04.05.1938
Efri deild: 61. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

106. mál, niðurjöfnunarmenn sjótjóns

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er komið frá hv. Nd. og er flutt af allshn, þeirrar d. Allshn. þessarar d. hefir athugað frv. og, eins og sést í nál., leitað álits sérfróðra manna um efni þess. Það, sem sérstaklega er þýðingarmikið í frv. þessu, er, að með því er farið fram á að löggilda innlenda menn til að annast þau störf, sem í frv. eru talin. það er svokölluð niðurjöfnun sjótjóns. Þeir menn, sem n. hefir leitað til með málið, eru þeir Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari og Brynjólfur Stefánsson vátryggingarforstjóri hjá Sjóvátryggingafélagi Íslands. Hér er um að ræða að færa störf inn í landið, sem ekki hafa verið til sérfróðir menn í áður, en það er að jafna niður sjótjóni, eins og gert er ráð fyrir í 8. kafla siglingal. eins og þau eru frá 1930. Erlendis er litið svo á, að hér sé um mjög vandasamt starf að ræða og mönnum ætlað að búa sig undir það með því að vinna í skrifstofum, sem hafa þessi mál með höndum, allt upp í 5 ár. Í Bretlandi mun ekki heimtuð lögfræðileg þekking til þess, en farið fram á mjög langan starfstíma í þess stað. Her er gert ráð fyrir. að um lögfræðinga sé að ræða, sem taka slíkt starf að sér, og eiga þeir að hafa embættispróf frá Háskóla Íslands og hafa aflað sér sérþekkingar í sjórétti við erlendan háskóla eigi skemur en eitt ár, og þar að auki hafa starfað við slík störf, erlendis eða innanlands, eigi skemur en eitt ár. Þótt hér sé nokkru skemur farið en tíðkast erlendis, þá hygg ég, þar sem svo ýtarlegrar þekkingar og náms er krafizt, að það sé fullkomlega nægilegt að hafa fyrst háskólanám hér á landi, nám við erlendan háskóla og eins árs verklega fræðslu við niðurjöfnunarstofnun hér eða erlendis.

Nú mun bera svo til, að ungur lögfræðingur hefir þegar aflað sér þekkingar erlendis; hann hefir tekið ágætt próf frá Háskóla Íslands og unnið erlendis í 21/2 ár við stofnun, sem hefir þess háttar störf með höndum. Mun hann því fyrstur koma hér til greina sem löggiltur maður til að annast niðurjöfnun, og er við það tvennt unnið. Fyrst og fremst það, að þessi vinna er komin inn í landið og þarf ekki að greiða fyrir hana til erlendra manna, og um leið á að mega byggja á, að slík niðurjöfnun, sem fer fram hér, verði fulltrygg, svo ekki þurfi að senda öll skjöl og skilríki þessum málum viðkomandi til útlanda. Hingað til hefir þessi niðurjöfnun nokkrum sinnum farið að mestu leyti fram innanlands, og hafa að því unnið þeir menn, sem bezt skyn bera á þessa hluti, og mun það einkum vera Þórður Eyjólfsson, ásamt einhverjum öðrum, sem leitað hefir verið til, þótt þeir hafi ekki aflað sér fullkominnar þekkingar á þessu sviði. Með frv. er örugglega frá þessu gengið, svo að erlend vátryggingarfélög, sem hér eiga hlut að máli, munu geta treyst niðurjöfnuninni, svo að verkið verði allt unnið hér á landi.

Með tilliti til þessa hefir allshn. ekki talið nauðsynlegt að breyta frv., en leggur til, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 342.