07.04.1938
Efri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

61. mál, ríkisborgararéttur

*Jóhann Jósefsson:

Brtt., sem ég hefi leyft mér að flytja við frv. eða við brtt. n., er áhrærandi mann, sem hefir verið búsettur í Vestmannaeyjum síðan 1926 og stundað þar klæðskeraiðn. Hann kom hingað fyrst 1920 og var þá í Reykjavík, en fór af landi burt um stundarsakir með konu og barn. Ég skal taka það fram, að hann er giftur íslenzkri konu. Þau hjón eiga eitt barn, sem samkv. vottorði skólastjórans í Vestmannaeyjum hefir notið sömu fræðslu og önnur börn á þess aldri. Hann hefir vottorð valinkunnra manna um það, að hann sé góður maður og gegn og vel þess verður, að fá íslenzkan ríkisborgararétt. Hann skilur íslenzkt mál og talar það sæmilega. Fleiri plögg eru hér, svo sem fæðingarvottorð og því um líki. Síðast þegar ég fór til Eyja, en það var fyrir nokkrum dögum, þá tjáði hann mér, að hann hefði ekki haft hegningarvottorð frá sínu föðurlandi, en var þá nýbúinn að fá það, og tók ég það með hingað til þingsins, en kom ekki nógu snemma til að ná í afgreiðslu n. á málinu. Hún var búin að gefa út nál., þegar ég fékk henni þetta skjal og önnur skjöl, sem lágu í stjórnarráðinu. Það er vitanlegt, að n. hefir valdið til að dæma um þetta, og ég skal fúslega verða við tilmælum frá frsm. n. um það, að taka þessa brtt. aftur til 3. umr. Ég vonast þá til, að n. athugi þau skjöl, sem ég hefi lagt fram og eru nú í vörzlum hv. frsm. n., sem snertandi eru þennan umsækjanda.