02.05.1938
Neðri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

88. mál, þilplötur o. fl. úr torfi

Sigurður Kristjánsson:

Ég á hér brtt. við þetta frv. á þskj. 393. Eins og hv. þm. er kunnugt, er orðið nokkuð mikið um það, að þingið sé beðið um að lögfesta einkaleyfi, og er ekki laust við, að það sé farin að stafa nokkur hætta af því, að menn hlaupa með hverskonar hluti inn á einkaleyfisbrautina, þó að manni sýnist, að slík framleiðsla, sem beðið er um einkaleyfi á, myndi vel geta þrifizt alveg frjálst.

Nú er það svo, að þegar svo stendur á, að leggja verður í allmikinn byrjunarkostnað, annaðhvort til þess að koma á fót dýrum rekstri, eða ef um útflutningsvörur er að ræða, sem vinna þarf markaði erlendis með allverulegum kostnaði, þá hefir þótt sanngjarnt að tryggja mönnum einhvern dálítinn frið til þess að koma þessu í kring, þannig að byrjendurnir séu ekki notaðir til þess að brjóta leiðina, og svo vaði aðrir á hæla þeim, áður en þeir hafa fengið uppborinn þann kostnað, sem þeir hafa haft af því að yfirvinna byrjunarörðugleikana. En sökum þess. að þessar einkaleyfisbeiðnir eru orðnar svo margar og á svo mörgum sviðum, þá hafa nokkrir þm., a. m. k. ég, og sjálfsagt margir fleiri, orðið dálítið varfærnir og tortryggnir gagnvart þessum einkaleyfisbeiðnum. Flest af því, sem komið hefir hér til d., hefir farið til iðnn., sem ég á sæti í, og n. hefir viljað lita frjálslega á þessi mál, en hinsvegar tryggja þjóðfélagið fyrir því, að framleiðslusviðið færðist í óeðlileg bönd. Það hefir orðið okkar fangaráð, að sinna yfirleitt þessum beiðnum, en hafa einkaleyfistímann svo stuttan, að ekki geti varðað neinni röskun á eðlilegri framleiðslu í landinu, og höfum við yfirleitt bundið okkur við 5 ára einkaleyfi. Að sjálfsögðu getur ekki nákvæmlega sami tími átt við um allt slíkt. Það fer nokkuð eftir því, hve byrjunarörðugleikarnir eru miklir. En þá má framlengja einkaleyfistímann, ef rök koma fyrir þörf þess.

Við höfum nú litið svo á viðvíkjandi þessu máli, að stofnkostnaðurinn muni geta orðið talsvert mikill. Það er þó vafasamt, því að það fer eftir því, hvora leiðina einkaleyfishafi velur. Einkaleyfisbeiðendur hafa farið allfreklega í beiðni sinni hvað tímalengdina snertir. Þeir báðu upphaflega um 20 ár, en Ed. færði tímann niður í 15 ár. Það er samt þrefalt lengri tími en við í iðnn. þessarar hv. d. höfum yfirleitt mælt með.

Nú varð meir hl. n., að ég held, þeirrar skoðunar, að bezt væri að láta þetta fljóta svona, en ég álít samt ekki rétt að hafa tímann svo langan, ekki aðeins með tilliti til þess, að það er mjög vafasamt, hvort lagt verði í nokkurn verulegan kostnað, því að vera má, að þessi jarðvegsefni verði að vinna á þann hátt, að torfið verði pressað, en ekki þvegið út, þannig að ekki verði unnið úr því á dýrasta hátt, heldur og með tilliti til þess að einkaleyfisbeiðandi fær, ef frv. verður að l., leyfi til þess að framselja leyfið í hendur erlendu félagi, og sé ég ekki annað en að það sé skynsamlegt að fara dálítið varlegar í þetta mál af þeirri ástæðu. Ég tel, að einkaleyfisbeiðendum sé fullur sómi sýndur með því að ætla þeim helmingi lengri einkaleyfistíma en við höfum yfirleitt gengið inn á. Þess vegna legg ég til, að einkaleyfistíminn verði 10 ár, og vænti ég, að hv. þdm. geti yfirleitt fallizt á, að það muni vera sanngjarnt. Ef það svo kæmi í ljós, að þetta yrði ekki rekið nema með einkaleyfisvernd, þá er náttúrlega alltaf opin leið til þess að framlengja einkaleyfistímann.