03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1939

*Jónas Jónsson:

Góðir tilheyrendur! Ráðherrar Framsfl. hafa í gærkvöldi rakið mjög ýtarlega öll þau aðalatriði, sem deilt hefir verið á núverandi ríkisstjórn út af dægurmálum þeim, sem mest hefir verið talað um á síðustu tímum. Mun ég því leiða þau að mestu leyti hjá mér, en víkja nokkrum orðum að tveimur atriðum í ræðu hv. 5. þm. Reykv., EOl, frá síðustu útvarpsumr. Þar hélt hann því fram, að ég hefði veitt honum eina stöðu og boðið honum aðra hér fyrr á árum. Þetta er oflof um mig. Báðar þessar stöður voru háðar valdi annara manna. 10 manna n., sem ég hafði aðeins nefnt einn mann í. Því er þetta oflof um mig h,já hv. þm. samskonar oflof og hv. þm. G.-K., ÓTh. hefir stundum látið mig óverðugan njóta.

Hér í þingsalnum kom fyrir atvik eitt um tólfleytið í gærkvöldi, sem minnti á atvik, sem gerðist í Bankastrætinn fyrir mörgum árum, þegar Þórður vinur minn á Kleppi mætti þar pakkhúsmanni, sem var nýlega dáinn. Maðurinn sneri sér að Þórði og ætlaði að heilsa honum, en Þórður sagði honum, sem satt var, að hann væri dauður, en pakkhúsmaðurinn lét sér ekki segjast. Svipað þessu var það, þegar ÞBr, hv. þm. Dal., fór að tala hér um fjármál og landbúnað eins og hann væri lifandi leiðtogi í stjórnmálaflokki. En raunar er þessi hv. þm. dauður pakkhúsmaður í hinu pólitíska pakkhúsi Framsfl., eða öllu réttar, hann strauk þaðan, þegar hann átti að vera að vinna þar, og andaðist svo upp úr því. En af því að hann gerði mér þann sama sóma og maðurinn Þórði á Kleppi, að víkja að okkur framsóknarmönnum nokkrum orðum, þá vil ég minna hann á, að hann ætti að fara varlega í það að kasta hnjóðsyrðum til okkar framsóknarmanna fyrir það, hvað við stöndum okkur illa í skiptum okkar við útlönd. Ég vil benda honum á það, að árið, sem hann tók við stjórn, árið 1932, þá var verzlunarjöfnuðurinn okkur í vil um 10 millj. kr. fyrsta árið, en honum tókst að koma því niður í 2 millj., og 1934, þegar hann stjórnaði ekki nema hálft árið, lagast þetta svo mikið, að það komst upp í 4 millj. 1935 var það svipað, 1936 lagast þetta undir stjórn Framsfl. upp í 7 millj., og 1937 verður verzlunarjöfnuðurinn hagstæður um 8 millj. kr. Ég læt þessar tölur nægja til að tala fyrir sig.

Hv. þm. Dal. veit vel, að bændur, sem lifðu við ágæta framleiðslu áður, flosnuðu upp um allt land fyrir það ólag, sem var á verzluninni og hann gat ekki lagað, og upp úr því kom hin geigvænlega kreppuhjálp, sem allir vita, hvaða þýðingu hefir. Það er beinlinis óþolandi af hv. þm. Dal. að kasta hnýfilyrðum að Framsfl. Hans stj. tókst ekki að leiðrétta innanlandsmarkaðinn. En allir vita, hvað núverandi stj. hefir tekizt að gera með skipulagningu á öllu búnaðarlagi, og hefir tekizt að breyta fyrir bændur hallærinu á dögum þBr í góðæri. Hitt er annað mál, þótt fjárpest sú, sem sumir lærðir menn álita að hafi komizt hingað til lands fyrir óheppni á stjórnarárum hans, þjaki bændur nú, en það verður ekki kennt núververandi stj. Þessi orð vildi ég láta falla til þess, að almenningur viti allt um hans flokk, er nú hefir verið felldur til jarðar, og þeir, sem áður voru fylgismenn hans, færu í þá tvo flokka, sem lögðu honum til efnið, meðan það var eitthvað, Framsfl. og Sjálfstæðisfl.

Ég vildi eftir þessi fáu orð víkja að afstöðu okkar inn á við og út á við. Afstaðan út á við er sú, að allar stórþjóðirnar, bæði Englendingar, Þjóðverjar og Frakkar, búast stríði, og litlu þjóðirnar nágrannar okkar, svo sem Danir og Svíar, óttast líka að stríð skelli á, þótt þær ekki ætli sér að fara inn í þann rugling. Yfir heiminum vofir stríðshættan með þeim hörmungum, sem fáir geta gert sér í hugarlund, nema helzt þeir, sem annaðhvort hafa farið um stríðslöndin eða talað við það fólk, sem þar býr og kviðir nú fyrir komandi erfiðleikum. En af þessu höfum við Íslendingar ekkert að segja, af því að við erum í góðu sambýli við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum og í vinsamlegu sambýli við hinar stærri og fjarlægari frændþjóðir okkar, Þjóðverja og Englendinga. Þeir viðurkenna sjálfstæði okkar og menningu eftir því, sem búast má við vegna þess hve þjóðin er fámenn. Okkar trygging fyrir að halda fullveldi okkar felst í því, að við búum í skjóli við herveldi Breta, sem eru sterkasta sjóveldi heimsins og sterkasta lýðræðisþjóðin, sem til er í heiminum. Þegar við lítum yfir okkar aðstöðu og þá erfiðleika, sem við höfum við að stríða, þá sjáum við, að þeir eru að vísu nokkrir, en við höfum ekkert af þeim mestu erfiðleikum að segja, sem hinar ágætu þjóðir kringum okkur eiga við að búa. Viðfangsefni okkar eru að halda uppi sjálfstæðu menningarríki og nota þær auðlindir, sem landið á, til þess að fullnægja þörfum þjóðarinnar og halda við krafti hennar; með því eina móti getum við haldið við sjálfstæði okkar og andlegu lífi. Eins og áður, munum við ekki geta komizt hjá því að líta á þá mestu erfiðleika, sem við Íslendingar eigum við að búa, þótt þeir séu litlir hjá erfiðleikum annara þjóða, en þeir eru okkur sjálfum að kenna. Ég vil ekki draga úr þeim augnablikserfiðleikum, sem stafa af litlum sjávarafla undanfarin ár, þröngum markaði fyrir aðal útflutningsvöru okkar, saltfiskinn, og fjárpestina, sem herjar á mörg héruð landsins, því að þeir erfiðleikar, sem við eigum við að búa frá náttúrunnar hendi, eru þannig, að það á að vera unnt að yfirstiga þá. En það, sem rétt er að minnast á á þessum tímum, þegar við gerum upp styrk okkar og veikleika, er, að við höfum einskonar leyndan sjúkleika, sem ekki er eins einfaldur. eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Snæf. hélt. Eru þeir erfiðleikar, sem nú steðja að, tekjuhallarekstur, alls ekki núverandi ríkisstj. og hennar illu stuðningsmönnum að kenna. Þetta er miklu eldra mein en svo, að núverandi sfj. eigi sök á því. Hér er um nokkrar gamlar hneigðir Sjálfstfl. að ræða, hneigð til að forðast vinnu á kostnað annara og lifa léttu eyðslulífi. Þetta nær ekki til neins sérstaks flokks út af fyrir sig, en samt nær það minnst til stuðningsmanna Framsfl: Ef við lítum um öxl til ástandsins á Íslandi frá aldamótunum 1900 til stríðsáranna, þá er þar um hæga, rólega og örugga þróun að ræða, allar skuldir voru þá hjá einstaklingum, bæjarfélögum og ríkinu. En svo kom gróðatímabil stríðsáranna og mörgum fannst þeir verða ríkir, ekki aðeins þeir, sem voru það, svo sem forfeður hv. þm. Snæf., heldur líka fólk almennt. Ungir menn hugsuðu ekki mikið um, þótt þeir eyddu 50 kr. í að skreppa austur í Rangárvallasýslu með bíl. En þegar stríðsárunum, með hinum skjótfengna stríðsgróða, var lokið, þá var farið að taka lán.

Þetta dýra eyðslulíf nær til ailra stétta. Það nær ekki minnst til margra af samherjum hv. þm. Snæf. í pólitík. Eftir að stríðinu var lokið. varð þessi gróði fljótt uppétinn, og svo var farið að taka lán. Það var einn af stéttarbræðrum þessa hv-. þm., sem stóð fyrir því, að vísu tilneyddur, að taka fyrsta 10 millj. kr. lánið, árið 1921, til þess að halda við eyðslunni. Annar ágætur maður, sem líka var flokksbróðir þessa hv. þm., tók 8 millj. kr. lán erlendis á árunum 1923–1927, sem var flutt inn í landið. Svo tók Framsfl. 10 millj. kr. lán árið 1930, og síðan hafa mörg lán verið tekin erlendis, bæði af ríkinu, bæjarfélögum og einstökum mönnum. 9ð vísu hefir margt nýtilegt verið gert fyrir þetta fé, en eyðslustefnan hefir alltaf haldið áfram. Lífsvenjurnar frá árunum 1914–18 hafa haldizt við allt til þessa. Þegar kreppan skall á árið 1931, benti ég fyrstur manna á að við yrðum að snúa við og gera lífsvenjubreytingu. Þessu var ekki vel tekið, því að þá var settur í ráðherrastól sá linasti af þeim linu. Sú ráðstöfun var eingöngu gerð til þess að forðast átök og tryggja það, að stj. gæti haldið áfram að sitja við völd, án þess að nokkuð væri gert til þess að stöðva eyðsluna. En það, sem nú þarf að gera, er, að taka upp þráðinn frá 1913–14 eða, ef menn vilja heldur, þráðinn frá síðustu aldamótum. Við verðum að byrja á því að láta framleiðsluna bera sig. Við verðum að vinna undir tveim kjörorðum: „Allir eiga að vinna“ og „Framleiðslan verður að bera sig“. Ég vil enda þessi orð mín með því að minna á þessi orð. Í þeim er fólgin stefna okkar framsóknarmanna, sem við munum fylgja, þó að sumir menn virðist kjósa aðra stefnu, og þótt það kosti átök. Við munum gera alla þá menn að samherjum okkar, sem vilja starfa að lausn málanna á friðsamlegan hátt og virða rétt lög og rétt lands og þjóðar, vegna þess að hér er ekki um eins manns verk að ræða, heldur átak þjóðarinnar í heild. Það er spekulationsandinn, sem hefir lagzt yfir þjóðina og allir verða að hjálpast að að kveða niður.