08.04.1938
Efri deild: 44. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Ég held, að ekki þýði að ætlast til, að nefndin verði sammála um að orða gr. að nýju. Ég vildi setja „tjón á húseignum“ í staðinn fyrir tjón á eignum. En ég geri ekki ráð fyrir, að hv. meðnm. mínir séu fremur með því nú en þá.

Viðhorf mitt skýrist, ef litið er á 2. tölulið 7. gr., sem ég vil lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „Lánin eru veitt með þessum skilyrðum: ... 2. Að hann sanni með síðustu skattskýrslu sinni, staðfestri af skattanefnd, að hann eigi svo mikil efni sem nauðsynleg eru til búrekstrar á jörðinni, en geti ekki af eigin rammleik reist íbúðarhús á henni“.

Ég hygg, að þessi liður takmarki það gróflega mikið, að hægt sé að nota 4. liðinn í brtt. okkar í því augnamiði, sem hv. 6. landsk. talaði um. Ég hygg hann útiloki þá menn, sem eiga 5, 8 eða upp í 30 kindur af mörgum hundruðum áður og 2–3 kýr. Það er ljóst, að þeir menn hafa ekki nauðsynlegan bústofn til að koma hér til greina. Þó. að Alþingi samþykki þennan lið, eins og hann er, væri þeim lítil bót að því. Eða er það alvara sjálfstæðismannsins hv. 6. landsk., að láta lánsféð ganga til manna, sem svo eru farnir, að ríkið þarf að borga vextina af eldri skuldum þeirra og hjálpa þeim á margan annan hátt til þess bara að lifa? Já. Hann telur þeim mesta nauðsyn á að fá 6 þús. kr. byggingarlán, til þess að ríkið fái að borga vextina af því líka. En þetta er bara ekki hægt. Byggingarlán verður ekki veitt, nema þar sem lögmætar ástæður eru fyrir hendi.