir þótt að greiddar hafi verið til óvenjulegra útgjalda og óvenjulegra framkvæmda á þessu tímabili stórkostlegar fjárhæðir úr ríkissjóði. Vil ég í því sambandi nefna skuldir vegna Skeiðaáveitunnar, 350000 kr., áhvílandi skuldir Eyrarbakka og Stokkseyri 250000, til fiskimála 750000 og vegna sauðfjárpestarinnar 630000 kr. Þrátt fyrir allar þessar miklu skuldir, sem ríkið hefir þannig tekið á sig vegna annara, og þrátt fyrir þessar gífurlegu upphæðir, sem orðið hefir að leggja fram vegna sérstakra ástæðna, hefir tekizt að komast yfir þetta tímabil án þess að skuldir ríkissjóðs hækkuðu um einn einasta eyri.

Þá hefir sí og æ verið talað um hin stórauknu útgjöld ríkissjóðs og haldið fram, að það væri aðallega kostnaður við ríkisreksturinn. Ég hefi athugað sérstaklega útgjöldin samkvæmt 9. og 10 gr. fjárlaganna, en það er alþingiskostnaður og kostnaður við stjórnarráðið og annar slíkur kostnaður. Hann nam árið 1926 6,4% af útgjöldum ríkisins, en árið 1936 var hann aðeins 5%. Hlutfallstala þessara útgjalda hefir því lækkað á þessu tímabili. Kostnaður á 11. gr., dómgæzla og lögreglustjórn, var 1926 5,9%, en 1936 var hann 6%, þrátt fyrir allar þær geysilegu upphæðir, sem varið hefir verið nú síðari árin til þess að bæta lögreglueftirlit og löggæzlu, svo að það er miklu betra nú en þá, og samt hafa þessi gjöld ekki aukizt hlutfallslega.

Þetta sífellda tal stjórnarandstæðinga um aukin útgjöld og árásir á stj. í sambandi við það, kemur heldur ekki sem bezt heim við það, sem þeir segja, þegar þeim liggur á að halda öðru fram, sbr. t. d. síðustu bæjarstjórnarkosningar. Þá var birt yfirlit frá hagfræðingi Reykjavíkurbæjar, þar sem því var haldið fram, að óhjákvæmilegt væri að útgjöld bæjarins ykjust, ekki aðeins sem svaraði venjulegri aukningu bæjarins. heldur talsvert meira, vegna þess að kröfur bæjarbúa á hendur bænum væru alltaf að aukast. Þetta kemur ekki sem bezt heim við það, sem hv. stjórnarandstæðingar segja hér á eldhúsdaginn um útgjöld ríkissjóðs.

Ég hefi ekki tíma til að svara þeirri ádeilu, sem hér hefir komið fram um umframgreiðslur stj. eða þær tollahækkanir, sem hún hefði komið á. en vil eyða þeim mínútum, sem ég á eftir, til þess að fara nokkrum orðum um gjaldeyrismálin. Hæstv. forsrh. gaf um þau atriði mjög glöggt yfirlit í ræðu sinni áðan. Hv. andstæðingar stj. hafa haldið fram, að í þeim málum ríkti nú hið mesta öngþveiti, og gengið þar svo langt, að þeir hafa haldið því fram, að skuldir þjóðarinnar við útlönd hafi hækkað á undanförnum árum um 30 millj. kr., og þessi tala er þannig fengin, að þeir segja, að skipulagsnefnd atvinnumála hafi haldið fram, að í árslok 1931 hafi skuldirnar verið 74 millj., en í árslok 1936 hafi þær verið 105 millj., og svo segja þeir, að mismunurinn sé um 30 millj. Þetta er áreiðanlega vísvitandi fölsun hjá hv. þm. Skipulagsnefnd atvinnumála gerði skuldirnar ekki upp nær okkur en til ársloka 1934 og komst ekki að þeirri niðurstöðu, að þær væru 74 millj., heldur 93600000 kr. eins og stendur skýrum stöfum í áliti n. En svo áætla þessir hv. þm., að síðan hafi skuldirnar hækkað um 12 millj., en það er gert alveg út í bláinn og þvert ofan í allar staðreyndir, sem fyrir liggja. Samkvæmt upplýsingum hagstofunnar, þá liggur það fyrir, að skuldirnar hafa hækkað um 6,5 millj. frá árslokum 1934 til ársloka 1936 og heldur lækkað á árinu 1937. Þetta liggur í þeirri einföldu staðreynd, að um leið og komið hafa nýjar skuldir, hafa eldri skuldir verið greiddar um 4 millj. kr. árlega, sem eru þær föstu afborganir. Það hefði þó verið minnsti þegnskapur, sem þjóðin hefði getað ætlazt til af fulltrúum sínum á Alþingi, að þótt þeir vildu sverta andstæðinga sína, þá færu þeir ekki að koma með vísvitandi ósannindi um skuldaaukningu þjóðarinnar út á við og auka þannig á þá erfiðleika, sem hún á við að búa. Það var sá minnsti þegnskapur, sem þeir gátu sýnt, að neita ekki staðreyndum, sem sú stofnun, sem á að hafa þessi mái með höndum, hefir lagt fyrir, og slíta ekki út úr samhengi einstakar tölur á áliti skipulagsnefndar og skálda svo það, sem á vantar, til að fá sem óhagstæðasta niðurstöðu. Það er langt síðan menn hafa staðið í því hér, að rífast um, hversu miklar skuldirnar væru, og ég verð að segja, að mér þykja þessir hv. þm. vera nokkuð gamaldags, þegar þeir taka upp þennan málflutning, sem ég hélt, að væri löngu lagður niður.

Eins og hæstv. forsrh. minntist á í sinni ræðu, þá hefir verzlunarjöfnuðurinn undanfarið verið hagstæður um 5300000 kr. á ári, á móti 2500000 kr. að meðaltali næstu 10 ár á undan. Það hefir því tekizt þrátt fyrir alla þá erfiðleika að bæta verzlunarjöfnuðinn þetta. En ástæðan til þess, að ástandið í gjaldeyrismálum er ekki betra en það er nú, er, að 1931 og 1933 var verulegur halli á viðskiptum okkar við önnur lönd, og í öðru lagi, að á síðasta ári urðum við að fresta í bili a. m. k. 2 millj. kr. í vörukaupareikningum okkar í öðrum löndum og safna þá tilsvarandi upphæð í lausum skuldum til viðbótar við það, sem fyrir var. Það er ekki rétt, sem þessir hv. þm. hafa verið að halda fram, að þetta stafi af því, að menn hafi gert sér rangar hugmyndir um duldu greiðslurnar, heldur eru þær niðurstöður, sem fyrir liggja, eins og þrásinnis hefir verið gerð grein fyrir, í samræmi við þær hugmyndir, sem menn höfðu gert sér um þau mál, að duldu greiðslurnar eru um 5–6 millj., þegar ekki eru taldar með afborganir af lánum. Það er því tilhæfulaust, að duldu greiðslurnar séu um 14½ millj., heldur eru þær með afborgunum um 10 millj. kr., og ber það að sama brunni og það, sem ég hefi áður haldið fram.

Þessi tala, sem hv. þm. Snæf. var hér að breiða sig út yfir, að ábyggilegur maður hefði áætlað duldu greiðslurnar um 14½ millj., er að mestu leyti rangfærsla, en að nokkru leyti til orðin þannig, að það er sú upphæð, sem tekið hefir verið til, að þyrfti að greiða, ef ætti að borga a. m. k. 3 millj. kr. á einu ári upp í lausaskuldir, sem fyrir lágu, en slíkt telur enginn með duldum greiðslum.

Gjaldeyrislánið fyrirhugaða hefir verið dregið nokkuð inn í þessar umr. Ég er næstum búinn með tíma minn og get því ekki gert því skil nú, en mun koma inn á það á morgun. Ég vil aðeins taka það fram nú, að þetta gjaldeyrislán er 11 millj. og á að takast á 3 árum. Ástæðan til þess, að nú er beðið um þessa heimild, er sú, að þjóðinni er gersamlega um megn að lækka skuldir sínar um 4 millj. kr. á ári, eins og nú standa sakir, því að það er eins og hún ætti að gerast útflytjandi að erlendu lánsfé, en það er ómögulegt að hugsa sér, þegar margra ára aflaleysi og fjárpest í 7 sýslum steðjar að landsmönnum auk allra annara erfiðleika, að þá getum við gerzt útflytjendur að fjármagni, í stað þess að áður var það flutt inn í stórum stíl, og það tekur út yfir, þegar það er gert að árásarefni á stj., að hún bendir á þessa staðreynd og gerir ráðstafanir til að mæta henni. Er þar gengið lengra en ég hafði fyrirfram gert mér hugmynd um, að það skuli vera haft fyrir árásarefni á stj., að hún skuli ekki telja fært að lækka skuldirnar við útlönd á einu ári um 4½–5 millj. eftir 3 ára aflaleysi og alla þá aðra erfiðleika, sem að okkur hafa steðjað og við höfum orðið að mæta, en of langt yrði upp að telja.

Ég mun svo annað kvöld víkja að því, sem sjálfstæðismenn hafa leyft sér að halda fram, að ef þeir hefðu stjórnað á undanförnum árum, hefði ekki þurft að grípa til þessa, þá hefði verið til sá gjaldeyrissjóður, að hægt hefði verið að sinna þessum afborgunum án þess að taka nokkurt lán á móti. Ég mun víkja að því annað kvöld, hvað reynslan frá 1924–1927 segir um, hvað líklegast væri, að hann hefði gert nú, ef hann hefði verið við völd.

Góða nótt!