08.04.1938
Efri deild: 44. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Frv. það, sem hér liggur fyrir og landbn. gerir lítilsháttar brtt. við á þskj. 187, mun hafa verið undirbúið fyrir þetta þing að tilhlutun hæstv. ráðh., sem hefir með því látið færa í eina heild þau l. og lagafyrirmæli, sem áður giltu um byggingar- og landnámssjóð, nýbýlasjóð og um endurbyggingu á sveitaheimilum. Til viðbótar hefir verið felldur inn í frv. kafli um teiknistofu fyrir byggingar- og landnámssjóð og ræktunarsjóð. Landbn. hefir lesið þetta frv. yfir og borið það saman við þau l., sem hér er steypt saman, og ennfremur hefir það verið sent stjórn Búnaðarbankans til umsagnar og höfum við fengið umsögn hennar. Hún er yflrleitt með því að samþ. frv., en gerði þó till. um, að ein lítil breyt. yrði gerð, sem við höfum tekið til greina.

Áður en ég kem að brtt. okkar, skal ég leyfa mér að benda á þau einstöku atriði í frv., sem eru dálítið frábrugðin því, sem nú er í l., fram yfir það, sem ég hefi þegar minnzt á viðvíkjandi teiknistofunni.

Í 3. gr. er nú gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi árlegu fram 200000 kr. til byggingar- og landnámssjóðs, en það var áður 250000 kr. Það er ætlazt til þess, að þessi 50000 kr. mismunur komi fram sem aukið framlag til endurbyggingar á sveitabýlum, svo að í raun og veru er hér er ekki um sparnað að ræða, heldur tilfærslu. Þetta er nærri það eina, sem þarf að taka fram fyrir utan brtt. okkar.

Í fyrsta lagi höfum við gert þá brtt. við frv., að aftan við 7. gr. bætist nýr tölul., aftan við þá 6, sem í gr. eru, og hljóðar hann, eins og segir í nál. á þskj. 187. Það hagar, eins og kunnugt er, mjög víða þannig til í sveitum, að bæir eru mjög óskipulagðir. Ef við förum eftir einhverjum dalnum hér á landi, þá sjáum við, að yfirleitt liggja bæirnir í röð sitt hvoru megin ár eftir dalnum endilöngum, og ef við hugsum okkur, að í framtíðinni verði lagður sími og rafleiðsla eftir dalnum endilöngum, þá standa bæirnir sitt á hvað, en mynda ekki samfellt kerfi eða röð, svo að það verður dýrara að leggja síma, vegi, rafleiðslu og annað slíkt um dalinn, heldur en annars þyrfti að vera. Jafnframt kemur það í ljós, að gömlu bæjarstæðin voru valin á sínum tíma dálítið með tilliti til annars en nú er gert. Vaninn er ríkastur hér, eins og annarsstaðar, og þess vegna er það víða svo, að þar sem menn endurbyggja á sveitabæjum, þá er byggt á gömlu rústunum, þó að hitt sé líka til, að bæjarstæðin séu færð. Það hefir verið talað mikið og allvíða um það á síðari árum, að nauðsynlegt væri að breyta þessu og færa marga gömlu bæina úr stað, suma alveg og aðra meira eða minna, til þess að gera ýmislegt léttara, sem menn sjá, að muni koma þar á næstu árum eða áratugum, svo sem sími, rafmagn og annað slíkt, en við förum ekki fram á slíka breyt., en gerum till. um, að þegar reist verða ný bæjarhús á einhverjum sveitabæ og styrkur er veittur til þess, þá liggi fyrir vottorð frá trúnaðarmanni Búnaðarfélags Íslands í viðkomandi sveit um það, að bæjarstæðið sé heppilega valið. Hvort þetta gæti orðið byrjun að því að móta þetta síðar meir í fastara kerfi, er framtíðarinnar að sýna. Mér finnst sjálfum, að þetta gæti verið vísir í þá átt.

Önnur brtt., sem við gerum, er ósköp litilfjörleg. Í 9. gr. eru talin upp ýms innlend byggingarefni, sem ekki er ætlazt til, að tekið sé tillit til sem kostnaðarliðs, þegar lán eru veitt. Það kann að vera, að þessi upptalning sé nokkurnveginn tæmandi, en okkur fannst réttara að bæta því við, að fleiri efni gætu heyrt undir þetta heldur en upptalningin nær yfir.

Í 3. brtt., sem er við 12. gr., er í fyrsta lagi lagt til, að 1. tölul. falli niður. Við teljum hann óþarfan, af því að það, sem í honum felst, er búið að taka fram áður í 2. tölul. 7. gr. Í öðru lagi breytum við ofurlítið orðalagi á 2. tölulið, sem ekki raskar meiningunni á neinn hátt. Loks gerum við talsverða efnisbreyt. á 4. tölul., bæði frá því, sem er í 7. núna, og eins frá því, sem var í frv., þegar það kom frá hv. Nd. Nú er það svo, að til þess að leyfilegt sé að veita styrk til þess að endurreisa hús á sveitabýlum, þá má fasteignamat á bæjarhúsum ekki vera yfir 1000 kr., og þegar þetta var samþ. nú fyrir 2–3 árum, fór fram rannsókn á því, hve margar jarðir væru til á landinu, sem hefðu svo léleg bæjarhús. Við Jón á akri framkvæmdum þessa rannsókn í landbn. Nd. og komumst að þeirri niðurstöðu, að þær væru kringum 1000. Nú hefir verið mikið sótt eftir þessum byggingarstyrk, og það hefir sýnt sig, sérstaklega með gömul timburhús, að þau hafa viljað vera hærri í mati en þessar 1000 kr., en þó verið orðin svo léleg, að menn hafa yfirleitt verið sammála um, að það þyrfti að byggja þau upp, því að þau hafa verið lítt eða ekki hæf sem mannabústaðir. Þess vegna lagði hv. landbn. Nd. til, að þetta yrði hækkað upp í 2000 kr. Þetta fannst okkur fullhátt, með tilliti til þess, að enn mun ekki vera búið að byggja á meira en kringum 2–300 af þeim hér um bil 1000 jörðum, sem á voru bæjarhús, sem voru það léleg, að aðalfasteignamatið var fyrir neðan 1000 kr., og töldum við þess vegna rétt að færa þetta ákvæði niður í 1500 kr. Til þess þó að útiloka ekki hinar jarðirnar, höfum við bent á það, að milli fastelgnamata er að l. heimilt að láta fara fram millimat, ef húsin falla mikið í verði, og þá gæti það millimat komið til greina og úrskurðað, að gamalt timburhús, sem metið hefir verið á meira en 1500 kr. við síðasta aðalfasteignamat, hafi gengið úr sér á tímabilinu frá því, að matið fór fram, og þangað til á að fara að byggja upp, og væri orðið minna virði en 1500 kr., svo að eigandi þessa húss gæti komið til greina með styrk. Það er vafasamt hvar þetta mark á að liggja, en úr því að á annað borð er verið að hafa eitthvert hámark, en ekki höfð sú regla, að láta það heyra undir mat manna á hverjum stað, hvort þörf sé á styrk, þá mun þetta 1500 kr. mat vera nokkuð hæfilegt.

Þá leggjum við til, að við 13. gr. sé bætt nýjum málsl., er orðist þannig, að þeir umsækjendur um lán og styrk skuli að öðru jöfnu ganga fyrir eftir þessum 1., sem hafa orðið fyrir einhverjum óviðráðanlegum skaða á efnum sínum, og höfðum við þar í huga jarðskjálfta, sem gætu fellt bæina, o. fl., og álítum við rétt. að menn, sem yrðu fyrir slíku tjóni, ættu að ganga fyrir öðrum í þessu etni, enda þótt þeir ættu lélega bæi, og sömuleiðis fannst okkur rétt, að þeir menn gengju einnig fyrir, sem yrðu fyrir svipuðu tjóni og átti sér stað í vetur, þegar 2 bæir fuku alveg burt, svo að það voru engin bæjarhús eftir. Ég geri nú ráð fyrir, að menn, sem verða fyrir tjóni af óviðráðanlegum orsökum, hefðu verið látnir ganga fyrir að öðru jöfnu í þessu efni, þegar til framkvæmdanna hefði komið, en það spillir ekki að taka það fram.

5. og 6. brtt. eru aðeins leiðréttingar á prentvillum, sem í frv. voru.

Í 7. brtt., sem er við 23. gr., er aftur á móti efnisbreyt., bæði frá því, sem frv. er nú, og líka frá því, sem n. í hv. Nd. lagði til. Nýbýlanefnd er í lögunum, sem nú gilda, ætluð 10 kr. þóknun fyrir hvern fund, þó ekki yfir 300 kr. til hvers nefndarmanns. Þetta er mjög lítilfjörleg borgun. samanborið við borgun fyrir önnur nefndarstörf. Annars eru allar nefndir og starfsmenn, sem vinna fyrir landbúnaðinn, miklu lægra launuð en við aðra atvinnuvegi (SÁÓ: Þetta er nú bara að hálfu leyti rétt.). — Ég gæti sannað það með nógum dæmum. Dagpeningar á ferðalögum í þágu landbúnaðarins eru 5 kr. á dag. en fyrir alla aðra, sem ferðast í þágu þess opinbera, í hvaða skyni sem er, 8–12 og upp í 20 kr. á dag. Ég gæti borið saman nefndir eins og fastelgnamatsnefnd og fiskimálanefnd og fengið svipaða útkomu. — Eins og frv. lá fyrir, var það á valdi ráðherra, hvað borga skyldi þessum mönnum, en við leggjum til, að hámarkið verði 500 kr.

Þá er 8. brtt. við 37. gr. aðeins orðabreyting, og sama er að segja um brtt. 9 a. og b. við 12. gr.

Loks er 10. brtt., við 45. gr. Eins og frv. kom frá hv. Nd., var svo ákveðið, að aðstoðarmenn skyldu ráðnir af landbrh. En okkur þótti réttara, að þeir væru ráðnir af stjórn Búnaðarbankans í samræmi við ráðning annarra starfsmanna í bankanum, enda lagði stjórn Búnaðarbankans til, að svo yrði.

Með þessu ætla. ég, að gerð sé nokkur grein fyrir þessum 10 brtt. Að efni til eru þær ekki miklar. Það er þá aðallega 1. brtt., um vottorð trúnaðarmanns, brtt. 3 e. um hámarksmat, og 7. brtt., um að hækka hámarkið fyrir þóknun úr 300 í 500 kr. Kannske mætti líka nefna 4. brtt., um, að þeir umsækjendur skuli að öðru jöfnu ganga fyrir, sem orðið hafa fyrir verulegu tjóni á eignum sínum vegna óviðráðanlegra orsaka.

Með þessum brtt. leggur nefndin til, að frv. verði samþykkt, og telur það töluvert til bóta að hafa þetta allt á einum stað, sem fyrr var í fernum lögum.