11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Landbn. hefir ekki sem slík tekið afstöðu til brtt. á þskj. 217. Það, sem ég því segi um þær, er sagt á minn reikning, en ekki n. sem heildar.

Þessi vísir að teiknistofu, sem lagður er í frv., er ekki annað en að teiknistofu Búnaðarbankans er ákveðinn fastari rammi. Að gert er ráð fyrir, að teiknistofan leiðbeini í húsgagnagerð eða smiði húsgagna, er sökum þess, að maður finnur mjög til þess, að það er ekki til neinn still í íslenzkri húsgagnagerð. Hinn gamli still er horfinn, og í stað hans kominn einskonar grautur. Það er hugsun þeirra manna, sem að þessu standa, að það komi upp verkstæði í sambandi við Búnaðarskólana og héraðsskólana. sem smíði húsgögn, og geti frá teiknistofunni fengið fyrirmyndir og leiðbeiningar til þess að fara eftir. Nú vill hv. flm. till. á. þskj. 217 líka láta teiknistofuna veita leiðbeiningar í vefnaði, að því er mér skilst. Það er hannyrðakona, sem á að leita ráða til, og teiknistofan á þá að gefa leiðbeiningar í hannyrðum og þesskonar, og þá líklega helzt í vefnaði. Ég er ekki viss um, hvort á þessu stigi málsins er tímabært að setja þetta inn í teiknistofuna. Mér skilst, að enn sem komið er sé sjálft smiði húsgagnanna dálítið á öðru verksviði heldur en það, hvaða „munstur“ sé á gluggatjöldum eða hvaða „betrekk“ sé sett á stólana. Ég álít því mjög vafasamt, hvort eigi að láta teiknistofuna fá það víðan ramma, að hún taki líka til sín kennara í þessari grein, sem verði þar á stofunni og gefi leiðbeiningar og fyrirmyndir. Mér skilst, að það sé enn svo hér á landi, að verkaskipting milli kvenna og karla sé þannig. að kvenfólk vinni tiltölulega lítið að smiðum. Ég man þó eftir 3 stúlkum, sem vinna að smíði á húsgögnum og öðru, en þetta eru undantekningar. Ég er ekki viss um, að það sé heppilegt, að koma af stað við húsmæðraskólana slíkum verkstæðum, svo þar sé farið að vinna að slíku. Mér finnst þess vegna, að þótt svo kunni að fara, með vaxandi þroska þessarar stofnunar, sem hér er að fæðast á pappírnum, að það geti orðið tímabært, að hún láti til sín taka vefnað á gluggatjöldum og þess háttar, þá sé varla hægt að gera ráð fyrir því, að hún hlaupi strax af stokkunum svo vaxin. Þess vegna mun ég verða á móti brtt. á þskj. 217, enda þótt ég viðurkenni fullkomlega og telji sjálfsagt, að það þurfi ekki siður að vinna að því að koma á íslenzkum stíl í gluggatjöldum og „betrekki“ á stóla. En ég geri ráð fyrir, að ef það heppnast, að láta fara héðan úr þinginu lög um húsmæðraskóla og húsmæðrakennaraskóla, þá muni þar fást grundvöllur, sem geti orðið til þess að skapa stíl í þessum efnum hér á landi. Enn sem komið er, þá finnst mér þetta ekki eiga heima í teiknistofunni, því að hún yrði þá að fá annað nafn a. m. k. En það kann vel að vera, að í framtíðinni finnist mönnum réttmætt að taka þetta upp líka.

Þá er það brtt. á þskj. 212. Ég var að vísu búinn að tala fyrir henni við 2. umr., en nú er komin við hana brtt. á þskj. 227 frá meðnm. mínum í landbn. Þar er sami ágreiningur um sjónarmið eins og áður hefir verið. Ég álít, að eins og það er sjálfsagt, að láta þá menn sitja fyrir, sem verða fyrir skakkaföllum á húsum sínum, en eiga bústofn sinn óskertan og geta því risið undir láni og lagt fram það, sem þarf, til að geta komið húsi upp, en það er alltaf a. m. k. 3/17 eftir frv., og oft miklu meira, þá sé það eins mikil fjarstæða, að hugsa sér að geta rétt við fjárhag manns, sem búinn er að missa bústofn sinn, með því að veita honum nýtt lán og íþyngja honum með n4jum vöxtum og afborgunum. Það verður að mæta þeim skakkaföllum á annan hátt. Ég álít því, að það sjónarmið, sem kemur fram í brtt. meðnm. minna á þskj. 227 eigi ekki að koma til greina, og það eigi því að feila brtt. Ég get sætt mig við, að mín till. verði felld líka, því að ég ber það traust til þeirra manna, sem verða við stjórn þessara lánveitinga í framtíðinni, að þeir muni láta þessa menn ganga fyrir. En hitt finnst mér líka vel viðeigandi, að þingið tæki það fram, að það ætlaðist til þess, að þeir væru látnir ganga fyrir. Mér finnst því rétt að samþ. hana, en það er sem sagt sársaukalaust frá minni hálfu, hvort heldur er. Ég er líka viss um. að þótt brtt: á þskj. 227 verði samþ., þá verði hún aldrei að gagni, ef l. að öðru leyti væri hlýtt. Ég vona, að það verði aldrei þeir menn við stjórn þess, sem um ræðir í þessu frumvarpi, að þeim detti í hug að lána mönnum, sem ekkert hafa til að borga með vexti eða afborganir. Það verður að hjálpa þeim á annan hátt heldur en með því, að láta þá hafa ný lán.