02.05.1938
Neðri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

88. mál, þilplötur o. fl. úr torfi

*Frsm. (Emil Jónsson):

Ég þarf ekki að hafa þetta mörg orð. Í upphaflega frv. var einkaleyfistíminn áætlaður 20 ár, en Ed. stytti tímann niður í 15 ár. Var talið að varla væri hægt að hafa tímann styttri, og byggist það á því, eins og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að möguleikar eru fyrir því, að þetta verði unnið með svo stórfelldum tækjum, að stofnkostnaðurinn mundi nema upp undir 1 millj. kr., og til þess að geta haft sæmilegan tíma til þess að ganga frá afskriftum og afborgunum af þessum tækjum og koma rekstrinum á heilbrigðan grundvöll, er talið, að þessi tími megi varla vera skemmri. Þó að ódýrari aðferðin geti komið til greina, þá eru eins miklar líkur til þess, að hin aðferðin verði upp tekin. Við hinir nm. leggjum því til, að 15 ára leyfistíminn sé látinn haldast.