03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1939

Héðinn valdimarsson:

Ég ætla að segja nokkur orð um sameiningu Alþfl. og Kommfl., er var ætlazt til, að næði fram að ganga síðastl. haust. Slík sameining er ómöguleg, nema hún komist á þann grundvöll. sem báðum flokkum er sameiginlegur, er væri hinn sami sem norski verkamannaflokkurinn hefir samþ. En hér á landi er það hér um bil útilokað, að takast megi að byggja upp samvinnu Alþfl. og Rommfl., öðruvísi en á grundvelli sameiningarinnar. En hægri menn A1þfl. telja ógerlegt að semja um slíka sameiningu, heldur verði fyrst að leggja Kommfl. niður og alla starfsemi af hans hálfu.

Af umr. í gær var aðallega tvennt, er snerti Alþfl. í heild, afstaðan til sameiningar Alþfl. og Kommfl. í einn sósíalistaflokk, og afstaða Alþfl. til Framsfl., og snerta þó bæði þessi mál hvort annað.

EmJ, hv. 7. landsk. þm., neitaði að vísu ekki því. að sameining alþýðuflokkanna væri æskileg, en staðhæfði að hún væri ekki möguleg nema á kommúnistiskum grundvelli. Sá grundvöllur, er flokkarnir gátu sameinazt á á síðasta hausti, var ekki kommúnistiskur, heldur hinn sami sem norski verkamannaflokkurinn hefir, og stefnuskráin svo að segja hin sama; sameinaði flokkurinn skyldi vera utan beggja alþjóðasambandanna, kommúnista og sósialdemokrata, fyrst um sinn, og íslenzki Kommfl. að sjálfsögðu lagður niður við sameininguna og öll starfsemi af hans hálfu. Hinsvegar héldu hægrimenn Alþfl. því fram, að ekki væri nógu skýrt á kveðið um lýðræðisgrundvöll flokksins og hótuðu að segja sig úr lögum við aðra alþýðuflokksmenn — kljúfa flokkinn —, ef stefnuskránni yrði ekki breytt á þann hátt sem líklegt þótti, að Kommfl. gæti ekki gengið að. Varð það til þess, að við sameiningarmenn innan Alþfl. frestuðum í bili samþykkt þessarar stefnuskrár, sem vist var um, að gæti sameinað flokkana, og féllumst á að reyna leið hægri mannanna í það sinn. Kommúnistar gengu ekki að þeim till. breytingalaust og siðan hófst klofningsárás hægrimanna sambandsstjórnar á sameiningarmenn Alþfl., eins og kunnugt er. Það, sem aðallega var borið við af hálfu klofningsmanna, var, að það skildi flokkana, að kommfl. vildi ekki segja, að hann vildi taka völdin á lýðræðislegan og friðsamlegan hátt, hvort sem það tækist eða ekki. Hér í þinginu hefir þingflokkur Alþfl. hampað þessu, sérstaklega hv. þm. N. Ísf., VJ, og nokkuð líka hv. þm. Ísaf., FJ, og hv. þm. Seyðf. HG. Þetta er þó þvert ofan í fyrri yfirIýsingar Kommfl. um að flokkurinn óski einskis framar en að þessi leið takist, og er þetta áreiðanlega yfirskinsástæða hjá hægrimönnum.

En þessar ásakanir þeirra gefa tilefni til þess að athuga yfirleitt lýðræðisgrundvöIlinn í landinu, hvernig hann er og hvaða kröfur verður að gera til pólitískra flokka, sem vilja telja sig á lýðræðisgrundvelli.

Þó að kosningarétturinn sé fyrir atbeina Alþfl. orðinn almennur frá 21 árs aldri, þá er hann ekki til alþingiskosninga jafn að sama skapi, en þá kröfu verður að gera til kosningaréttar í lýðræðislandi. Enn er kjördæmaskipunin úrelt og ójöfn og kosningarréttur kjósenda því mismunandi, eftir því í hvaða kjördæmi þeir eru búsettir. Stjórnmálaflokkarnir í landinu fá ekki hluttöku á þingi eftir atkvæðamagni þeirra í landinu. Gengur þetta sérstaklega út yfir verkIýðsflokkana, en er til framdráttar einum flokki, Framsfl. Stjórnmálaflokkar þeir, sem krefjast Iýðræðisgrundvallar fyrir sjálfa sig og aðra, eins og Alþfl., verða því að krefjast algerðrar breytingar á þessu, réttlátrar kjördæmaskiptingar, Iýðræðisgrundvallar fyrir æðstu stjórn landsins, Alþingi. Framsfl. sem vill telja Kommfl., eins og hann er nú, fyrir utan þjóðfélagið, og að ekki sé hægt að hafa samstarf við hann vegna þess. að hann starfi ekki á lýðræðisgrundvelli, verður þá að sýna sjálfan sig sem Iýðræðisflokk með því að fallast á og jafnvel gangast sem stjórnarflokkur fyrir stjórnarskrárbreytingu, er komi á réttlátri kjördæmaskipun, jöfnum kosningarrétti, lýðræðisgrundvelli, fyrir sjálft Alþingi. Undirtektir undir þetta mái eru prófsteinn á, hversu einlægt mál lýðræðið er fyrir flokkunum. Hingað til er það einmitt Framsfl., sem hefir barizt gegn því, að löggjöfin kæmi á lýðræðisgrundvelli fyrir æðstu stjórn landsins. Aftur á móti hefir Alþfl. ávallt haft forustuna í þeim málum, en nú hefir með málefnasamningslausu samstarfi við Framsókn orðið algerlega hljótt um þau, og er full þörf á að halda þeim málum vakandi.

En „miskunnsemin á að hefjast heima fyrir“, og lýðræðisflokkar eiga fyrst og fremst að starfa sjálfir á lýðræðisgrundvelli. Enda er það í raun og veru eina tryggingin fyrir, að stjórnmálalífið í landinu sé yfirleitt á Iýðræðisgrundvelli.

Sjálfstfl. starfar yfirleitt ekki á lýðræðisgrundvelli. Þingfl. hans og miðstjórn er mestu ráðandi, en sambandið við kjósendurna utan kosninga losaralegt, og þeir hafa engin tök á innan síns flokks að koma fram áhugamálum sínum á félagslegan hátt. Flokksþing sjálfstæðismanna eru fámenn af kosnum fulltrúum frá félögum. Flestir fulltrúarnir eru sjálfkosnir eða boðnir og skipaðir af miðstjórninni, og flokksþingið hefir engin veruleg pólitísk áhrif. Flokknum er aðallega stjórnað af fámennri klíku stóratvinnurekenda og atvinnustjórnmálamanna.

Framsfl. var lengi svipað skipulagður, nema hann náði aðallega til bændastéttarinnar. En fyrir fáum árum var myndaður sæmilegur vísir flokksskipulags á breiðum grundvelli, lýðræðislegum í aðalatriðum, þó að einnig þar séu þingflokknum gefin sérstök völd í þingmálum gagnvart flokknum. Þessi flokkur er samt í innra skipulagi sínu að verða lýðræðisflokkur, og flokksþing hans hin síðustu hafa verið fjölmenn og haft fulltrúa víða að.

Alþfl. var stofnaður af verklýðsfélögunum, þannig að samband þeirra og jafnaðarmannafélaga Alþýðusambands Íslands hafði bæði pólitísk og fagleg mál í senn, var bæði stéttarsamband og Alþfl. — Jafnaðarmannafélög hafa lengst af verið fá og fámenn, þungamiðjan verið verklýðsfélögin, en fulltrúar félaganna, kosnir á lýðræðislegan hátt, hafa skipað sambandsþing og kosið sambandsstjórn. Var þetta lengst af fullkomlega lýðræðislegur grundvöllur, og byggt á því, að verklýðsfélögin væru að meirihluta til fylgjandi Alþfl.

Eftir 1930, er Kommfl. klofnaði frá Alþfl., varð á þessu stórbreyting. Verkalýðsfélögunum var nauðsyn að vera í félagasambandi innbyrðis, hvað sem stjórnmálunum leið, og þau kusu því að halda áfram að vera í Alþýðusambandinu, enda þótt meiri hluti meðlimanna fylgdi ekki ávallt Alþfl. Rommfl. varð hinsvegar sjálfstæður stjórnmálaflokkur, en meðlimir hans margir áfram í verklýðsfélögunum með atkvæðisrétti um þeirra mál og þar með Alþfl., eins og aðrir verklýðsmenn. Þá var gerð af sambandsþingi Alþýðusambandsins bráða- birgðalagabreyting, er miðaði kjörgengi til sambandsþings við það, að menn væru alþýðuflokksmenn, til þess að vernda hina pólitísku hlið Alþýðusambandsins frá því að sprengjast. En í huga var haft, að samfara þessu yrði að byggja betur upp pólitískt skipulag, þar sem flokksmenn einir hefðu aðgang. Þessi ákvæði hafa síðan staðið. Hið pólitíska skipulag hefir að litlu leyti verið byggt upp, þó að ég og ýmsir aðrir hafi lagt á það ríka áherzlu innan flokksins. Helzt hefir það þó orðið einmitt á síðasta ári, og má þar nefna til vöxtinn í Jafnaðarmannafél. Reykjavíkur. En á 7 árum hafa þessi ákvæði verkað skaðlega bæði fyrir verkalýðssamtökin og Alþfl., af því að skipulagsstarf, sem átti að gera í sambandi við þau, hefir ekki verið unnið. Og nú er hjá öllum þorra alþýðuflokksmanna samkomulag um, að skipulaginu verði að breyta. Eins og nú er háttað málum, hafa að vísu allir meðlimir verklýðsfélaga sambandsins og jafnaðarmannafélaga kosningarrétt á fulltrúum til sambandsþings, sem ákveður bæði um félag og pólitísk mál en kjörgengi hafa aðeins alþýðuflokksmenn. Í faglegu málunum er það ástæðulaust með öllu að gera ekki öllum meðlimum stéttarfélaganna, sem eru opin, jafn hátt undir höfði. Auk þess er kosið á þingið með mjög mismunandi fyrir augum, hjá sumum félögum eftir faglegum línum, en hjá öðrum eftir stjórnmálalit, og þingið verður þannig undarlegt sambland af faglegu og pólitísku fulltrúaliði. En þar að auki verður kosningin í þeim félögum, þar sem ekki er einmitt alþýðuflokksfylgi, oft komin undir því, hvernig þeir meðlimir félaganna, sem fylgja ekki Alþfl., kjósa. Þeir geta oft ráðið um, hver alþýðuflokksmaðurinn verður kosinn. Loks verður þetta ákvæði einnig oft til þess, að menn undirrita skuldbindingar um, að þeir séu alþýðuflokksmenn, til þess að geta setið á þingum vegna faglegra mála þar. Á þennan hátt verður sambandsþingið hvorki rétt fulltrúaráð fyrir hin faglegu mál né fyrir Alþfl., og háðar hliðar alþýðusamtakanna hafa lamazt við þetta. En við allt þetta má svo bæta því, að hvað stefna Alþfl. sé, hvað sé að vera alþýðuflokksmaður, markast af þessum þingum einum, en aðgangur að þeim hefir verið mest kominn undir úrskurðum sambandsstjórnar um inntöku félaga og framkvæmd á stefnu flokksins. Á þennan hátt hefir flokksvaldið annarsvegar einangrazt hjá sambandsstjórninni, en hinsvegar hið lýðræðislega samband við hinn breiða flokk meðlimanna horfið eða orðið mjög losaralegt og óljóst. Þetta hefir haft þau áhrif, því meir, sem þetta ástand hefir lengur staðið, að sambandsstjórnin hefir meira og meira vanrækt að gæta hinnar faglegu yfirstjórnar og látið hana í hendur einum einasta önnum köfnum starfsmanni, en fært sig yfir á pólitíska sviðið og þar gengið meira og meira inn á fámennisstjórnarfyrirkomulagið, með allskonar samningamakki og áhrifum manna, sem tiltölulega lítil ítök höfðu hjá fólkinu, án þess að sambandsstjórn gæti treyst eða vildi treysta á hinn breiða lýðræðislega kjósendagrundvöll í starfsemi sinni.

Verklýðsfélögin eru á lýðræðislegum grundvelli. Allir meðlimir hafa þar kosningarrétt og kjörgengi til starfa innan félagsins. Alþýðusambundið sem heild er ekki á lýðræðislegum grundvelli sem stéttarsamband, þar sem allir meðlimir félaganna hafa ekki kjörgengi í allar stöður þess. Og sem stjórnmálaflokkur er það ekki skipulagt á lýðræðislegan hátt, þar sem utanflokksmenn hafa atkvæði um kosningar og úrslit mála þess. Fyrir hvaða flokk sem er hlýtur slíkt skipulag að vera stórskaðlegt og óhæft til lengdar, og fyrir sósíalistiskan flokk er það með öllu óþolandi.

Innan Alþfl. hafa því sameiningarmennirnir í sambandi við sameiningu verklýðsflokkanna gert kröfur um, að næsta sambandsþing geri á þessu breytingu: Stéttasambandið verði Alþýðusambandið, það verði faglegt og afnumin flokksskuldbindingin til kjörgengis; en verklýðsflokkarnir sameinist hinsvegar í einn pólitískan flokk, Alþýðuflokk Íslands, undir sínu sérstaka lýðræðisskipulagi, þar sem einungis flokksmeðlimir hafi kosningarrétt og kjörgengi, en flokkurinn geti náð yfir bæði stjórnmálafélög og verklýðsfélög, þó aðeins þá meðlimi verklýðsfélaga, sem telji sig til flokksins, og verði þannig fullt samstarf við verkalýðinn. Þessi baráttu okkar er fyrir því að koma Alþfl. og Alþýðusambandinu á hreinan lýðræðisgrundvöll og gera með bættu skipulagi bæði stéttasambandið og hinn sameinaða flokk fært um að leysa af hendi hlutverk sitt fyrir alþýðuna á Íslandi.

En hvaðan kemur svo aðalmótstaðan gegn þessu? Einmitt innan úr sambandsstjórninni og þingflokknum, þar sem völdin hafa á óeðlilegan hátt safnast um of. Nú berjast sömu mennirnir, sem ekki þykjast geta sameinazt kommúnistunum í einum flokki vegna þess, að lýðræðisgrundvöllur stefnuskrárinnar sé ekki nógu glöggt orðaður, gegn því, að Alþfl. og Alþýðusambandið komist á réttan lýðræðisgrundvöll. Og sömu mennirnir, sem mest tala um grundvöll laga og réttar, reyna innan Alþýðusambandsins — án laga og réttar — á allan hátt að kæfa niður raddir fólksins í flokknum og sambandinu. Þeir reyna að halda undir sinni fámennisstjórn tækjum flokks og stéttarsambands, blaði, eignum og nafni. hvað sem það kostar, og skirrast ekki við að stofna til klofnings alþýðusamtakanna um allt land af þessum valdaástæðum. En þá afstöðu hyggjast þeir svo að geta notað aftur til samninga við Framsfl. um þátttöku í ríkisvaldinu. — og þá hverjum til hags? Fámennri stjórn Alþfl.

Ég hefi tekið þetta mál svo nákvæmlega fyrir hér vegna þess. að fyrst og fremst er undir lausn þessara mála Alþýðusambandsins komið, hvernig hin pólitíska framtíð ísl. alþýðu verður, því að sköpun sterks og starfandi stéttarsambands annarsvegar og sterks sameinaðs sósíalistisks flokks hinsvegar, á fullkomnum lýðræðisgrundvelli, er skilyrði fyrir vexti og þroska og sjálfstæði alþýðuhreyfingarinnar, ekki siður hér en á öðrum Norðurlöndum, og í öðru lagi hefir slík umsköpun Alþfl. hin mestu áhrif einmitt á sigurför lýðræðisins meðal allrar íslenzku þjóðarinnar.

Einmitt þetta skapar ábyrga stjórnmálaflokka, en ekki ábyrgðarlausa þingflokka.

Þetta skapar þann grundvöll, sem getur gert varanlegt málefnasamstarf mögulegt milli lýðræðisflokkanna — milli sveitaalþýðunnar og frjálslyndu mannanna í Framsfl. annarsvegar og verkalýðsins og sósíalistanna í hinum sameinaða sósíalistiska lýræðisflokki hinsvegar –staðið á verði um sjálfstæði þjóðarinnar, bætt kjör hennar, aukið frelsi hennar og menningu.