11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

Þorsteinn Þorsteinsson:

Breytingar þær á frv., sem hér liggja fyrir, eða efni þeirra, voru töluvert ræddar við 2. umr. málsins; þarf því ekki að tala um þær langt mál nú.

Frá hv. 1. þm. N.-M. kom fram á milli umræðna brtt., þar sem farið er fram á, að þeir gangi fyrir lánum til bygginga, að öðru jöfnu, sem orðið hafa fyrir verulegu tjóni á húseignum sínum, vegna óviðráðanlegra orsaka, svo sem jarðskjálfta. bruna, stórviðra o. s. frv. Um þetta er vitanlega ekki nema gott eitt að segja. En þar sem hv. þm. vili ekki láta þennan forgangsrétt ná nema til þeirra, sem orðið hafa fyrir tjóni á húseignum, þá finnst okkur hv. 11. landsk. það ekki fyllilega ná tilgangi sínum. Við lítum nfl. svo á, að þetta eigi einnig að ná til þeirra, sem orðið hafa fyrir tjóni á búfjárstofni sínum, og því flytjum við þessa brtt., sem nú liggur fyrir á þskj. 227, þar sem þetta er tekið fram, og ennfremur hitt, að tjónið megi ekki stafa af misfellum hjá búfjáreiganda. Ég mun að sjálfsögðu ekki fara að leggja út í karp um þetta, en vænti þess fastlega, að hv. dm. líti sanngjörnum augum á málið, að þeir eigi frekar að ganga fyrir um lán, sem orðið hafa fyrir óviðráðanlegu tjóni, og það jafnt hvort sem tjónið hefir orðið á húseignum þeirra eða búpeningi, svo fremi sem tjónið getur ekki talizt stafa af handvömm lánbeiðanda.