20.04.1938
Neðri deild: 50. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

106. mál, niðurjöfnunarmenn sjótjóns

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Eitt af þeim erfiðustu störfum, sem sjórétturinn leggur lögfræðingum á herðar, er svokölluð niðurjöfnun sjótjóns, og þeir menn, sem það annast og kallaðir eru „dispaehörer“ á erlendu máli, eru enn ekki til hér á landi, svo að þegar um slíka starfsemi hefir verið að ræða, hefir í flestum tilfellum verið leitað til erlendra manna.

Nú vill svo til, að einn ungur og efnilegur lögfræðingur hefir undirbúið sig undir þetta starf, og það má ef til vill vænta þess, að fleiri komi á eftir honum.

Í öðrum löndum, m. a. á Norðurlöndum, gilda sérstök lög um löggildingu manna til þessa vandasama starfs, og frv. það, sem allshn. flytur hér, er að miklu leyti í samræmi við þá löggjöf, þó að ekki hafi verið lagt út í að krefjast fullkomins prófs til þess að geta fengið löggildingu, heldur eru sett skilyrði um nægilega bóklega og verklega kunnáttu.

Það hefir verið leitað álits Sjóvátryggingarfélags Íslands, og Brynjólfur Stefánsson forstjóri, sem er manna kunnugastur þessu af öllum hérlendum mönnum, leggur mjög með því, eins og sést á fskj. með grg. frv., að frv. verði samþ. Ég geri hálfpartinn ráð fyrir, að n. neyðist til að koma með lítilsháttar brtt. við 2. eða 3. umr. að því er snertir ákvæðið um það, að skilríki skuli lögð fram fyrir því, að sá maður, sem á að fá þessa löggildingu, hafi aflað sér fræðilegrar sérþekkingar við erlendan háskóla, vegna þess að ef hann er ekki innritaður við háskóla, þá getur verið dálitlum vandkvæðum bundið fyrir hann að hafa skilríkin, sérstaklega ef hann hefir ekki vitað um þetta fyrirfram. Annars kemur þetta til athugunar í n., en ég legg til, að frv. verði samþ. án þess að því sé visað til n. N. getur athugað þetta, ef hún vill.