23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Bjarni Ásgeirsson:

Landbn. hefir athugað þær breyt., sem gerðar voru á frv. í hv. Ed. Flestar þeirra mun hún láta kyrrar liggja, þótt henni þyki ýmsar af þeim sízt til bóta. En tvær brtt. vill hún gera til að færa frv. aftur nær því, sem það var við afgreiðslu héðan. Önnur er við 7. gr., um að fella niður 7. liðinn, sem þar er nú og var bætt við í Ed. Þar er það gert eitt af skilyrðunum fyrir styrk og láni, að fyrir liggi yfirlýsing frá trúnaðarmanni Búnaðarfélagsins um, að býlið sé vel í sveit sett, hafi gott vatnsból o. s. frv. N. virðist ákvæðið óþarft, vegna þess að það er föst venja hjá teiknistofu Búnaðarbankans að rannsaka, hvort þessi skilyrði, sem þarna eru talin upp, séu fyrir hendi. Það virðist nægja. Á hinn bóginn er þetta ákvæði mjög til hins lakara fyrir umsækjendur, af þeim ástæðum, að eftirlitsmaður Búnaðarfélagsins hefir eftirlit og framkvæmdir með höndum á stóru svæði, oft yfir margar sýslur, svo að kostnaðarsamt getur orðið að ná í hann til að athuga staðhætti. Sami maðurinn hefir t. d. eftirlitið í Árnes-. Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum og getur ekki verið á öllum stöðunum undir eins. Ef maður austur í Fljótshverfi t. d. vill sækja um byggingarlán, verður hann kannske að fá eftirlitsmanninn frá starfi í Árnessýslu austur þangað með ærnum kostnaði, til þess að geta fengið þetta tilskilda vottorð. — Ég þarf ekki að henda á fleiri dæmi til að sýna, hve ákvæðið er óheppilegt.

Þá er hin brtt., við 12. gr., um að hækka úr 1300 kr. í 2000 kr. hámark fasteignamats á húsum, þar sem leyft skal að styrkja endurbyggingu samkv. frv. Þetta hámark var hækkað hér upp í 2000, en hv. Ed. vill aftur lækka það niður í 1500. Það hefir sýnt sig glöggt, að mörg timburhús, sem voru metin á allt að því 2 þús. kr. við síðasta fasteignamat — og raunar sum, sem metin voru 3–4 þús. kr. — eru miklu verr komin og hættulegri íbúðir en ýmsir torfbæir, sem metnir eru á fáein hundruð króna.

Aðrar brtt. ber nefndin ekki fram, þó að hún eða einstakir nefndarmenn hefðu gjarnan kosið nokkur atriði á annan veg.

Þá skal ég aðeins minnast á brtt. á þskj. 268. frá hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Borgf., um að hækka framlag ríkisins úr 200 þús. í 250 þús. kr. Þeir standa einir að þessari brtt. Mér skilst af viðtali við hv. aðalflm., að hann byggi brtt. aðallega á því, að samþ. hefir verið 50 þús. kr. hækkun til verkamannabústaða. En þá er þess að gæta, að þegar frv. var afgr. héðan á dögunum, var sú hækkun þegar ákveðin, og getur nú ekki breytt neinu um afstöðu manna til þessa ákvæðis, sem deildin er búin að samþykkja. Meiri hl. n. getur því ekki verið með tillögunni.