22.03.1938
Neðri deild: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

61. mál, ríkisborgararéttur

Jón Pálmason:

Ég hefi vísað til þingsins beiðni um það, að einn maður í mínu héraði fengi ríkísborgararétt, sem er Óskar Sövik, rafveitustjóri á Blönduósi, norskur maður, sem er búinn að vera átta ár hér á landi og hefir reynzt prýðilega vel. Byggði ég þessa beiðni á því, að þar sem maðurinn hefir verið í þjónustu sýslufélagsins, og mikil nauðsyn er að halda honum þar áfram, mætti færa hann undir ákvæðin um opinbera starfsmenn, sem geta fengið ríkisborgararétt, ef þeir hafa dvalið hér fimm ár eða lengur. En allshn. hefir ekki talið fært að taka þessa beiðni til greina.

Það var út af þessu, sem ég bað um orðið um daginn og vildi gjarnan fá frestað afgreiðslu þessa máls. En úr því að n. er sammála um, að þetta komi ekki til greina að þessu sinni, verð ég að sætta mig við, að málið fari til Ed., án þess að þessi maður sé tekinn hér inn. En ég verð að segja það, að mér þykir það býsna ósanngjarnt ákvæði í þessum l., ef á að lita svo á að 5 ára ákvæðið sé einskorðað við ríkisstarfsmenn, og aðrir megi ekki koma til greina um það að fá undanþágu,frá 10 ára ákvæðinu, því að ég lít svo á, að hér sé um hliðstætt tilfelli að ræða, þótt hlutaðeigandi maður sé í þjónustu sýslufélags.