12.03.1938
Neðri deild: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Frsm. (Jón Pálmason):

Frv. var borið undir bankastjóra Búnaðarbankans og flestar athugasemdir hans og þeirra í bankanum teknar til greina. Þær snertu aðallega formsatriði. Hitt er satt, að ekki varð að öllu leyti samkomulag í því. sem þetta frv. snertir. Hann telur, að þessi löggjöf ætti að vera í tvennu lagi. Búnaðarbankinn vill algerlega frábiðja sér það að taka umsjón nýbýlasjóðsins og byggingarstyrkjanna og óskar eftir, að ákvæðin um það séu ekki í þessu frv., heldur sérstökum lögum. — Eins og hv. þm. hafa sennilega tekið eftir, er það óbundið í frv., hvort sérstök yfirumsjón skuli fara með þetta eða það skuli falið Búnaðarbankanum, enda ganga skoðanir okkar nm. þar að mörgu leyti á misvíxl. Ágreiningurinn um þetta atriði við bankastjórann er því í rauninni aðeins um formsatriði. Hann álítur ekki eðlilegt, að bankinn fari með framkvæmd þessa, eins og sakir standa, en nefndin er á einu máli um, að hvað sem því líður, sé ekkert til fyrirstöðu, en að ýmsu leyti mikilsvert, að hafa löggjöfina í einu lagi. Ég tel enga hættu á, að úr þessu verði árekstur.

Það er ekki rétt, að breytingar þessa frv. séu aðeins formsatriði. Þar eru ýmis atriði, sem ég gæti farið út í, ef þörf gerðist. Þess skal getið, að hér er felldur niður kaflinn um sölu verðbréfa, sem voru skattfrjáls, og aðeins sett heimild í staðinn. En sá kafli hefir valdið miklum ágreiningi.