05.05.1938
Neðri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Finnur Jónsson:

Ég þarf ekki að svara hv. þm. G.-K. neitt sérstaklega út af þessu, þótt ég hefði að sjálfsögðu ástæðu til að þakka honum mikið, þar sem hann hefir einmitt staðfest með því að lesa enn á ný upp þessa grein úr lögum Eimskipafélagsins það, sem ég gat um í fyrstu ræðu minni. að úrskurður um þetta mál liggi eingöngu í höndum félagsstjórnar, og sannar með því, að blöð flokks hans fara með ósannindi í þessu máli. Því að blöðin héldu fram í morgun, að þessi úrskurður lægi ekki hjá stjórn Eimskipafélagsins heldur hjá aðatfundi þess. (ÓTh: Hvað stendur í 14. gr.?). Það stendur í greininni, sem hv. þm. las, og ég vona, að hann lesi ekki til að blekkja þingheim, að það færi eftir áliti stjórnar Eimskipafélagsins, hvori unnið hafi verið á móti hag félagsins eða ekki. (ÓTh: Já, og ef stjórnin álítur það, þá á aðalfundur að úrskurða). Þess vegna er það, sem fyrir hefir legið, að stjórnin hefir ekki viljað gefa upplýsingar um, að allar sakir skyldu falla niður. Þannig er það auðséð, að það hafa verið a. m. k. einhver ummæli um það innan stjórnarinnar, að þessum ákvæðum skyldi beitt gegn stýrimönnunum. Það eru þess vegna engin svigurmæli til neins í framkvæmdastjórn Eimskipafélagsins, þótt bent sé á það, að svo mikla dáleika, sem þjóðin hefir á Eimskip, og svo mikil hlunnindi sem Alþingi hefir veitt því, þá væri það algerlega óverjanlegt, ef nokkrum einstökum mönnum ætti að haldast það uppi að nota eftirlaunasjóðinn í kaupkúgunarskyni við einhverja stétt manna innan félagsins.