11.04.1938
Efri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Guðrún Lárusdóttir:

Ég er hrædd um, að hv. 1. þm. N.-M. hafi misskilið mig áðan. Mér virtist í ræðu hans koma í ljós, að brtt. mín yrði til þess að koma á stað einhverjum býsnum, og það yrði að bæta svo við starfsemina á teiknistofunni, að hún yrði langt of mikil. Það vakti ekki fyrir mér, heldur hitt, eins og ég ætlaði að taka fram, og eins og ég held, að ég hafi gert, að teiknistofan notaði sér þá starfs­krafta, sem fyrir hendi eru, í þessu tilfelli hannyrðakvenna, þegar til þess kemur að velja upp­drætti á húsgagnafóður og ýmislegt, sem að húsgögnum lýtur. Mér er kunnugt um, að hér eru konur, sem hafa kynnt sér slíka uppdrætti á Norðurlöndum og setið á söfnum í Svíþjóð og víðar, þar sem viðurkennt er, að falleg „munstur“ séu. Mér finnst það óþarfa eyðsla, að láta slík verðmæti verða að engu fyrir notkunarleysi. Þegar um það er að ræða að koma upp teiknistofu, sem leiðbeini almenningi um þessi mál, þá er það í raun og veru sjálf­sagt að nota slíka krafta, úr því að þeir eru til. Það getur ekki undir neinum kringumstæð­um gert teiknistofunni sérstaklega erfitt fyrir eða aukið mikið kostnaðinn, þótt leitað sé að­stoðar þessara kvenna, engu síður en hinna, sem upp eru taldir. Ég fæ því ekki séð, að það geti út af fyrir sig gert málinu neinn óleik. Mér sýnist það þvert á móti bæta heldur fyrir, og ég myndi beinlínis sakna þess, ef það kæmist ekki inn í frv. Hér er um töluverð verðmæti að ræða, sem ekki mega glatast. En það er hætt við, að það fyrnist smátt og smátt yfir allt, sem liggur ónotað. Hér er um að ræða konur, sem hafa orðið að sigla til annara landa til að kynna sér slíka hluti, og hér er á sérstakan hátt tækifæri til þess að notfæra sér þá þekk­ingu, sem þær hafa aflað sér. — Hvað snertir áframhaldið af því, sem ég hefi hér sagt, þá er það ekki nema sjálfsagt, að ef verkstæðum er komið fyrir á bændaskólunum, þá sé verkstæð­um einnig komið fyrir á húsmæðraskólunum, enda er það komið að nokkru leyti, þar sem vefstólarnir eru. Þá njóta húsmæðraskólarnir sömu hlunninda og bændaskólarnir um tilsögn og aðstoð frá teiknistofunni. Og um annað er ekki að ræða í brtt. minni. Þetta er svo ein­falt mál, og ekki svo fyrirferðarmikið, svo að hv. þm. þarf ekkert að óttast, og er honum alveg óhætt að greiða atkv. með brtt. minni.